Dásamlegt að vera hluti af fæðingarupplifun

Helga Reynisdóttir ljósmóðir.
Helga Reynisdóttir ljósmóðir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Helga Reynisdóttir ákvað ung að verða ljósmóðir. Hún miðlar reynslu sinni og þekkingu á Instagram-síðu Ljósmæðrafélags Íslands. Frá og með deginum í dag geta lesendur mbl.is einnig sent Helgu og samstarfskonu hennar, Hildi Sólveigu Ragnarsdóttur ljósmóður, spurningar um allt sem tengist meðgöngu og fæðingu.

Sendu ljósmæðrunum spurningu hér. 

Hvað var það sem heillaði við ljósmæðrastarfið?

„Ég ákvað þegar ég var ung að ég ætlaði mér að verða ljósmóðir, það hlyti ekki að vera til skemmtilegra og verðugra starf og það stendur algjörlega undir þeim væntingum. Starfið er strembið og námið krefjandi og ekki fyrir hvern sem er, á sama tíma er það mjög skemmtilegt og mér hefur sjaldan þótt jafn skemmtileg og spennandi lífeðlisfræði og frumulíffræði eins og í framhaldsnáminu mínu. Það er svo dásamlegt að fá að vera hluti af þessari upplifun fólks og leiða fjölskyldur í gegnum það þrekvirki sem fæðing er.“

Af hverju eru ljósmæður á Instagram? 

„Við byrjuðum fyrir nokkru síðan á Snapchat en það fer mikil vinna í að kynna sér og vera með staðreyndir á hreinu sem og að setja inn efni og það var synd og skömm að það hyrfi svo allt eftir sólarhringinn. Auk þess eru margar ungar konur á Instagram og það er þægilegur miðill þar sem hægt er að geyma „story“ og spila aftur og aftur. Við erum að veita fræðslu varðandi hina ýmsu þætti varðandi meðgöngu, fæðingu, sængurlegu, brjóstagjöf og fleira. Konur geta svo sent inn spurningar og við svörum þeim eftir bestu getu.“ 

Hvað er það sem fær mestu viðbrögðin?

„Það eru margir forvitnir um ýmislegt sem kemur að fæðingunni enda ekki hægt að valsa inn á fæðingardeild og kynna sér aðstæður. Flest Instagram-innleggin okkar eru með jafnmörg áhorf enda getur maður alltaf bætt við sig þekkingu og svo breytast „tískustraumar“ í þessu fagi eins og öðru. Það sem var gert fyrir tíu árum síðan er kannski alls ekki ráðlegt í dag. Rannsóknum og vísindunum fleygir sífellt fram.“ 

Meðgöngur og fæðingar er mörgum hulinn heimur og það kemur mörgum á óvart hversu ólíkur raunveruleikinn er t.d. því sem sést í bíómyndum þegar á hólminn er komið. Hvað er það sem kemur fólki kannski mest á óvart?

„Ég held sem betur fer að flestar konur séu betur upplýstar en áður. Með tilkomu internetsins eru upplýsingar svo aðgengilegri og konur geta flokkað út og skoðað það sem þeim hentar á meðgöngu og undirbúið sig. Hér áður fyrr voru gefnar út bækur sem stikluðu á stóru um helstu viðfangsefni en núna er til mikið af efni, bókum, hlaðvarpsþáttum, fræðigreinum, Youtube-rásum og sjónvarpsefni sem er aðgengilegt og ætti að gefa konum sem skýrasta mynd af þessu. Mín upplifun er að konur eru mjög vel upplýstar og búnar að lesa sér mikið til þegar þær koma inn í fæðingu. Flestar konur hafa einnig sótt fæðingarfræðslunámskeið og margar brjóstagjafanámskeið en það hjálpar konum og mökum þeirra þegar á hólminn er komið.

Hvað myndir þú telja að væri ein helsta spurning sem brennur á konum á meðgöngu? Eru spurningar maka öðruvísi?

„Það fer mikið eftir því hvar í ferlinu konan er, en yfirleitt eru spurningarnar eitthvað tengdar líðandi stundu. Makarnir eru helst að velta því fyrir sér hvað þeir geti gert til að hjálpa eða létta undir, bæði á meðgöngunni og fæðingunni sem er frábært! Það er ekki svo langt síðan makarnir voru ekki þátttakendur í fæðingunni og núna eru þeir flestir mjög svo virkir og góður stuðningur af þeim.“

Þú getur sent ljósmæðrunum spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda