Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá móður sem veit ekki alveg í hvorn fótinn hún á að stíga.
Sæl.
Sjö ára barnið mitt á vin til margra ára, vinskapurinn er náinn og góður. En hitt barnið er skapstórt og á erfitt með að hemja sig, það hefur verið undir einhverskonar eftirliti í skólanum. Ég var að vona að með aldrinum myndi þetta minka. Nú koma mæður annarra barna til mín og segja mér að þeirra börn þori ekki að leika við mitt barn vegna skapofsa vinarins.
Barnið mitt kom heim og sagði hitt barnið hafa hrint sér tvisvar sinnum þann daginn - annars vegar því það reiddist þegar það heyrði ekki svar við spurningu og hélt að það hefði verið hundsað. Hitt skiptið því barnið mitt klukkaði það í eltingaleik. Áður hefur það að minnsta kosti tvívegis lamið barnið mitt. Barninu mínu líður illa með að segja frá þessu og vill ekki að vinurinn sé skammaður. Barnið mitt segir, „x er gott barn.“
Hvernig er best að snúa sér í þessu? Hvað á ég að segja við barnið mitt og hvernig er best að vinna með svona í skólanum og með foreldrum hins barnsins?
Með kveðju, ráðalausa mamman.
Sæl Ráðalausa móðir og kærar þakkir fyrir bréfið þitt.
Þú segir að barnið þitt og vinurinn hafi verið vinir í mörg ár, þannig að vináttan hefur verið frá leikskólaaldri. Einnig nefnir þú að vinskapurinn hafi verið náinn og góður. Slíkum vinskap ber að sjálfsögðu að hlúa að, þrátt fyrir að vinurinn eigi erfitt með að stjórna tilfinningum sínum. Hinsvegar ef barnið þitt er nánast eingöngu í samskiptum við þennan vin getur það leitt til þess að barnið þitt þrói með sér meðvirkni gagnvart vininum til að halda friðinn og ekki síst ef önnur börn eru ekki að umgangast þennan dreng af ótta við skapofsa hans.
Mín skoðun er sú að við foreldrar eigum að fara varlega í að fjarlægja allan sársauka frá börnunum okkar. Já, það er ljóst að vinurinn þarf aðstoð og hjálp og á sama tíma segirðu að vinskapurinn sé náinn og góður. Stundum er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og þarna væri það mikil hjálp fyrir vininn að þú færir í samstarf með foreldrum hans. Barnið þitt lærir að setja heilbrigð mörk og vinurinn að tjá reiði sína á heilbrigðan hátt.
Þegar unnið er að því að byggja upp góð samskipi þurfa oft margir að leggjast á eitt. Skólinn getur stutt við ykkur og þú einnig unnið með foreldrum vinarins. Uppskeran getur orðið ríkuleg þegar samvinnan er góð og skilar sér líklega til framtíðar. Ekkert barn lemur og hrindir ef því líður vel svo vinurinn þarf augljóslega aðstoð við það sem stuðlar að jafnvægi og vellíðan.
Hinsvegar þarf ef til vill að styðja við að önnur börn hafi einnig aðgang að þínu barni og mér finnst það svolítið einkennilegt ef aðrar mæður leggja ekki í að leyfa börnum sínum að leika við þitt barn þrátt fyrir skapofsa vinarins. Það þýðir ef til vill að þitt barn þarf líka hvíld frá þessum vini til að hafa rými í að byggja upp samskipti við aðra. Þarna skiptir mestu að þið foreldrar talið saman. Það ráð sem ég gef þér er að búa til samráð með öðrum foreldrum. Ekki taka ákvarðanir byggðar á ótta. Upplýstar ákvarðanir byggjast á því að hafa kynnt sér allar hliðar málsins. Með góðu samráði geta gerst kraftaverk.
Kær kveðja,
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu póst HÉR.