Ragna Björg Ársælsdóttir á tvö börn, þau Árdísi Rún sem er sex ára og Ármann Dag sem er þriggja ára. Ragna Björg heldur úti matarblogginu Ragna.is auk þess að vera hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans og verkefnastjóri. Ragna Björg segir að störf hennar, hvort sem það er á spítalanum eða í eldhúsinu, hafi töluverð áhrif á uppeldið. Ragna Björg sagði Barnavef Mbl.is frá fimm ráðum sem hún leggur áherslu á í uppeldinu.
Tilfinningagreind barna
„Það er mikilvægt að hlúa að tilfinningagreind barna en tilfinningagreind (e. emotional intelligence) er mikið í umræðunni í kringum mín störf sem hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri. Það hefur þess vegna verið hálfgert hugðarefni mitt að hjálpa börnunum mínum að ná styrk í tilfinningagreind. Það er hægt að gera með því að viðurkenna tilfinningar þeirra upphátt, með því til dæmis að segjast sjá að þau séu pirruð, glöð, spennt, reið og svo framvegis. Að kenna þeim hvaða tilfinningar þau hafa í mismunandi aðstæðum og hvernig þau vinna með það.
Barn sem er að efla tilfinningagreindina getur samglaðst, sýnt samkennd og skilur eigin tilfinningar. Ég stóð mig að því eitt kvöldið um daginn að vera stolt móðir þegar ég var að tannbursta Árdísi dóttur mína. Hún hafði verið óþæg og ekki viljað koma inn á bað í tannburstun. Ég var því skiljanlega komin ansi langt með þolinmæðina þegar tannburstun kvöldsins hófst loksins. Henni fannst ég vera hraðhent í tannburstuninni og sagðist vita af hverju ég burstaði svona hratt. Ég væri pirruð af því að hún hefði verið óþæg. Ágætistilfinningagreind hjá sex ára barni,“ segir Ragna Björg.
Samvera
„Samverutími barna og foreldra er mér mjög mikilvægur. Hann þarf ekki að vera langur og flókinn í framkvæmd eða tímafrekur. Ég lærði það af fjölskyldunni sem ég bjó hjá í Bretlandi sem au-pair árið 2005 til 2006 að það að setjast niður með börnum í heimalærdómi og kvöldmat skiptir máli. Ég er alin upp við það að það sé alltaf kvöldmatur á sama tíma öll kvöld þar sem allir setjast niður og hef hingað til haldið þeirri samveru á mínu heimili. Ég sá að það er mikilvægt að að foreldri setjist einfaldlega niður með barninu þó svo að það sé ekki formlegur kvöldverður.
Annars konar samvera sem ég hef mikið stundað er að eyða tíma í eldamennsku með börnunum. Ég hef alltaf haft gaman af því að elda og fékk mikið að eyða tíma í eldhúsinu með móður minni. Hún er mín fyrirmynd þar og hef ég alltaf leyft börnunum að vera eins mikið með og þau kjósa í eldamennskunni. Þeim bregður reglulega fyrir inni á Ragna.is. Það er ansi gaman að sjá þau hafa sínar skoðanir á aðferðum eða undirbúningi.“
Setja mörk
„Það eru flestir sammála því að börn þurfi að alast upp innan ramma sem setur þeim mörk. Hvað má og hvað má ekki. Þau þurfa líka að vita hvaða afleiðingar það hefur í för með sér að fara yfir mörkin áður en þau eru komin yfir mörkin. Góð lýsing á mörkum sem ná ekki til barna er að nota þá líkingu að börn eigi ekki að búa í hamstrakúlu. Þá á ég við að setja börnunum skýr mörk í formi kúlu en í hvert sinn sem barnið stígur nær mörkunum þá færast þau lengra frá þeim. Það er mikilvægt að börn búi í kassa eða ramma þar sem þau vita nákvæmlega hvar veggurinn er og þegar þau ganga of nærri þeim mörkum þá lenda þau á veggnum.“
Verum til staðar
„Við erum nógu góð í þeirri mynd sem við erum og við foreldrar eigum ekki að falla í þá gryfju að bera okkur saman við aðra. Ég hef enga löngun til þess að vera fullkomna foreldrið en mig langar að vera hamingjusama foreldrið. Ég reyni að stýra þeim hlutum sem ég hef tækifæri til þess að stýra, í þá átt að það auki hamingju mína. Að standa í samanburði og lífsgæðakapphlaupi er ekki hluti af minni hamingju.“
Sjálfstæði
„Ég er alin upp þannig að mér var sýnt hvernig ég ætti að gera hlutina og svo fékk ég að spreyta mig á því að gera þá sjálf. Ég vil að börnin mín fái sama uppeldi og á sama tíma upplifi þau sjálfstraust og finni eigin getu á því að framkvæma verkefni eða komast í gegnum erfiðleika og efla þannig sjálfstraustið. Ég tel það vera mikið og gott fararnesti út í lífið að vera öruggur einstaklingur með sjálftraust. Ég nýt þess að fylgjast með börnunum úr fjarlægð takast á við litlu verkefni lífsins, vera til staðar ef þau þurfa stuðning en einnig taka undir þegar þau gleðjast yfir litlu sigrunum sínum sem eru jafnframt oft svo stórir þegar börnin eru bara þriggja og sex ára.“