Atli Fannar Bjarkason verkefnastjóri samfélagsmiðla RÚV eignaðist soninn Tind árið 2017. Þegar Tindur varð tveggja ára á dögunum bakaði pabbi hans köku handa honum. Atli Fannar segist ekki vera neinn Bjarni Ben. Þegar kemur að kökuskreytingum en hann hafi þó gert sitt besta.
– Hvaðan kom hugmyndin?
„Áður en sonur okkar fæddist var ég með stórar yfirlýsingar um að ég ætlaði að vera duglegur að baka. Sjálfur ólst ég upp hjá einstæðum föður og hann var mjög duglegur að henda í skúffuköku á sunnudögum, þannig að ég sótti innblásturinn ekki langt. Eftir að Tindur fæddist hef ég hins vegar ekki verið nærri því nógu duglegur, fyrir utan að baka einstaka sinnum pönnukökur. En allir geta bakað pönnukökur. Þegar við héldum upp á tveggja ára afmæli Tinds kom einhvern veginn ekkert annað til greina en að ég myndi standa við stóru orðin.“
– Ertu sjálfur mikið afmælisbarn?
„Nei, ég myndi ekki segja að ég sé mikið afmælisbarn. Held sjaldan upp á afmælið mitt með veislu og geri sjaldan mikið úr þessum degi.“
–Var það ekki stór stund að baka köku fyrir soninn?
„Ég verð að viðurkenna að ég væri aðeins montnari ef botnarnir væru ekki frá Betty Crocker. Ég fór hins vegar sjálfur út í búð og fann risavaxið kringlótt form sem hentaði og eggin brutu sig ekki sjálf. Þá mæli ég með smjörkremsuppskriftinni hennar Evu Laufeyjar og þó að skreytingin sé ekki flókin lagði ég talsvert á mig til að gera flagsandi makkann svona fáránlega raunverulegan.“
– Hvað varstu lengi að útbúa kökuna?
„Ég vaknaði snemma, bökun hófst um klukkan níu og ég var að klára að skreyta um klukkan 14. Þetta var talsverð vinna og ég fann að ég var undir miklu álagi; það hefði verið svo glatað að þurfa að bruna út í bakari og kaupa nýja köku ef allt hefði farið í vaskinn.“
– Ertu þessi heimilislega týpa?
„Ég veit ekki alveg hvað það þýðir, eru ekki allir rosa duglegir að elda og þrífa í dag? Ég mætti alveg standa mig betur á þeim sviðum eins og á mörgum öðrum en ég reyni að gera mitt besta.“
– Hvernig er verkaskiptingin á heimilinu?
„Verkaskiptingin er að mestu sanngjörn. Vonandi. Ég mætti samt vera duglegri við að brjóta saman þvott.“
– Hvernig er að vera pabbi?
„Það er mjög gaman að vera pabbi og eiginlega miklu skemmtilegra en ég bjóst við. Ég er meira og minna búinn að vera hlæjandi síðustu tvö ár. Tindur er svo ótrúlega fyndinn og skemmtilegur, þegar hann er ekki svangur. Eða þreyttur. Eða þegar einhverjar óútskýrðar tilfinningar blossa upp sem hann hefur hvorki kunnáttu né vilja til að tækla á yfirvegaðan hátt. En þessi augnablik eru í lágmarki og hann er eiginlega alltaf yndislegt barn sem kennir mér meira en ég gæti nokkurn tíma kennt honum.“
– Var upplifunin öðruvísi en þú bjóst við áður en sonurinn fæddist?
„Það sem kom mest á óvart er hvað maður lærir allt hratt. Mér finnst ég strax vera orðinn algjör ofurpabbi en samt er ég bara búinn að vera að þessu í tvö ár. Ég þarf alveg að stíga á bremsuna áður en ég byrja að predika um svefnvenjur við aðra foreldra. Ég verð örugglega byrjaður að gefa út bækur eftir þrjú ár. Vonandi ekki samt.“
– Hvernig pabbi viltu vera?
„Ég vil bara vera aðalmaðurinn í hans augum. Einhver sem hann treystir og leitar til. Og bakar ótrúlegar kökur fyrir afmælisveislurnar.“