Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefjar mbl.is. Hér fær hún spurningu frá móður sem er í basli með barnið sitt því það pissar alltaf undir á nóttunni.
Sæl,
Barnið mitt pissar alltaf undir á nóttunni og erum við foreldrarnir ráðþrota. Barnið er níu ára og þrátt fyrir að drekka bara með kvöldmatnum dugar það ekki til. Þetta skapar mjög vonda stemningu á heimilinu.
Kveðja, K
Sæl kæra K.
Takk fyrir bréfið þitt og ég skil vel óþægindin sem þessu fylgja. Það fylgir hins vegar ekki hér hvort þú hafir farið til læknis með barnið. Ég veit ekki hvað þú hefur prófað nú þegar.
Í fæstum tilfellum eru alvarlegar orsakir sem valda því að börn pissi undir, en auðvitað er mikilvægt að leita læknis og fá úr því skorið hvað veldur. Börn upplifa stundum að þau séu þau einu sem eiga við þetta vandamál að stríða, en sannleikurinn er sá að þetta er algengara en margir halda. Hins vegar er ekki talað eins mikið um þetta og asma eða ofnæmi hjá börnum.
Það eru auðvitað afar litlar líkur á að barnið þitt geri þetta með ásetningi. Það þarf því að finna skilning og stuðning. Sum börn pissa undir því þau geta ekki lesið skilaboð sem blaðran sendir til heila um að vakna og fara á klósettið, önnur ná einfaldlega ekki að halda í sér til morguns. Mjög oft er þetta ættgengt og börn vaxa upp úr þessu með tímanum. Það þarf alls ekki að vera merki um tilfinningavanda þó að barn pissi undir þótt það sé auðvitað til.
Það er ekki lausn að vekja barnið um miðja nótt til að fara á klósettið og leiðir það frekar til þess að barnið verður vansvefta og pirrað. Refsing eða að barnið finni pirring foreldra leiðir ekki til lausna og hjálpar ekkert. Barnið þitt þarf að finna stuðning og fá trú á að þið finnið út úr þessu saman. Byrjið á að leita læknis eins og áður sagði og vinnið ykkur frá þeim stað.
Gangi ykkur vel
Ragnhildur Birna fjölskyldumeðferðarfræðingur.
Liggur þér eitthvða á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR.