Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefjarins. Hér fær hún spurningu frá konu sem er nýkomin í samband við mann sem er allt of tengdur fyrrverandi tengdafjölskyldu.
Sæl
Ég kynntist manni fyrir ári síðan og hann er skilin[n] fyrir þremur árum síðan eina fólkið sem hann umgengst er fyrrverandi má[g]konur eða mágar og makar þeirra og fjölskyldur. Heimilið stendur þeim opið og rúmlega það og eina fólkið sem hann fer til, er til þeirra. Ég er ansi þreytt á þessu þar sem þetta fólk deilir endalaust upplýsingum um fyrrverandi og hennar kærasta. Fer þá ekki það sama til baka til hennar? Er ekki hluti af því að skilja að skilja við fjölskylduna líka?
Kveðja, K
Sæl mín kæra og takk fyrir spurninguna þina.
Það er í raun ekki eitt svar við þessum vangaveltum þínum. Þið hafið verið saman í eitt ár og þú upplifir að samskipti unnusta þíns við fjölskyldu fyrrverandi maka ógna ykkar sambandi á einhvern hátt.
Skilnaður er á milli tveggja aðila
Skilnaður er aðeins á milli tveggja aðila, það er ekki verið að skilja við heila fjölskyldu. Við kynnumst fólki á ferðalagi okkar í lífinu og öll náin sambönd snerta okkur á einhvern hátt. Við skilnað breytast oftast tengsl við fjölskyldu fyrrverandi maka, það gerist í flestum tilfellum að sjálfu sér til að nýr farvegur geti orðið til. Ekki er nauðsynlegt að loka á heila fjölskyldu og það er heilbrigt að varðveita sambönd við fólk sem manni þykir vænt um – hins vegar þurfa eðli samskiptanna að breytast.
Þegar fyrrverandi er hluti af sambandinu ykkar
Ykkar samband þarf tækifæri til að vaxa og til að það geti orðið þarf það að vera í forgangi. Það er mjög eðlilegt að þú sért þreytt á þessum nánu tengslum hans við fólkið sem tengist hans fyrrverandi konu. Þið þurfið að byggja upp ykkar samband, finna gagnkvæmt traust, læra hvernig þið nærið hvort annað, finna ykkar sameiginlegu gildi og svo framvegis. Auk þess er mikilvægt að þið finnið að þið eruð að skuldbindast hvort öðru, það er ekki mikið tækifæri til þess ef þú upplifir eins og fyrrverandi sé á einhvern hátt hluti að sambandinu ykkar, jafnvel í gegnum annað fólk.
Tjáðu þig – Hér þarf að setja mörk
Tjáning og mörk í samböndum skipta afar miklu máli og þú þarft að tjá þig um hvernig þér líður með þessi nánu tengsl. Ekki láta gremjuna byggjast upp. Það er viðeigandi að samskiptin breytist og þú átt ekki að þurfa að hugsa um hvort fyrrverandi fá stöðugar fréttir af ykkar lífi eða öfugt. Í fyrsta lagi þarf unnusti þinn að setja þau mörk að samskipti hans við fjölskylduna fjalli ekki um fyrrverandi konu hans. Það er kominn tími til að fólk hætti að tengja þau saman á þennan hátt. Þetta er væntanlega ómeðvitað og þarf að benda á það sem blasir við þér. Í öðru lagi átt þú ekki að hafa þá tilfinningu að fyrrverandi kona hans sé undir, yfir og allt um kring. Hann þarf ekki að hætta að tala við þetta fólk en það er viðeigandi að draga úr samskiptum ykkar vegna.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR.