„Á ég mér viðreisnar von fyrir fæðingu númer tvö?“

Kona spyr hvort hún eigi mögulega auðveldri fæðingu eftir langa …
Kona spyr hvort hún eigi mögulega auðveldri fæðingu eftir langa fyrstu fæðingu. mbl.is/Thinkstockphotos

Helga Reyn­is­dótt­ir er ljós­móðir á fæðingarvakt og sér um fæðingarnámskeið hjá Kvennastyrk. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Hér leitar kona sem átti erfiða fyrstu fæðingu til hennar. 

Góðan dag.

Ég hef verið að hlusta á fæðingarsögur og alls kyns ráð á netinu (nánar tiltekið youtube) og þar er mikið verið að tala um mátt hugans í fæðingu. Sjálf lærði ég „hypnobirthing“ og var í meðgöngujóga nánast alla meðgönguna og taldi mig vel undirbúna til að takast á við fæðingu sem ég bjóst við að yrði hröð og auðveld því hugurinn var svo vel undirbúinn. Svo var fæðingin tveir sólarhringar með alls kyns inngripum, allt öðruvísi en ég hafði vonað.

Öll vinnan fram að því auðveldaði mér að vísu að tækla það sem kom upp í fæðingunni en það sem situr í mér eru fullyrðingar sem maður heyrir frá mörgum mæðrum á netinu um að líkaminn geri bara það sem hugurinn segir honum að gera. Þannig að óhlýðnaðist líkami minn? Ég sagði honum að ég ætlaði að eiga auðvelda, sársaukalausa og snögga fæðingu. Hversu mikinn þátt spilar hugurinn í þessu?

Einhver sagði að það væri ekki nóg að endurtaka jákvæðar staðhæfingar heldur yrði maður að trúa þeim inn við beinið, í líkamanum. Og að áföll og samfélagsleg áhrif gætu truflað það. Sem sagt á ég mér viðreisnar von fyrir fæðingu númer tvö? Get ég átt hraðari og auðveldari fæðingu? Og þá hvernig?

Kærar kveðjur,

múttan.

Sæl kæra kona. Ég ráðfærði mig við Emblu Ýri Guðmundsdóttur sem er snillingur á sviði „hypnobirthing“, hér er svarið hennar:

„Sæl, mútta.

Frábært að sjá að þú undirbjóst þig vel meðal annars með því að læra „hypnobirthing“ og að vera í meðgöngujóga á síðustu meðgöngu. Undirbúningur fyrir fæðingu er góð leið til að þú öðlist færni í að þróa þín eigin bjargráð sem eru styðjandi fyrir þig persónulega og sem þú getur sjálf tengt tilfinningu um vellíðan. Nú veit ég ekki alla þína fæðingarsögu en það er líklegt að þú hafir þurft að ganga í gegnum áskoranir sem kannski varð til þess að upplifun þín af fæðingunni var ekki í samræmi við væntingarnar sem þú hafðir, samanber „að búast við hraðri og auðveldri fæðingu“. Sumar áskoranir í fæðingunni eru einfaldlega nokkuð sem góður undirbúningur og hugarfar getur ekki haft stjórn á eða komið í veg fyrir, eins og til dæmis þegar kollur barns kemur ekki rétt niður í grindina, veikindi móður eða eitthvað slíkt. Þannig að sem svar við þinni spurningu um hvort líkaminn hafi óhlýðnast þér þá er það stutt: nei. Hann gerði það ekki. Hann var að reyna sitt besta miðað við aðstæður. Hugurinn getur haft mikil áhrif á líðan þína í fæðingunni og upplifun þína á henni en hann getur því miður ekki stjórnað fæðingarferlinu.

