„Þetta var mitt val en ekki barnanna“

Stella Björg og Orri ásamt börnum sínum fjórum. Þeim Freyju …
Stella Björg og Orri ásamt börnum sínum fjórum. Þeim Freyju Rán, Dagný Lilju, Alexander og Eirnýju Ósk. Ljósmynd/Aðsend

Stella Björg Kristinsdóttir er bæði móðir og stjúpmóðir. Hún og eiginmaður hennar, Orri Hermannsson, kynntust þegar hún var 22 ára og hann 34 ára. Þá átti hann þrjú börn úr fyrri samböndum. Hún segir mikilvægt að stjúpmömmur móti hlutverk sitt sjálfar og taki ábyrgð á vali sínu. 

Stella segir að hún hafi litið á það sem bónus að eiginmaður hennar hafi átt börn úr fyrri samböndum. Í dag er Stella móðir Freyju Ránar og stolt stjúpmóðir þriggja barna á öllum aldri.

Stella er þakklát fyrir að hafa fengið það hlutverk að verða stjúpmamma en hennar reynsla sé sú að allar þær stjúpmömmur sem hún hafi kynnst hafi viljað reyna sitt besta.

„Það fara allir inn í fjölskylduna og reyna sitt allra besta. Það sama átti við um mig. Ég vildi ekki gera mistök en maður lærir fljótt að það eiga sér stað mistök alveg eins og í kjarnafjölskyldum. Það er eins og maður setji á sig auka pressu því maður vill svo innilega að allt gangi vel. Sú pressa getur reynst erfið til lengdar og það eina sem er þörf á er að stjúpforeldrar reyni sitt besta. Það er aldrei hægt að vera fullkominn. Þegar maður reynir það býr maður til spennu og það gerir hlutina erfiðari þegar þeir koma upp.

Pressan getur gert það að verkum að hlutir sem eðlilegt er að takast á við í lífinu fá ekki svigrúm. Því það er þessi pressa að allt þurfi að vera í góðu, alltaf. En raunin er að tengslin styrkjast bara þegar við göngum í gegnum hluti saman og mun eðlilegra en að allt sé alltaf í glans.“

Hvernig var þetta hjá þér til að byrja með?

„Þetta var bara pínu skrítið í fyrstu en ég var bara 22 ára og það voru voða fáir í kringum mig sem voru í stjúpfjölskyldu. Flestar vinkonur mínar voru einnig barnlausar svo ég gat ekki alveg tengt við þetta, komandi sjálf úr kjarnafjölskyldu. Þetta er smá eins og Valgerður Halldórsdóttir ráðgjafi hjá Stjúpfjölskyldum orðaði það; eins og að koma inn í leikrit þar sem helling er búið að eiga sér stað og þú þarft að ganga inn í nýtt hlutverk.“

Stella vissi að þar sem hún var að taka að sér nýtt hlutverk þyrfti hún að læra nýja hluti.

„Þar sem ég þekkti engan í þessari stöðu var ég fljót að skrá mig í stjúpunámskeið hjá Valgerði og kynnst þar öðrum stjúpmæðrum til að ræða við og leita ráða. Eins hef ég alltaf verið áhugasöm að kynna mér málefni stjúpfjölskyldna.

Við erum með börn á öllum aldri svo við vorum á hverjum tíma fyrir sig að fara í gegnum mismunandi aldursskeið og tímabil tengt því. Eitt barnið var sem dæmi í leikskóla, annað í barnaskóla. Við vorum með barn að klára 10. bekk á sama tíma.

Svo að hlutir eins og að finna bíómynd sem hentaði öllum var áskorun.“

Dásamleg fjölskylda í dag

Hvernig er þetta núna hjá ykkur?

„Það er eiginlega bara dásamlegt. Ég á rosalega falleg en á sama tíma ólík tengsl við öll stjúpbörnin mín. Skemmtilegast af öllu er líka að sjá hvernig sambönd systkinanna eru og hversu frábær en ólík tengsl þau eiga á milli sín. Þrátt fyrir mikinn aldursmun er svo mikill vinskapur og kærleikur á milli allra. Svo eru algjör forréttindi að samskiptin á milli heimila eru rosalega fín og sem dæmi ef elsta stjúpdóttir mín er kannski að passa yngstu stelpuna okkar þá er hún bara mætt í hakk og spagettí hjá mömmu þeirra, sem er alveg ómetanlegt.“

Stjúpbörnin eru Dagný Lilja sem er 19 ára, Alexander sem er 14 ára og Eirný Ósk 8 ára. Spurð hvað sé skemmtilegast við samsettar fjölskyldur segir hún hvað allir verði ríkir.

Stella Björg er á því að ekki sé hægt að …
Stella Björg er á því að ekki sé hægt að vera fullkomin stjúpmamma. Hins vegar er hægt að setja sér markmið á þessu sviði og lifa eftir því. Ljósmynd/Aðsend

„Það eignast allir auka tengsl og fleiri til að þykja vænt um.

Svo finnst mér ekkert leiðinlegt að segja núna þegar ég varð 30 ára í júlí að ég hef fermt tvisvar fyrir þrítugt.“

Þú ræður hvernig stjúpmamma þú ert

En stærsta áskorunin?

„Að finna hjá sjálfum sér hvernig stjúpforeldri maður vill vera og ná góðri fjölskyldumynd!“

Hvað tekur langan tíma að þínu mati að setja saman samsetta fjölskyldu?

„Ég held að það geti verið eins misjafnt og þær eru margar. Það geta verið svo ólíkar aðstæður hjá fólki. Ég held að það sé til dæmis allt aðrar áskoranir að tveir aðilar taki saman bæði með börn úr fyrra sambandi heldur en þegar einn á barn/börn úr fyrra sambandi. Svo getur spilað inn í hversu mörg börn eiga í hlut eða hversu langt það er síðan skilnaður átti sér stað og hvort er búið að vinna úr honum.“

Hvað gerðir þú til að styrkja þig sem stjúpmóður?

„Ég til dæmis fattaði snemma að það væri mitt að ákveða hvernig ég vildi túlka hlutverkið stjúpmamma. Það er til dæmis algengt að stjúpmömmur vita ekki alveg hvers er ætlast til af þeim í þessu hlutverki og eiga þá erfitt með að fóta sig. Þegar ég fattaði að það var mín ákvörðun að byggja upp hvernig stjúpmamma ég vildi vera varð hlutverkið mun auðveldara og náttúrulega. Svo hef ég alltaf haft það bak við eyrað og reynt að muna að ég valdi að byrja með Orra og fá að koma inn í þeirra fjölskyldu en börnin fengu ekki sama val svo þau þurfa gott svigrúm.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda