Dóttirin of þykk – hvað er til ráða?

Íslensk móðir hefur áhyggjur af barni sínu.
Íslensk móðir hefur áhyggjur af barni sínu. mbl.is/Thinkstockphotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefjar mbl.is. Hér fær hún spurningu frá móður 10 ára gamallar stúlku sem er farin að fitna töluvert. 

Sæl.

Dóttir mín sem er 10 ára er farin að fitna töluvert. Hún hefur alltaf verið mjúk en núna virðist hún vera að bæta á sig. Ég passa að hún fái hollan morgunmat og nesti en ég veit ekki nákvæmlega hvað gerist í skólanum og þangað til ég kem heim úr vinnunni klukkan fjögur á daginn.

Ég upplifi að hún sé sólgin í sætindi og velji alltaf óhollari kostinn ef hún fær að velja. Hvernig get ég komið henni á rétta braut án þess að brjóta hana niður og segja henni einfaldlega að hún sé of feit.

Kveðja, mamman.

 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

 

Sæl

Hugsa fram í tímann

Þakka þér kærlega fyrir þessa spurningu. Ég veit að þú munt ekki fara þá leið að segja dóttur þinni að hún sé of feit, það væri engum til gagns eins og þú bendir á. Það getur verið gott að gera matseðil með henni fram í tímann og undirbúa nokkra daga. Þetta getur verið gott samvinnuverkefni, jafnvel fyrir alla fjölskylduna. Umfram allt leyfðu henni að hafa áhrif á hvað keypt er inn. Þetta er einn möguleiki sem hægt er að styrkja og á sama tíma að auka meðvitund með uppbyggilegum samtölum um mikilvægi hollrar fæðu. Matartíminn verður að vera afslappaður og þægilegur og í raun öll umræða um mat. Það er mikilvægt halda sig á svæðinu þar sem dóttir þin fer ekki í fyrirstöðu þegar þið ræðið um mat almennt, heldur að þið vinnið frekar að því saman að því að mynda heilbrigt samband við mat. 

Mögulegir orsakavaldar

Svo er vel þess virði að skoða hvort um sé að ræða leið til að minnka streitu í líkamanum eða jafnvel að slökkva á óþægilegum hugsunum. Langvarandi streita þvingar okkur oft inn á brautir til að slökkva á henni tímabundið og óþægilegar hugsanir geta orðið tíðar vegna reynslu sem ekki hefur náðst að vinna úr. Jafnvel getur streitan eða óþægilegu hugsanirnar verið að einhverju leyti ómeðvitað en varnarkerfi hugans er samt á fleygiferð að finna ráð til að slökkva á þessum óþægindum. Það getur verið gert með því að borða eða annað sem lætur einstaklinginn finna eitthvað annað í stutta stund. Hjá börnum er oft skortur á getu til að vinna með það sem orsakar óþægindin. Börn eru viðkvæm fyrir streitu og skynja einnig vel streitu annarra í kringum sig, jafnvel það vel að þau fara að upplifa hana innra með sér, í sínu kerfi. Ef orsakavaldurinn er streita á einhverjum vígstöðvum þá þarf að vinna með það. Einnig er gott að finna sér heilbrigðari leiðir til að takast á við streitu ef það er tilfellið, því streita er gjarnan samferða okkur alla ævi, að minnsta kosti af og til.

Leiðir

Ég get ekki hætt að tala um ágæti fjölskyldufunda á heimilum. Þar sem allir geta rætt líðan sína óhindrað og ýmislegt sem tengist því að búa saman sem fjölskylda. Það getur verið góður vettvangur til að tala um streitu og þær áskoranir sem eru hjá hverjum og einum. Fyrsta skrefið er alltaf að tala og þá sjáum við stundum hlutina í nýju ljósi. Það er einnig hægt að skoða saman leiðir eins og öndun, skoða verkefnastjórnun og hvort einstaklingar séu að ráða við þau verkefni sem eru í gangi. Svo er auðvitað besta meðalið og það er hreyfing. Nú veit ég ekki hvort dóttir þín stundar reglulega hreyfingu en hún vinnur með okkur í öllum þeim verkefnum sem við erum í – það er bara svo einfalt. Eg hvet ykkur líka til að skoða áhugamálin og ánægjustundir almennt. Allir verða að fá andlega næringu og þú getur mögulega skoðað þann vinkil með henni líka. Skortur á ánægjustundum getur ýtt undir vanlíðan og þá er auðvelt að fara í það að auka tímabundna ánægju með því að borða eða gera annað sem hefur hliðstæð áhrif.

Þetta er það sem ég hef fyrir þig núna mín kæra móðir. Það að borða óhóflega er að mínu viti afleiðing einhvers annars. Gangi ykkur vel í framhaldinu kæru mæðgur.

Kveðja,

Ragnhildur Birna fjölskyldufræðingur. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda