Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sýndi afar lipra takta í morgun þegar hún dansaði með Huldu Björk Svansdóttir og syni hennar Ægi Þór sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn.
„Ægir Þór og önnur börn sem glíma við erfiða og ólæknandi sjúkdóma eru í mínum huga fyrirmyndir okkar. Þau læra það snemma að þau þurfa að hafa miklu meira fyrir hlutum sem börn í kringum þau finnst ósköp hversdagslegir. Nokkur skref taka á og úthaldið er minna. En börn eins og hann Ægir Þór sýna okkur að þau láta sjúkdóma og hindranir þeim tengdum ekki halda aftur að sér. Æðruleysi, dugnaður og gleði er það sem sat eftir hjá mér eftir spjall við þau mæðgin í dag,“ skrifar Katrín á Facebook-síðu sína.
„Ég veit ekki alveg hvort þau áttuðu sig á því um hvað þau voru að biðja þar sem ég hef á mínum 44 árum þróað algjörlega einstakan dansstíl. Ég hef hins vegar tekið eftir því að þessi stíll fellur ekki alls staðar í kramið! Hvað með það, í þessu tilfelli er það hinn góði málstaður sem er aðalmálið og ég held mínu striki með minn dansstíl,“ bætir Katrín við.
Myndskeiðið má sjá á Facebook-síðu Huldu.