Nýjar rannsóknir sýna að ungmenni sem fikta með rafrettur hafa jákvæðara viðhorf til reykinga en þeir sem hafa aldrei notað tóbak. Álfgeir Logi Kristjánsson dósent í lýðheilsuvísindum við HR og við West Virginia University sagði á málþingi fyrir foreldra í Fossvogsskóla nýlega að rafrettur geti virkað sem einskonar brú fyrir ungt fólk til að færa sig úr „veipi“ yfir í tóbaksreykingar og að þeir sem noti rafrettur séu líklegri til að færa sig yfir í tóbak síðar.
Hann tók fram að rafrettur geti verið öflugt tæki til að hjálpa fólki sem vill hætta að reykja. Hinsvegar hafa þær fengið nýtt og óvelkomið hlutverk meðal ungs fólks sem byrjar á rafrettunum.
Rannsóknir og greining hefur rannsakað á vímuefnaneyslu ungmenna hérlendis og í nýjustu rannsókninni kemur fram að ríflega fjögur af hverjum tíu ungmennum hafa einhvern tíma prófað að „veipa“. Álfgeir segir að um leið og þú ert búinn að taka þetta skref þá ertu í raun búin að búa til mengi fyrir breytta hegðun á svipuðu sviði í framtíðinni og að notkun þeirra líki eftir hefðbundnum reykingum.
Rafrettureykingar herma eftir hefðbundnum reykingum og margt bendir til að í þeim séu krabbameinsvaldandi efni þó niðurstöður flestra rannsókna bendi til að þær séu hættuminni en tókabsreykingar. Veipið er líka afar öflug félagsleg athöfn meðal ungmenna og það getur verið erfitt að hafna þeim félagslega þrýstingi sem myndast.
Álfgeir segir að markaðssetning rafrettna sé öðruvísi en á öðrum hlutum sem hjálpa fólki að hætta að reykja og höfði í meira og markvissara mæli til ungmenna. Hann telur að það þurfi að aðgreina rafrettur sem aðferð til að hjálpa fólki við að hætta að reykja og draga úr skaðsemi reykinga og hins vegar að passa að rafrettureykingar verði ekki markaðssettar fyrir unglinga sem spennandi fyrirbæri sem er í rauninn það sem hefur gerst.
„Það má kaupa „veip“ með allskyns spennandi merkingum, bragðtegundum, litum og lyktum, allt atriði sem höfða mjög sterkt til ungmenna. Þarna geta stjórnvöld lagt sitt af mörkum í þágu lýðheilsu fyrir börn,“ segir Álfgeir að lokum.