Eftir að ketó sló í gegn fyrir nokkrum misserum eru svokölluð ketó-börn að fæðast út um allan heim. Fólk sem hefur átt erfitt með að geta börn náttúrulega á allt í einu von á börnum. Er það samt allt fituríka matnum að þakka?
Á samskiptasíðunni Reddit má finna sögur af ketó-börnum. Einn maður sagði ketó-mataræðið hafa gert konuna sína ólétta. Útskýrir hann að til þess að eignast sitt fyrsta barn hafi þau farið í tæknifrjóvgun. Þau voru búin að reyna í tvö ár þegar konan varð ólétt náttúrulega á ketó. Segir hann þau hafa lést um rúmlega 11 kíló. Eftir þrjá mánuði á sykurlausu fæði varð konan ólétt.
Maðurinn fékk góðar undirtektir.
„Ketó-börn eru til. Margt fólk verður ólétt, viljandi eða ekki. Ég og eiginmaður minn förum extra varlega þegar ég er á ketó. En þetta hljómar eins og gott fyrir ykkur öll svo til hamingju,“ skrifar ein kona sem virtist hrædd við að verða ólétt á ketó.
Á vef Health má finna þessa söguna af manninum að ofan. Í grein um frjósemi og ketó kemur fram að á Facebook sé að finna hópa um ketó-börn þar sem fólk hefur sömu sögu að segja. Ekki eru þó allir frjósemislæknar sannfærðir um að akkúrat ketó-mataræði sé lykillinn eins og kemur fram á sama vef.
Þeir frjósemislæknar sem rætt var við vilja meina að þyngdin leiki stærra hlutverk og almennt mataræði sem stuðli að heilbrigði. Tala þeir um að alls kyns mataræði sem stuðli að þyngdartapi geti hjálpað þegar kemur að frjósemi.
„Það er eðlilegt að þau eigi auðveldara með að verða ólétt eftir þyngdartap,“ sagði annar læknirinn. „Ef þú kemur BMI-stuðlinum niður í eðlilega tölu, hvort sem þú ert maður eða kona, hjálpar það heilsu þinni og frjósemi.“
Það er þó tekið skýrt fram að það er ekki akkúrat kílóatalan sem segir til um hversu frjósamt fólk er. Hins vegar getur offita oft haft áhrif á hormónastarfsemi og gert til dæmis konum erfiðara fyrir að eignast börn.