Gunnar Freyr Gunnarsson, ljósmyndari og áhrifavaldur, eignaðist tvíbura 9. júlí með eiginkonu sinni Kasiu en fyrir eiga hjónin soninn Markús á fjórða ári. Um leið og það var stressandi að eiga von á tvíburum í kórónuverufaraldrinum var það líka mjög jákvætt að geta hugsað um bjartari tíma fram undan en líf fjölskyldunnar hefur tekið miklum breytingum að undanförnu.
Gunnar Freyr segir það oft hafa verið mjög stressandi að eiga von á tvíburum í miðjum heimsfaraldri. Stressið var mikið í byrjun enda vissu þau ekki almennilega hvaða áhrif kórónuveiran hafði á meðgöngu og hvað þá áhættumeðgöngu eins og tvíburameðgöngu. Á sama tíma þurftu hjónin á mikilli hjálp að halda og voru óviss um hver gæti hjálpað en foreldrar þeirra beggja eru komin yfir sextugt og því í áhættuhópi. Í nokkra mánuði voru þau mikið heima og hittu helst ekki annað fólk nema þegar þau fóru út í búð.
„Sem betur fer var leikskólinn enn þá opinn annan hvern dag í vor. Það bjargaði okkur gjörsamlega enda gat konan mín ekki gert mikið út af meðgöngunni. Ég þurfti að vera mikið með stráknum okkar og á sama tíma reyna að sinna verkefnum og samfélagsmiðlunum mínum,“ segir Gunnar Freyr en hann reyndi að taka leikskólastrákinn sinn Markús með í ljósmyndaferðir út í náttúruna. Gunnar Freyr heldur úti afar vinsælli Instagram-síðu, Iceland Explorer, þar sem hann birtir fallegar myndir úr íslenskri náttúru.
Gunnar Freyr segir að það sem hafði einna mest áhrif á þau á meðgöngunni var að konan hans þurfti mikið að vera ein. Í næstum því tvo mánuði fékk hann ekki að fara með í sónar og ljósmæðraheimsóknir.
„Mér fannst ég svolítið missa tenginguna við meðgönguna á þeim tíma. Ég var því rosalega glaður þegar ég loksins fékk að koma með aftur. Við höfðum miklar áhyggjur af því hvort konan mín myndi þurfa að fæða ein. Til dæmis ef þetta væri keisari eða flókin fæðing, sem oft gerist í tengingu við tvíburafæðingar.“
Kórónuveiran var ekki jafn útbreidd þegar Kasia og Gunnar Freyr áttu von á sér í júlí. Gunnar Freyr var þó eitthvað slappur á sama tíma og svo fór að hann fór í sýnatöku daginn fyrir áætlaðan gangsetningardag. Hann þurfti að vera í einangrun á meðan hann beið eftir niðurstöðum og Kasia fór því ein með elsta son þeirra á leikskólann og svo upp á fæðingardeild.
„Skömmu síðar hringdi heilsugæslan og lét mig vita að ég væri ekki með COVID-19 og ég náði að vera viðstaddur fæðinguna. Það var mikill léttir og eftir það gekk allt vel.
„Það er allt öðruvísi að eiga von á tvíburum heldur en einbura. Ógleði byrjaði miklu fyrr og hætti miklu síðar heldur en með fyrsta drenginn okkar. Með eldri drenginn okkar, þá var alveg tímabil þar sem var skemmtilegt að vera ólétt, á öðrum þriðjungi meðgöngunnar, sem er eins konar „sweet spot“. En á tvíburameðgöngunni var þetta bara erfitt allan tímann. Konan mín þurfti að hætta að vinna og hvíla sig mikið í rúminu. Mest kom á óvart hvað bumban stækkaði hratt og þegar hún var komin sex mánuði á leið var hún eins og níu mánaða þunguð kona með einbura. Frá og með sex mánuðum héldu allir sem sáu hana að hún væri að fara að eiga hvað úr hverju,“ segir Gunnar Freyr.
Gunnar Freyr segir að þau hafi þurft að fara í margar rannsóknir á meðgöngunni og stundum leit út eins og eitthvað væri að. Að bíða eftir niðurstöðum úr sýnum gat tekið mjög á og segist Gunnar aldrei hafa upplifað jafn stressandi aðstæður.
„Þess vegna vorum við búin að undirbúa okkur fyrir það versta fyrir fæðingu og það kom okkur báðum mikið á óvart þegar fæðingin gekk rosalega vel og tveir flottir strákar komu í heiminn. Þetta eru tvíeggja tvíburar og það kom okkur sérstaklega á óvart hvað þeir eru ólíkir og hvað þetta eru ótrúlega miklir einstaklingar, sem bara fæddust á sama tíma,“ segir Gunnar Freyr. Hann bætir við að það hafi alltaf verið draumur að eignast þrjú börn og nú hafi sú ósk verið uppfyllt. Á sama tíma fylgir því auðvitað mikil vinna að vera með þrjú ung börn.
Með stærri fjölskyldu breytast áherslurnar og hafa þau Gunnar Freyr og Kasia heldur betur breytt til. Þau ákváðu að flytja úr iðandi mannlífinu í miðbæ Reykjavíkur í fjölskylduvænna hverfi þar sem stutt er í náttúruna. Kórónuveiran hafði einnig áhrif á þessar breytingar.
„Við höfum alltaf verið mikið miðbæjarfólk og vorum búin að ákveða að vera alltaf í bænum. Að geta farið með barnavagninn á kaffihús, ganga meðfram Sæbrautinni og allt þetta var eitthvað sem okkur fannst æðislegt. En svo kom bæði COVID og tvíburar á kortið sem breytti öllu. Það voru margir mánuðir á meðgöngunni þar sem allir voru heima og maður fann fyrir því hvað það var þröngt í fjölbýli með alla heima allan daginn. Einnig voru kaffihúsaferðir og þétt byggð allt í einu ekki eins spennandi þegar heimsfaraldur var í gangi. Okkur vantaði meira pláss og einfaldari tilveru með eigið bílastæði og garði. Það má segja að við fengum eins konar „reality check“ og það varð mjög skýrt að við þyrftum að gera ýmsar breytingar með þrjú lítil börn.“
Þegar ástandið skánaði á Íslandi í maí voru þau Gunnar Freyr og Kasia fljót til og keyptu hús í Garðabæ og seldu íbúðina sína í miðbænum. Allt ferlið tók ekki nema tvær vikur og er fjölskyldan nú búin að koma sér vel fyrir í nýju sveitarfélagi.
„Það er ekkert kaffihús í göngufæri hér en hins vegar er einstaklega barnvænt hér og stutt í náttúru eins og Heiðmörk og Vífilsstaðavatn. Við erum komin með matjurtagarð og höfum öll mikla ánægju af því að rækta grænmeti og kryddjurtir. Markús elsti strákurinn okkar er núna í sumarfríi og við höfum nú þegar farið að tína sveppi og ýmislegt annað. Við búumst við að þurfa að vera mikið heima í vetur og þess vegna höfum við lagt alla orku í að búa til gott hreiður.“