Engar tvær fæðingar eins

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir segir að það taki tíma að fæða barn og sú mynd sem er gefin af fæðingum í kvikmyndum sé skrítin og röng. Les­end­ur mbl.is geta nú sent Hildi Sólveigu og sam­starfs­konu henn­ar, Helgu Reynisdóttur ljós­móður, spurn­ing­ar.

Sendu ljós­mæðrun­um spurn­ingu hér.

Af hverju ákvaðst þú að verða ljósmóðir?

„Mig hafði lengið langað til að verða ljósmóðir en fór ekki í námið fyrr en á „efri árum“. Ég var búin að vinna lengi í þægilegri dagvinnu en fann svo að ég varð að breyta til, vinna við það sem ég hafði ástríðu fyrir. Þannig að ég dreif mig loksins í námið og sé ekki eftir því. Ég gæti ekki hugsað mér að starfa við eitthvað annað. Ljósmæðrastarfið er alveg ótrúlega gefandi, fjölbreytt og krefjandi. Það sem er líka heillandi er að maður getur unnið töluvert sjálfstætt,“ segir Hildur. 

Hverjar eru erfiðustu aðstæðurnar sem ljósmæður lenda í?

„Ljósmæðrastarfið getur líka verið krefjandi og erfitt. Ljósmæður sinna konum og fjölskyldum í alls konar aðstæðum og oft eru þær mjög erfiðar. Mér finnst erfiðast að sinna fólki þegar um andvana barn er að ræða. Þessar stundir eiga að vera hinar gleðilegustu en þetta er allt örðuvísi. Það eina sem maður getur gert er að vera til staðar og hlusta og veita stuðning. Sem betur fer er þetta ekki algengt en kemur því miður fyrir. Ég held að öllum ljósmæðrum finnist þetta vera eitt af því erfiðasta sem þær fást við. Maður finnur það einnig á ljósmæðranemum að þeir kvíða þessu oft.“

Hverjar eru gleðilegustu stundirnar?

„Mitt aðalstarf er á Fæðingarvaktinni á Landspítalanum. Ég starfa líka í heimaþjónustu og er með fæðingarfræðslu hjá 9 mánuðum. Gleðistundir á meðgöngu og í fæðingu eru margar en þar sem ég starfa á Fæðingarvaktinni finnst mér fæðingin sú mesta gleðistund sem bæði foreldrar og ljósmæður upplifa. Mér finnst alltaf svo mikil forréttindi að fá að vera með fólki þegar það er að eignast barn. Þessi reynsla og þessi stund er svo dýrmæt og mér finnst svo magnað að fá að taka þátt í henni. Mér finnst líka ótrúlega mikilvægt að vanda sig og gera vel á þessum tímapunkti í lífi fólks því að þetta er einstök stund og kemur ekki aftur.“ 

Var eitthvað sem kom þér á óvart við starfið þegar þú fórst að starfa sem ljósmóðir?

„Í rauninni ekki þannig. En ljósmóðurfræði er flókin kúnst og maður er einhverm veginn alltaf að læra eitthvað nýtt. Maður er aldrei fullnuma. Engar tvær fæðingar er eins því konur eru einstakar. Það er kannski helst það sem kemur á óvart og það gerir starfið líka svo skemmtilegt. Engir tveir dagar eins.“

Hvaða mýtur finnst þér langlífar varðandi fæðingar og meðgöngur?

„Þar sem ég er líka með fæðingarfræðslunámskeið þá heyrir maður ýmislegt og einmitt ýmsar hugmyndir sem fólk hefur um fæðinguna. Kannski helst það að hugmynd hjá mörgum er sú að það taki ekki langan tíma að fæða barn. Sú mynd sem er gefin af fæðingum í bíómyndum er líka svo skrítin og röng. Annaðhvort fer legvatnið með þvílíkum látum og konan er bara að fara að fæða eftir nokkrar sekúndur. Eða þá að það byrja verkir og síðan skömmu seinna er konan komin í fæðingu. Svona er þetta ekki í raunveruleikanum. Að fæða barn tekur tíma og maður þarf að vera þolinmóður þegar að því kemur.“

Þú get­ur sent ljós­mæðrun­um spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda