Ragnhildur Birna Hauksdóttir svarar spurningum lesenda Barna á mbl.is. Hér fær hún spurningu frá áhyggjufullri móður sem á 13 ára son sem er alltaf í tölvunni.
Sæl,
Ég hef áhyggjur af syni mínum því það er ekki hægt að ná honum úr tölvunni. Hann spilar tölvuleiki online eins og Fortnite og eyðir öllum sínum tíma einn inni í herbergi. Hann er alveg hættur að leika við vini sína því hann segist vera í sambandi við þá í gegnum tölvuleikina. Hann er 13 ára og mér finnst hann bara vera að breytast í metnaðarlausan haug. Hvernig get ég virkjað hann og fengið hann til að taka þátt í samfélagi manna?
Kveðja, áhyggjufulla mamman
Sæl, áhyggjufulla mamma.
Takk fyrir spurninguna og ég viss um að margir foreldrar kannist við það þegar ungir drengir laðast að einhverju og geta ekki hætt. Á þessum aldri verður mjög auðveldlega hálfgert stjórnleysi ef ekki er einhver fullorðinn til að setja mörk. Það sem foreldrar átta sig ekki alltaf á er að börn og unglingar vilja að þeim séu sett mörk, þrátt fyrir að þau virðist ekki sátt við það á þeirri stundu þegar mörkin eru sett.
Endurtekning og athygli breytir heilanum
Skoðum aðeins hvað gerist þegar barn spilar tölvuleik margar klukkustundir dag hvern. Í stuttu máli þá breytir það heilanum. Endurtekning og athygli breytir heilanum. En hvernig? Það verður auðveldlega mikið flæði af dópamíni og adrenalíni þegar spilaður er leikur eins og Fortnite. Þegar það gerist aftur og aftur verður veruleikinn (sem á sér stað þegar ekki er verið að spila) nokkuð leiðigjarn og jafnvel aukinn kvíði, þunglyndi og erfiðleikar með einbeitingu.
Sonur þinn þarf þína aðstoð við að breyta mynstrinu
Þú lýsir því í bréfi þínu að þetta sé byrjað að gerast hjá syni þínum. Einu skaltu átta þig á: Það eru afar litlar líkur á að hann muni breyta þessu mynstri upp á eigin spýtur. Þú þarft að taka skrefið og setja mörkin. Þar sem hann virðist vera orðinn nokkuð háður „kikkinu“ sem leikurinn gefur mun hann fara í mótþróa þegar þú ferð að draga úr þessari vellíðan sem leikurinn gefur honum. Kerfið hans mun kalla á verðlaunin líkt og ungt barn mun jafnvel henda sér í gólfið ef það fær ekki sælgæti í sælgætislandi. En þú, kæra móðir, þarft að setja þessi mörk.
Ekki vera hrædd við að takast á við „villidýrið“
Eins og ég tók fram áður, þá breytist heilinn við athygli og endurtekningu. Það er því bara tímaspursmál hvenær heilinn aðlagast breytingunni, þú þarft bara að vera þolinmóð. Ekki vera hrædd við „villidýrið“ sem gæti brotist út hjá syni þinum þegar þú setur mörkin fyrst – það róast þegar það er ekki lengur fóðrað.
Hvernig lærum við sjálfsstjórn
Sjálfsstjórn er mikilvæg í lífinu, að kunna að hemja tilfinningar og tjá þær. Það er eitthvað sem lærist ekki í tölvuleik eins og Fortnite. Slíkt lærist í gegnum samskipti og nánd við aðra manneskju. Það er mjög misjafnt hvað fólk telur hæfilegan skjátíma. Ég verð að viðurkenna að ég er enginn sérfræðingur til að meta hvað er hæfilegur tölvutími. Garðabær gaf út viðmið um skjátíma fyrir foreldra og þar eru 90-120 mínútur á dag hámark fyrir börn á aldrinum 10-13 ára og ætti sá tími að vera undir eftirliti.
Gangi þér vel að hjálpa syni þínum að finna það jafnvægi sem hann þarfnast til að þroskast og dafna.
Kveðja,
Ragnhildur Birna
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent spurningu til Ragnhildar Birnu HÉR.