En núna er komið að annarri fæðingu og þá er mikilvægt að fókusinn þinn fari þangað, eins og þú gerir í bréfinu. Þá geturðu gert það sem í þínu valdi stendur til að eiga góða upplifun og til að þér líði vel í fæðingunni sem fram undan er. Þættir sem geta haft áhrif á líðan þína í þeirri fæðingu eru meðal annars stuðningur, sem er mjög mikilvægur þáttur í fæðingu og á ég þá við stuðning eins og nærveru þíns stuðningsaðila og ljósmóður sem fylgir þér í fæðingunni, virka aðstoð sem þú færð í fæðingunni, það að óskir þínar séu virtar, að stuðningsaðila þínum sé veittur stuðningur, þá verkjastillingu sem þú þarft á að halda, að þú getir nýtt þér þín eigin bjargráð (eins og „hypnobirthing“ og jóga), kvíðastillingu og aukið sjálfstraust. Svo er annar þáttur sem hefur mikil áhrif á líðan þína í fæðingunni (fyrir utan stuðninginn) og það er tilfinning um stjórn, það að þú getir sjálf tekið þátt í þinni eigin fæðingu, getir tekið upplýstar ákvarðanir, fáir upplýsingar og útskýringar og náir að stjórna þinni orku í fæðingunni og þar kemur „hypnobirthing“ meðal annars inn í. Með „hypnobirthing“ lærir þú tækni til að ná fram djúpslökun í fæðingunni og þar er mikil áhersla á að konur treysti sínum líkama og vinni með honum í fæðingunni í stað þess að spennast upp og vinna á móti líkamanum og fæðingunni, þá er hægt að ná ákveðinni upplifun af stjórn með því að vera í djúpslökun meðan á samdráttunum stendur. En til að ná þessari tækni yfirhöfuð þarf að æfa sig og til að ná tækninni meðan á samdráttum stendur, þ.e. undir álagi, þarf að æfa sig vel. En ekki misskilja mig, ég er alls ekki að gefa í skyn að þú hafir ekki æft þig nóg á síðustu meðgöngu, alls ekki. Það er mikilvægt að hafa raunhæfar væntingar til fæðingarinnar og vita það að hún er mögnuð í öllu sínu veldi, hún er rosalega erfið en algjörlega stórkostleg. Og ef áskoranir koma upp í fæðingunni sem þú getur ekki haft áhrif á (eins og til dæmis veikindi eða kollur sem kemur ekki rétt niður í grind) þá skiptir enn fremur máli að sjá og eiga fallegu augnablikin í ferlinu, eiga góða minningu og ég fæ það á tilfinninguna þegar ég les textann þinn að þú hafir átt góðar stundir þrátt fyrir öðruvísi fæðingu en þú hafðir vonað.

Í „hypnobirthing“ er líka lögð áhersla á að vinna úr erfiðri reynslu, losa um kvíða og eiga góða upplifun þó að hún hafi verið öðruvísi en þú hélst. Til dæmis ef þú ákveður að fara til Ítalíu og svo stoppar flugvélin í Hollandi og þú færð engu um það ráðið. Holland er ekki Ítalía, þú sem varst búin að læra ítölsku og kynna þér Ítalíu og varst búin að hlakka til að borða ítalskan mat og upplifa Ítalíu í öllu sínu veldi. Þá er mikilvægt að syrgja ekki Ítalíuferðina því þá sérðu ekki allt það einstaka sem Holland hefur upp á að bjóða. Þú getur átt fallegar stundir í Hollandi, og einstaka upplifun, kynnt þér hollenska list sem dæmi. Skilurðu mig? Þessi dæmisaga á við um síðustu fæðingu og líka sem undirbúningur fyrir þá næstu.

Við höfum öll mismunandi væntingar og reynsla hefur áhrif á næstu upplifun og þá er mikilvægt að vinna úr þeirri reynslu ef þú telur þig þurfa. Þá getur þú til dæmis rætt við ljósmóður í meðgönguvernd eða í Ljáðu mér eyra (sem er viðtalsþjónusta á Landspítalanum fyrir konur sem hafa til dæmis erfiða reynslu af fæðingu). En það er mjög mikilvægt að muna að annarra manna reynsla skiptir engu máli fyrir þig. Bara þín reynsla og líðan. 

Það getur hjálpað að fara yfir ákveðna þætti sem geta auðveldað þér að ýta undir tilfinningu um stjórn og stuðlað að betri fæðingarupplifun. Til dæmis velta því fyrir þér hvað þér finnst vera styðjandi? Hvernig er hægt að styðja við þig í fæðingunni? Þá bæði ljósmóðirin og stuðningsaðilinn. Svo er gott að velta því fyrir þér hvað þú sjálf tengir tilfinningu um vellíðan. Hvenær líður þér vel, almennt? Við hvaða aðstæður? Ef þér líður illa, ert þreytt, illt í líkamanum, eða veik, hvað finnst þér gott að gera? Finnst þér gott að fara upp í rúm og leggja þig? Fara í bað? Göngutúr? Hafa einhvern hjá þér eða vera ein? Fá kannski hitapoka? Eða strokur eða nudd? Ef þér líður illa, ert til dæmis föst í umferð og sein í próf eða á mikilvægan fund. Þetta eru aðstæður sem þú nærð ekki að stjórna, hvað finnst þér þá gott að gera ? Anda djúpt og reyna að ná slökun? Kveikja á tónlist? Tala við sjálfa þig um að þetta verði allt í lagi? Hvernig nærðu að slaka á undir miklu álagi? Þetta hjálpar þér að finna þín eigin bjargráð og ýta undir tilfinningu um stjórn og vellíðan.

Þú getur líka hugsað út í hvað þú vilt sjálf gera til að finna fyrir öryggi og auka sjálfstraust þitt, og mér sýnist þú einmitt vera að huga að þeim þáttum núna með þessari fyrirspurn og það er mjög aðdáunarvert.

Varðandi jákvæðar staðhæfingar og að trúa þeim inn við beinið og þá þætti sem geta truflað þá, þá er einmitt talað um áhrif hugans og tilfinninga í „hypnobirthing“ og hvernig þú getur losað ótta sem getur haft slæm áhrif á fæðingarferlið. Það er alveg satt að áföll og ótti gagnvart fæðingunni getur haft áhrif á þína líðan og þín líðan getur haft áhrif á fæðingarferlið að vissu marki. Það eru ákveðnir þættir sem við höfum ekki stjórn á og þá er mikilvægt að sleppa takinu, halda áfram með einbeitinguna, huga að sjálfri sér og sinni líðan með þeim bjargráðum sem þú hefur, biðja um þann stuðning sem þú þarft á að halda og koma auga á fallegu augnablikin sem eru til staðar, jafnvel í erfiðum aðstæðum. „Hypnobirthing“ og jóga eru frábær tæki til að ná góðri slökun og sleppa takinu á erfiðari upplifun og sættast við þinn líkama og þykja vænt um hann og þig sjálfa. „Hypnobirthing“ og jóga eru líka frábær tæki til að ná góðri slökun, einbeitingu, vellíðan, tilfinningu um stjórn í næstu fæðingu ásamt góðum stuðningi.

Ég vona að ég sé ekki að vaða úr einu í annað en já elsku mútta, þú átt þér viðreisnar von fyrir fæðingu tvö og já þú getur átt hraðari og auðveldari fæðingu og þú getur átt dýrmætar einstakar stundir í fæðingunni og fallega minningu eftir næstu fæðingu. Ég vona að ég hafi lagt mitt af mörkum við að leiðbeina þér með hvaða hætti þú getur undirbúið þig fyrir næstu fæðingu og ég vona að þú munir upplifa góðar stundir, vellíðan og að þú munir upplifa þig fá þann stuðning sem þú þarft og þannig eiga góða fæðingarupplifun.“

Þú get­ur sent ljós­mæðrun­um spurn­ingu HÉR.

Helga Reynisdóttir ljósmóðir.
Helga Reynisdóttir ljósmóðir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda