Samskiptin við soninn upp í loft vegna peninga

Íslensk kona veit ekki hvernig hún getur átt heilbrigð samskipti …
Íslensk kona veit ekki hvernig hún getur átt heilbrigð samskipti við son sinn. mbl.is/ThinkstockPhotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefjar mbl.is. Hér fær hún spurningu frá móður þrítugs manns sem er í basli með hann. 

Sæl,

Þannig er að ég á tæplega þrítugan son sem ég hef verið í mjög litlu sambandi við í tæplega ár. Það gerðist aðallega vegna þess að ég neitaði að „lána“ honum peninga þar sem ég var orðin ansi þreytt á því að vera notuð sem hans persónulega veski og segja má að 80% af mínum launum hafi farið í hann undanfarin ár. En svo loksins hittumst við um daginn og því miður, þá rann það upp fyrir mér að það var bara „same old same old“. Hann sagðist vera svo blankur og reyndi að höfða til minnar samvisku. 

Sem betur fer gaf ég mig ekki. Í hnotskurn er málið það að ég fæ alltaf rosalegan kvíðahnút í magann ef hann hefur samband því ég veit að ástæðan er bara ein. Ég er búin að reyna að tala við hann um þetta og hann stendur í þeirri meiningu að hann eigi þetta inni hjá mér. Sem ég tel vera alrangt og ef ég reyni að útskýra það fyrir honum þá reiðist hann. Þannig að ég bakka alltaf út úr þeim samræðum áður enn illa fer. Spurning mín er sú. Á ég að loka alveg á hann?

Kveðja, bugaða móðirin

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Sæl og kærar þakkir fyrir bréfið þitt.

Öll viljum við eiga í heilbrigðum samskipum við fjölskyldu okkar og þá á ég við að þau séu opin og að við getum tjáð okkur nokkuð hindrunarlaust. Það þýðir auðvitað ekki að ekki verði ágreiningur eða að við séum öll á sama ferðalaginu. Heldur að við getum verið þau sem við erum og að hver og einn hafi það rými sem hann þarf til að þroskast sem manneskja án þess að einhver annar ræni hann tækifærinu til þroskans. Í þessu rými þurfum við að takast á við okkur sjálf, vaxa inn í það að taka fulla ábyrgð á okkur. Enginn annar getur gert það fyrir okkur. Stundum gerist það að mörkin á milli ættingja í fjölskyldu verða óskýr og rýmið sem nauðsynlegt er til persónuþroska er ekki lengur til staðar. Ég ætla að útskýra þetta örlítið nánar.

Fyrstu árin upplifum við líðan barna okkar mjög sterkt og við getum sagt að við upplifum tilfinningar þeirra áþreifanlega innra með okkur. Sársauki þeirra verður sársauki okkar og varnarkerfi okkar fer í gang ef sársauki þeirra er mikill. Smátt og smátt, ef við erum í ágætu sambandið við okkur sjálf, förum við að færast frá því að finna svo sterk viðbrögð og förum að gefa meira rými til að börnin geti sjálf lært og vaxið. Við smitumst minna af þeirra líðan og getum talað um að samkennd okkar verði framsýn (e. proactive empathy). Þegar við sýnum framsýna samkennd upplifum við innra með okkur jákvæðar tilfinningar og kærleiksríkar. Við stuðlum að eigin velferð og tilfinningar eru ekki sjálfmiðaðar. Þarna eru mörkin heilbrigð og með því að setja þau finnum við að við erum að setja þau til farsældar okkar og annarra.

Ef þú getur sett syni þínum þau mörk að þú sért að styðja við hans og um leið þinn persónulega þroska þá eru mörkin ekki svo sársaukafull þegar þau eru sett, að minnsta kosti ekki þegar þau hafa verið sett nokkrum sinnum.

Þegar þú setur syni þínum mörk í kærleika, þrátt fyrir viðbrögð hans, þá gefur þú honum tækifæri á að þroska eigin tilfinningagreind og á sama tíma ertu að þroska þina eigin.

Þú lýsir því að þú upplifir kvíðahnút þegar hann hefur samband og það segir mér að í raun og veru séu það viðbrögð við smiti. Þú ert að smitast af hans hegðun og ferð þar af leiðandi í sjálfsbjargarham. Þegar þú ert í sjálfsbjargarham er varnakerfi þitt virkt og tilfinningar þínar eru neikvæðar og sjálfmiðaðar. Manneskja sem oft er í sjálfsbjargarham, með varnarkerfi sitt virkt, fer smátt og smátt að upplifa meiri streitu, áhugi á samskiptum getur minnkað og heilsan fer versnandi.

Þú spyrð hvort þú eigir að loka á hann, svar mitt til þín er að fyrst og fremst þarftu að komast á þann stað með sjálfa þig að þú getir sett heilbrigð mörk með því að sýna framsýna samkennd. Ég veit að þetta hljómar eflaust pirrandi en það er í raun lykillinn að velferð þinni og ykkar beggja.

Þú elskar son þinn og hann þig en mörkin ykkar eru á kolröngum stað. Ef til vill þarftu tímabundið rými frá honum á meðan þú vinnur þig á þann stað að geta sýnt samkennd en á sama tíma sett heilbrigð mörk. En fyrst og fremst upplifir þú batann þegar reynt er á mörkin þín og þu finnur innra með þér að þú ferð ekki inn í sjálfsbjargarhaminn þinn. Þú vinnur þig ekki á þann stað endilega með fjarveru hans heldur með því að vinna með þitt innra heilbrigði. Ástæðurnar fyrir viðbrögðum þínum geta verið margar eins og sektarkennd, skömm eða að þú hafir ekki fengið heilbrigðar fyrirmyndir í að setja heilbrigð mörk þegar þú varst sjálf barn. Hver svo sem ástæðan er, þá þarftu ef til vill að biðja um hjálp og fá aðstoð við þessa vinnu. Þannig getur þú tekið ábyrgð á þinni andlegu heilsu sem skilar sér til sonar þíns með einum eða öðrum hætti. Þetta getur verið spennandi þroskaverkefni því þú ert með ansi öflugan kennara.

Gangi þér vel mín kæra,

Ragnhildur Birna Hauksdóttir 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda