Helga Reynisdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda mbl.is um allt sem tengist meðgöngu og fæðingu. Hér svarar hún spurningu um meðgöngu og hjáveituaðgerð.
Nú á ég von á mínu þriðja barni. 11 ár síðan ég átti fyrsta barn, 7 ár síðan ég átti annað barn og núna er lítill óskadraumur á leiðinni. Það er margt sem fær mann til þess að velta fyrir sér, en þessi draumur kom á óvart, enda vorum við búin að reyna í lengri tíma þegar við ákváðum að taka sjálf okkur í gegn. Núna eru 13 mánuðir síðan ég fór í bypass-aðgerð, mér skilst að það sé bara aukið eftirlit í dag en í raun engin áhættumeðganga þannig séð.
Ég bý í litlum bæ úti á landi, og á mér draum um að eiga barnið heima hjá mér. Fyrsta fæðingin gekk skelfilega og barnið tekið með kiwí klukku, önnur fæðingin var draumi líkust og núna langar mig til þess að eiga barnið mitt heima. Eru áhættuþættir sem ég þarf að huga að? Eða er skynsamlegast að fara á næsta spítala og eiga barnið þegar að því kemur?
Ég væri endilega til í að heyra kosti og galla þess að eiga heima.
Með bestu kveðjum <3
Heil og sæl.
Til lukku með „óskadrauminn“ ykkar.
Konur sem fara í hjáveituaðgerð þurfa að vera í áhættumæðravernd ef ekki eru liðin 2 ár frá aðgerð. Einnig þurfa konur að fá viðtal við fæðingarlækni í upphafi meðgöngu og aftur við 34 vikna meðgöngu og/eða eftir þörfum.
Rannsóknir hafa sýnt fram á aukna hættu á fyrirburafæðingum, áhættu á vaxtarseinkun og innlögnum á vökudeild hjá börnum kvenna sem hafa nýlega farið í magahjáveituaðgerð. Einnig eru þær í örlítið aukinni áhættu á keisaraskurði.
Ég mæli með því að þú ræðir val á fæðingarstað við fæðingarlækni. Vonandi færðu draumafæðinguna þína þegar að því kemur, hvort sem hún verður á næsta fæðingarstað eða heima.
Kær kveðja,
Helga Reynis,
ljósmóðir
Þú getur sent ljósmæðrunum spurningu HÉR.