Vilhjálmur Bretaprins og eiginkona hans, Katrín hertogaynja, senda jólakort eins og aðrar fyrirmyndarfjölskyldur. Í ár eru þau í fyrsta skipti með þrjú börn á jólakortamyndinni enda eignuðust þau sitt þriðja barn í vor.
Fjölskyldan er afar afslöppuð á myndinni sem var greinilega tekin þegar farið var að hausta á sveitasetri þeirra. Foreldrarnir eru í gallabuxum og hinn fimm ára gamli prins, Georg, er kátur í stígvélum á meðan Karlotta prinsessa er í blárri prjónaðri peysu með fallegu mynstri.
Lúðvík litli er skælbrosandi á myndinni en hann hefur stækkað hratt síðan hann kom í heiminn 23. apríl.