5 uppeldisráð Helgu Baldvins

Helga Baldvins Bjargardóttir er mannréttindalögmaður og á þrjú ung börn.
Helga Baldvins Bjargardóttir er mannréttindalögmaður og á þrjú ung börn.

Helga Baldvins Bjargardóttir mannréttindalögmaður á þrjú ung börn. Hún segir það mikilvægt að leggja áherslu á fjölbreytileikann í lífinu og að leyfa sér stundum að vera fullkomlega ófullkomið foreldri.

„Öll mín uppeldisráð koma frá eigin ítrekuðu mistökum í uppeldi minna þriggja barna sem eru 2 ára, 5 ára  og 7 ára,“ segir Helga.  

Börn mega missa stjórn á tilfinningum sínum, við eigum að grípa þau

„Allt of oft hef ég pirrast, reiðst eða ranghvolft augunum þegar börnin mín missa stjórn á tilfinningum sínum og sérstaklega ef það er vegna einhverra „smávægilegra“ atburða að mínu mati. Ég veit samt að sem fullorðin manneskja er það mitt hlutverk að mæta börnunum þar sem þau eru. Gefa upplifun þeirra vigt og vægi, skilja hvaðan þau eru að koma og grípa þau þegar þau missa stjórn. Eða „lána taugakerfi mitt“ eins og vinkona mín orðaði það svo vel. Þegar það tekst ná tilfinningarnar að hreinsast á mun áhrifaríkari og skilvirkari hátt heldur en þegar ég fer í mótstöðu og nenni ekki þessu „væli“.“

Lýðræði ekki einræði

„Það hefur verið erfitt að horfast í augu við hvað það er samfélagslega samþykkt að beita börn miklu valdi. Börn eru sjálfstæðir einstaklingar með sínar skoðanir, langanir og þrár og eiga rétt á því að reglur heimilisins uppfylli grunnskilyrði réttaröryggis og séu fyrirsjáanlegar og sanngjarnar. Á hátindi bugunar og rökþrots segi ég stundum „Af því ég segi það“ og finn hvernig það hríslast um mig hræsnishrollur því það er ekkert annað en valdbeiting í krafti yfirburðarstöðu. Best finnst mér þegar við getum rætt reglurnar á lýðræðislegan hátt, bætt þær eftir ábendingum barnanna og verið sammála um eðlilegar afleiðingar tiltekinnar hegðunar í stað einhliða og oft ósanngjarnra refsinga.“

Börn kynja sig sjálf

„Ég var svo heppin að vera vinna hjá Samtökunum ’78 þegar strákurinn minn talaði oft um sig í kvenkyni. Þegar stóra systir hans reyndi að leiðrétta hann gafst okkur tækifæri til að ræða fjölbreytileikann. Þá fórum við yfir það hvernig flestar stelpur fæðist með píku en sumar með typpi og flestir strákar fæðist með typpi en sumir með píku svo eina leiðin til að vita hvaða kyni þau tilheyra er að spyrja börnin sjálf hvernig þeim líður í hjartanu sínu. Og það hvernig þau upplifa sig má breytast en þau eiga rétt á því að við virðum þeirra val.“

Forréttindi og ábyrgð

„Mér finnst mikilvægt að kenna börnum strax að við séum öll ólík og það hvernig við erum ólík hefur mismunandi áhrif. Hvernig stelpur eru stundum skammaðar fyrir aðra hluti en strákar. Að krakkar sem passa ekki í kynjakerfið, eru með annan húðlit en hvítan, eru feit eða fötluð verða fyrir meira glápi, aðkasti og einelti. Við berum öll ábyrgð á að gera samfélagið okkar betra og jafnara og við gerum það með því að bera ábyrgð og stíga inn í slíkar aðstæður.“

Fullkomlega ófullkomin

„Stundum er mikið að gera og ég upplifi mig með enga stjórn á heimilisstörfum eða uppeldi. Þá skiptir miklu máli að geta bara stundum leyft sér að vera fullkomlega ófullkomið foreldri sem hefur pönnukökur í kvöldmatinn eða leyfir börnunum að borða snakk fyrir framan sjónvarpið á meðan foreldrarnir grilla sér „gourmet“ máltíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda