Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefsins. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur áhyggjur af mágkonu sinni.
Sæl Ragnhildur.
Spurning mín snýr að þunglyndi og kvíða.
Þannig er mál með vexti að mágkona mín er haldin miklu þunglyndi og kvíða. Hún er öryrki en er í námi sem stendur sem er henni nánast ofviða (að minnsta kosti andlega). Hún var mikill þunglyndissjúklingur fyrir 2-3 árum en náði sér aðeins á strik eftir meðferð í Virk og lífið virtist aðeins vera komast í betra horf hjá henni. Á þessu ári flutti hún í sama bæjarfélag og ég og maðurinn minn og sáum við það sem tækifæri til að geta hjálpað henni meira (hún er einstæð) og eytt meiri fjölskyldutíma saman með henni.
En núna undanfarið er henni greinilega búið að líða mjög illa í nokkurn tíma og það er mjög erfitt að umgangast hana því hún bara tekur ekki „þátt“ (það er einhvernvegin svo erfitt að orða þetta). Hún hringir aldrei af fyrra bragði í okkur en við reynum að bjóða henni til okkar í mat eða samveru að minnsta kosti 1-2 í viku. Þegar hún kemur þá er hún kannski bara með fýlusvip, talar ekki við okkur nema við séum að spyrja hana beinnar spurningar. Tekur ekki þátt í samræðum. Nánast eins og barn í fýlu en þetta er kona á fertugsaldri!
Okkur langar svo mikið til að hjálpa henni en við höfum bara ekki kunnáttu til að hjálpa henni í þessu þunglyndi. Við höfum sjálf ekki upplifað það og eigum því erfitt með að setja okkur í hennar spor. Hvað getum við gert? Þetta fer að enda þannig að okkur langar bara ekki til að hitta hana því það verður allt svo þungt og leiðinlegt þegar hún kemur.
Við gerum okkar besta til að gera allt sem við getum fyrir hana en það er eins og hún kunni ekki að meta það eða bara hreinlega vilji ekki hafa samskipti við okkur.
Ertu með einhver „tól“ sem við getum nýtt? Hvað getum við gert til að hjálpa henni upp úr þessum dal? Hún er mjög einmana, á ekki marga aðra til að leita til. Erum við kannski að reyna of mikið? Eigum við að bakka?
Að lokum langar mér að taka það fram að hún heldur að hún sé að fela þetta vel, talar aldrei um þunglyndi eða að henni líði beint illa. Talar frekar um hvað allt er ömurlegt og glatað, talar sjálfa sig niður alveg rosalega mikið. Hún hefur enga trú á sjálfri sér í neinum aðstæðum held ég bara. Stjórnar foreldrum sínum alveg rosalega með „fýlu“. Hún er hjá sálfræðing en finnst eins og henni hafi samt hrakað mikið eftir sem líður á haustið.
Kveðja ráðvillt
Sæl og blessuð og takk fyrir bréfið þitt.
Þú veltir fyrir þér hvað þið getið gert til að hjálpa mágkonu þinni upp úr þunglyndinu og einmannaleikanum og ég geri ráð fyrir því í svari mínu að hún hafi fengið greiningu hjá fagaðila. Skoðum þetta mál örlítið. Einkenni þunglyndis geta verið meðal annars viðvarandi depurð, þungt skap eða pirringur, almennt áhugaleysi gagnvart hlutum sem jafnvel áður veittu ánægju, neikvæðar hugsanir, lítil almenn virkni, orkuleysi, vonleysi, einbeitingaskortur, sektarkennd og sjálfsgagnrýni svo eitthvað sé nefnt. Þú getur rétt ímyndað þér hversu lítið einstaklingur með langvarandi þunglyndi getur almennt gefið af sér, hann á lítið til fyrir sjálfan sig. Ekki er hægt að gefa það sem maður ekki á. Mágkona þín er sjálfhverf vegna vanlíðaninnar, ekki vegna þess að henni þykir ekki vænt um ykkur.
Það er þekkt að þegar einstaklingur innan fjölskyldu upplifir alvarlegt þunglyndi til lengri tíma, hefur það áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi á sama tíma og aðrir fjölskyldumeðlimir hafa áhrif á þunglyndið. Sjúkdómurinn sjálfur setur sitt mark á líðan og samskipti. Þú vilt greinilega vera til staðar, en á sama tíma finnurðu hvernig sjúkdómurinn er farinn að hafa áhrif á þína eigin líðan. Eðlilegar upplifanir aðstandendaenda geta verið hjálparleysi, gremja, reiði, ótti, sektarkennd og depurð. Þessar tilfinningar eru eðlilegar því það getur verið yfirþyrmandi fyrir aðstandendur.
Hérna koma nokkur tól sem geta geta verið gagnleg fyrir aðstandendur fólks með alvarlegt þunglyndi.
Frumkvæði að tengslum. Alvarlega þunglyndur einstaklingur hefur alla jafna ekki mikið frumkvæði að því að tengjast öðrum, þrátt fyrir að þörfin fyrir tengsl séu sannarlega til staðar. Þú segir í bréfi þínu að þið bjóðið mágkonu þinni.
Aðstandendur þurfa að rækta sig. Það er þekkt að aðstandendur einstaklinga með andlega erfiðleika, hvort sem það er þunglyndi, alkóhólismi eða aðrir geðsjúkdómar, sogast stundum fullmikið inn í heim sjúkleikans. Þetta hljómar ef til vill svolítið dramatískt en engu að síður er auðvelt að týna svolítið eigin ferðalagi þegar athyglin er of mikil á það erfiða
Það er alls ekki hægt að skrifa tæmandi lista yfir hvað aðstandendur geta gert til að styðja þunglyndan einstakling. Vonandi kemur þetta ykkur af stað og oft er gott að ræða jafnvel við fagmann til að þið finnið öryggi í ykkar hlutverkum og smitist ekki um of af líðan þess sem líður verst hverju sinni. Gangi ykkur vel,
Kærleikskveðjur,
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR.