Íslensk hjón sem hafa verið í ættleiðingarferli í tæp þrjú ár í gegnum Íslenska ættleiðingu fengu að vita að búið væri að para þau saman við barn í Tékklandi fyrir tveimur vikum. Undir venjulegum kringumstæðum væru þau komin út en óvíst er hvenær þau hitta barnið sitt vegna kórónuveirunnar.
Hjónin vilja halda nöfnum sínum leyndum. Þau eru aðeins búin að segja nánustu ættingjum og vinum frá ættleiðingunni en ekki er mælt með því að segja öllum frá strax þar sem margt getur enn komið upp á í ferlinu.
Hvernig er að vita af því að það er einhver þarna úti sem er að bíða eftir ykkur?
„Við erum alveg í skýjunum en auðvitað er þetta líka erfið staða sem við erum í. Hver dagur er eins og heil vika. Vanalega fer ferlið bara í gang og fólk er oftast farið út eftir viku, tíu daga. Í langflestum tilvikum fer fólk út um leið og það getur,“ segja hjónin.
Hjónin eru búin að bíða lengi en segja biðina nú vera margfalt erfiðari þar sem þau eru komin með barn.
„Þetta er bæði spennandi en líka rosalega erfitt. Við erum náttúrulega búin að vera að bíða rosalega lengi,“ segja hjónin. Biðina eftir pörun við barn segja þau vera öðruvísi en biðina sem þau standa nú frammi fyrir. Meiri óvissa fylgdi biðinni áður.
Áður en foreldrarnir hitta barnið hefst ákveðið aðlögunarferli. Barnið fær þá að sjá myndir af foreldrunum. Allt slíkt er í biðstöðu þar sem hjónin vita ekki hvenær þau komast út. Þau fá þó fréttir af barninu.
Hjónin segjast reyna að taka einn dag í einu og hefur Íslensk ættleiðing staðið þétt við bakið á hjónunum.
„Þetta óvissuástand er voðalega skrítið. Þetta fer eftir því hvaða lönd vilja opna fyrir fólk og fyrir hvaða fólk. Maður verður bara að taka einn dag í einu. Á Íslandi er strax komin stefna og það virðist vera að mótast stefna í Evrópu. Við erum eiginlega á „stand by“ til þess að komast út. Svo þurfum við væntanlega að fá einhverjar vottanir fyrir því að við séum ekki smituð.“
Hjónin ákváðu að leita til Íslenskrar ættleiðingar þegar þeim gekk erfiðlega að eignast barn.
„Okkur fannst þessi leið til að stofna fjölskyldu vera rétta ákvörðun fyrir okkur,“ segja hjónin um ástæðu þess að þau ákváðu að ættleiða. „Við höfum hitt margt fólk í tengslum við allt ferlið. Það var til dæmis skylda að fara á hjónanámskeið í gegnum Íslenska ættleiðingu. Þar var fullt af fólki í svipaðri stöðu og við sem var mjög gott að hitta. Þar heyrðum við alls konar reynslusögur og þá áttuðum við okkur enn betur á því hvað við værum ánægð með þessa ákvörðun.“
Hjónin ákváðu að ættleiða frá Tékklandi þar sem samstarf Íslenskrar ættleiðingar við Tékkland hefur gefið góða raun. Eitt af fyrstu skrefunum var að fá forsamþykki á Íslandi. Félagsráðgjafi tók viðtöl við þau og þeirra nánustu, tók út heimilisaðstæður auk þess sem útvega þurfti ýmis vottorð. Um ár er síðan pappírar voru sendir til Tékklands og fyrir tveimur vikum fengu þau símtalið sem þau höfðu beðið eftir. Þau fylgjast nú meira með kórónuveirufréttum í Tékklandi en á Íslandi og vonast til að geta hitt barnið sem bíður þeirra sem allra fyrst.