Óskarsverðlaunaleikkonan Charlize Theron á tvær ættleiddar dætur. Hún greinir frá því í hlaðvarpsþættinum InCharge with DVF að því fram kemur á fréttavef Yahoo! að það hafi reynt mikið á að ættleiða í fyrra skiptið.
„Ég var að hætta í löngu sambandi, næstum því tíu ára sambandi. Á síðustu tveimur árunum í sambandinu langaði mig virkilega að verða móðir og það gerðist ekki,“ sagði Theron og átti þar við samband við leikarann Stuart Townsend. „Og svo þegar sambandinu lauk, ég held að það hafi verið morguninn eftir, sótti ég um ættleiðingu. Ég fann lögfræðing hér í Los Angeles og sótti ekki bara um innanlands heldur einnig alþjóðlega.“
Eina krafa Theron í ættleiðingarferlinu var að barnið væri í þörf fyrir heimili. Hún segir að fyrra skiptið hafi reynt á en hún hóf átta mismunandi ættleiðingarferli sem ekki gengu upp. Theron ættleiddi dótturina Jackson árið 2012.
„Þú tengist tilfinningalega. Í hvert skipti fékk ég að vita af móðurinni og þremur eða fjórum mánuðum seinna kom eitthvað upp og ættleiðingin gekk ekki upp eða manneskjan hvarf og við heyrðum ekki meira frá henni. Allt þetta á tveggja ára tímabili reynir mjög á. Þegar ég hugsa um þetta núna veit ég að þetta átti að fara svona af því að Jackson átti að vera barnið mitt, jafnvel þótt þetta hafi verið tilfinningalegt helvíti. Hún átti að vera barnið mitt.“
Þegar Theron ættleiddi yngri dóttur sína árið 2015 gekk allt mun betur og hraðar fyrir sig og ættleiddi Theron fyrsta barnið sem hún heyrði af. Hún uppfyllti draum dóttur sinnar þegar hún ættleiddi svarta stúlku að nafni August.
Theron segist hafa lært mikið af móðurhlutverkinu og hvernig börnin hennar komu til hennar. Hún er í dag móðir tveggja svartra stúlkna, móðir transstúlku. Hún segir þetta hafa kennt sér hversu lítið hún veit. „Börnin mín hafa algjörleg opnað augu mín aftur fyrir heiminum. Ég segi í gríni að ég sé aftur í háskóla.“