„Spenn­andi en líka rosa­lega erfitt“

Íslenskir foreldrar bíða eftir að komast út til Tékklands.
Íslenskir foreldrar bíða eftir að komast út til Tékklands. Ljósmynd/Colourbox.dk

Íslensk hjón sem hafa verið í ætt­leiðingar­ferli í tæp þrjú ár í gegn­um Íslenska ætt­leiðingu fengu að vita að búið væri að para þau sam­an við barn í Tékklandi fyr­ir tveim­ur vik­um. Und­ir venju­leg­um kring­um­stæðum væru þau kom­in út en óvíst er hvenær þau hitta barnið sitt vegna kór­ónu­veirunn­ar.

Hjón­in vilja halda nöfn­um sín­um leynd­um. Þau eru aðeins búin að segja nán­ustu ætt­ingj­um og vin­um frá ætt­leiðing­unni en ekki er mælt með því að segja öll­um frá strax þar sem margt get­ur enn komið upp á í ferl­inu.  

Biðin núna marg­falt erfiðari

Hvernig er að vita af því að það er ein­hver þarna úti sem er að bíða eft­ir ykk­ur?

„Við erum alveg í skýjunum en auðvitað er þetta líka erfið staða sem við erum í. Hver dag­ur er eins og heil vika. Vana­lega fer ferlið bara í gang og fólk er oft­ast farið út eft­ir viku, tíu daga. Í lang­flest­um til­vik­um fer fólk út um leið og það get­ur,“ segja hjón­in. 

Hjón­in eru búin að bíða lengi en segja biðina nú vera marg­falt erfiðari þar sem þau eru kom­in með barn.

„Þetta er bæði spenn­andi en líka rosa­lega erfitt. Við erum nátt­úru­lega búin að vera að bíða rosa­lega lengi,“ segja hjón­in. Biðina eft­ir pör­un við barn segja þau vera öðru­vísi en biðina sem þau standa nú frammi fyr­ir. Meiri óvissa fylgdi biðinni áður.

Áður en for­eldr­arn­ir hitta barnið hefst ákveðið aðlög­un­ar­ferli. Barnið fær þá að sjá mynd­ir af for­eldr­un­um. Allt slíkt er í biðstöðu þar sem hjón­in vita ekki hvenær þau kom­ast út. Þau fá þó frétt­ir af barn­inu.

Hjón­in segj­ast reyna að taka einn dag í einu og hef­ur Íslensk ætt­leiðing staðið þétt við bakið á hjón­un­um.

„Þetta óvissu­ástand er voðal­ega skrítið. Þetta fer eft­ir því hvaða lönd vilja opna fyr­ir fólk og fyr­ir hvaða fólk. Maður verður bara að taka einn dag í einu. Á Íslandi er strax kom­in stefna og það virðist vera að mót­ast stefna í Evr­ópu. Við erum eig­in­lega á „stand by“ til þess að kom­ast út. Svo þurf­um við vænt­an­lega að fá ein­hverj­ar vott­an­ir fyr­ir því að við séum ekki smituð.“

Ánægð með að hafa valið ætt­leiðingu

Hjón­in ákváðu að leita til Íslenskr­ar ætt­leiðing­ar þegar þeim gekk erfiðlega að eign­ast barn.

„Okkur fannst þessi leið til að stofna fjölskyldu vera rétta ákvörðun fyrir okkur,“ segja hjón­in um ástæðu þess að þau ákváðu að ætt­leiða. „Við höf­um hitt margt fólk í tengslum við allt ferlið. Það var til dæmis skylda að fara á hjóna­nám­skeið í gegn­um Íslenska ætt­leiðingu. Þar var fullt af fólki í svipaðri stöðu og við sem var mjög gott að hitta. Þar heyrðum við alls konar reynslu­sög­ur og þá áttuðum við okk­ur enn bet­ur á því hvað við vær­um ánægð með þessa ákvörðun.“

Hjón­in ákváðu að ætt­leiða frá Tékklandi þar sem sam­starf Íslenskr­ar ætt­leiðing­ar við Tékk­land hef­ur gefið góða raun. Eitt af fyrstu skref­un­um var að fá for­samþykki á Íslandi. Fé­lags­ráðgjafi tók viðtöl við þau og þeirra nán­ustu, tók út heim­ilisaðstæður auk þess sem út­vega þurfti ýmis vott­orð. Um ár er síðan papp­ír­ar voru send­ir til Tékk­lands og fyr­ir tveim­ur vik­um fengu þau sím­talið sem þau höfðu beðið eft­ir. Þau fylgj­ast nú meira með kór­ónu­veiru­frétt­um í Tékklandi en á Íslandi og von­ast til að geta hitt barnið sem bíður þeirra sem allra fyrst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda