Ástralski barnasálfræðingurinn Michael Carr Gregg segir að unglingsstelpur séu farnar að biðja foreldra sína um að fá varafyllingar áður en þær fara á skólaböll.
Hann segir að Instagram hafi þessi áhrif en ein stúlknanna sem fékk varafyllingu sagði að hún hafi viljað fá varir eins og raunveruleikaþáttastjarnan Kylie Jenner. „Mér fannst varirnar mínar of litlar og eldri systir mín fékk sér varafyllingar. Síðan sá ég varirnar hennar Kylie Jenner,“ sagði 17 ára stúlka í viðtali við The Daily Telegraph í Ástralíu.
Rebecca Ziegler, eigandi lýtalækningastöðvarinnar About Face í Ástralíu, segir að ungar stelpur og konur komi oft með myndir af Instagram-stjörnum og vilji fá eins varir. Hún segir væntingar þeirra oft vera óraunhæfar og að myndunum hafi oft verið breytt í myndaforriti. „Þetta snýst allt um að líta út eins og Kylie Jenner, Kardashian útlitið,“ segir Ziegler.