Vill alls ekki láta kalla sig „ömmu Siggu“

Sigga vill alls ekki láta kalla sig ömmu Siggu.
Sigga vill alls ekki láta kalla sig ömmu Siggu.

Ragn­hild­ur Birna Hauks­dótt­ir fjöl­skyldu­fræðing­ur svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún spurn­ingu frá ömmu sem veit ekki hvernig hún vill láta ávarpa sig. 

Sæl

Mig hefur lengi langað að opna á umræðuna um ömmur og afa í samsettum fjölskyldum. 

Sonur minn á stjúpbörn og án allrar umræðu var ég orðin „amma Sigga“, ekki það að börnin hafi byrjað að nota þetta heldur sonur minn og tengdadóttir. Mér finnst það óviðeigandi að hálfstálpuð börn kalli mig ömmu. Það er ekkert að því að þau kalli mig með mínu nafni án þess að bæta „amma“ framan við. 

Ég get verið Sigga gagnvart stjúpbörnunum en amma gagnvart barnabörnum mínum. Stjúpbörnin eiga sínar ömmur og afa og ég hef ekki neinar ömmutilfinningar gagnvart þeim enda sé ég þau kannski einu sinni i mánuði.

Ég vil hvetja fólk til að ræða þessi mál þ.e.a.s. hvernig viltu að stjúpbörnin þín ávarpi þig?

Kveðja, Sigga. 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

 

Sæl og blessuð og takk fyrir þessa frábæru spurningu. Stjúpfjölskyldur er orðið sífellt algengara fjölskylduform i samfélaginu okkar. Þar verða hlutverk oft og tíðum ruglingsleg og umræða því af hinu góða. Ég þekki ekki þá samsettu fjölskyldu þar sem ekki hafa verið einhverjar áskoranir sem aðrar fjölskyldur standa ekki frammi fyrir.

Amma eða stjúpamma

Að vera stjúpamma er ekki það sama og að vera amma þar sem eru líffræðilegar tengingar. Það tekur tíma að þróa hollustu, ábyrgð og ástúð í stjúptengslum. Slíkt kemur í flestum tilfellum auðveldlega þegar tengslin við börnin hefjast við fæðingu. Að koma inn í líf barna sem eru hálfstálpuð, eins og þú lýsir, er á öðrum forsendum. Það þarf ásetning og vilja til að styrkja tengsl ef þau eiga á annað borð að styrkjast. Ef ásetningurinn er til staðar er það byrjunin, svo vinnur tíminn með ferlinu. Smátt og smátt fara einstaklingar inn í þægindaramma og finna sínu hlutverki farveg.

Settu þín mörk

Þú segir að það það hafi verið hugmynd foreldranna, en hvorki þín né barnanna sjálfra, að þú fengir ömmutitilinn. Ég veit ekki hvort þessi hálfstálpuðu börn hafi raunverulega tekið upp á því að kalla þig Siggu ömmu. Það er sjálfsagt að þú ræðir við foreldrana og segir þína skoðun. Þú getur beðið þau um að sleppa því að hvetja börnin til að skreyta þig „ömmu“-titlinum. Þú getur að sjálfsögðu sýnt hlýju, stuðning og vinsemd án þess að vera kölluð amma. Mögulega eiga þín ömmubörn núna einnig stjúpömmu sem veltir sömu hlutum fyrir sér og þú. Mestu skiptir að þú komir hreint fram við þitt fólk, það er ekkert rétt og rangt hér. Stálpuð börn skilja oftast vel að tengsl eru mismunandi. Allt er þetta persónubundið svo alls ekki vera hrædd við að setja mörk.

Hægt er að finna gagnlegar upplýsingar hjá stjúptengslum.is

Gangi þér vel í nýja hlutverkinu. 

Kveðja, Ragnhildur Birna Hauksdóttir. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Ragn­hildi Birnu póst HÉR. Eins er hægt að panta ráðgjöf hjá henni HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda