Skilnaðurinn var óumflýjanlegur

Sigga Dögg skildi fyrr á árinu.
Sigga Dögg skildi fyrr á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Dögg Arnardóttir, kynfræðingur og rithöfundur, skildi í byrjun árs. Sigga Dögg eins og hún er jafnan kölluð nýtti skilnaðinn sem innblástur þegar hún skrifaði barnabókina Að eilífu ég lofa. Bókin segir frá systkinum og skilnaði foreldra þeirra. Meðan á skrifum stóð var Sigga Dögg að takast á við eigin tilfinningar sem fylgdu í kjölfar skilnaðar en einna erfiðast í ferlinu var þáttur barnanna.

Sigga Dögg og fyrrverandi eiginmaður hennar eiga þrjú börn sem eru á aldrinum þriggja til níu ára. Börnin eru viku og viku til skiptis hjá foreldrum sínum og er nýtt fjölskyldufyrirkomulag að komast upp í vana.

„Við reynum að vera saman eins mikið og mögulega er hægt án þess endilega að vera í einhverju húllumhæi eða hittingum. Ég reyni að halda í hversdagsheitin til að þau átti sig á því að þetta er nýi veruleikinn þeirra. Þessi nýi raunveruleiki er því orðinn hversdaglegur,“ segir Sigga Dögg. 

Kom skipulagi á hugsanir sínar með bókinni

„Ég hreinlega skrifaði bókina því þetta er saga sem mér fannst ég verða að skrifa. Ég var sjálf svo týnd í skilnaðarferlinu og hrædd um börnin mín og framtíðina. Með því að skrifa bókina þá róaðist ég og þetta sem fram undan var varð raunverulegra og gerlegra. Ég þurfti að skapa framtíð þar sem það væri líf í gegnum skilnað og handan hans. Það að skrifa frá sjónarhóli barns gefur þessum fjölmörgu ósvöruðu spurningum fallega einlægni,” segir Sigga Dögg um tilkomu bókarinnar.

Barnabókin Að eilifu ég lofa fjallar um skilnað.
Barnabókin Að eilifu ég lofa fjallar um skilnað.

Skilnaður er dramatískur efniviður og Sigga Dögg reyndi að komast hjá því að skrifa bókina en frá því var ekki komist. Hún segir reyndar fleiri barnabækur mættu fjalla um skilnaði miðað við háa skilnaðartíðni. 

„Ég er nú ekki flóknari en svo að ég skrifa yfirleitt um það sem stendur næst hjarta mínu og á þessum tímapunkti var það skilnaður. Mig langaði alls ekki að skrifa þessa sögu og þegar hún kviknaði í höfðinu mínu þá reyndi ég að bægja henni frá og sagðist ekki hafa neinn áhuga. Svo fór hún ekki neitt og áfram hélt skilnaðarferlið. Í allri ringulreiðinni varð ég að koma skipulagi á hugsanir mínar og upplifanir en eins og með flesta foreldra sem skilja þá óttumst við um börnin. Skrifin voru mjög heilandi fyrir mig, veittu mér útrás og gleði og hjálpuðu mér mjög mikið í gegnum þetta.“

Upphafið að nýju ferðalagi

Hvernig tókst þú á við að segja börnum ykkar frá að þið væruð að skilja?

„Ég tók það einmitt sérstaklega fyrir í sögunni og gaf því mikið pláss því ég vildi ekki skauta yfir þetta samtal, það er svo svakalega stórt og getur verkað óyfirstíganlegt. Þannig gæti upplestur á þeim kafla jafnvel hjálpað einhverjum við að undirbúa sig fyrir það að tala við börnin eða jafnvel að líta til baka og hugsa um hvernig þau sem lesandi upplifðu þennan atburð.

Ég vissi að ég væri að brjóta hjartað í börnunum mínum, ég vissi að þetta var þeirra versta martröð og ég vissi líka að það var ekki hjá þessu komist. Ég reyndi ekki að minnka neinar tilfinningar og lagði mig fram við að reyna að svara öllum spurningum þeirra en líka að leyfa allar tilfinningar. Ég reyndi að halda ró minni og stillingu fyrir framan þau og taka við því sem þau upplifðu hverju sinni án þess að gersamlega brotna niður.“

Fannst þér eitthvert ráð betra en annað þegar kom að því að tala um skilnaðinn við börnin?

„Persónulega fannst mér best að vera einlæg og hreinskilin og leggja ekki mínar áhyggjur á þau eða setja of mikla ábyrgð á þau. Það tekst ekkert alltaf. Bara alls ekki. En ég reyni og það hefur verið mitt leiðarljós í þessu, að reyna að vera sterk fyrir þau og sýna þeim að skilnaður sé bara endastöð á einu ferðalagi og upphafið á öðru.“

Ekki hægt að búa sig undir skilnað

Hvernig tekur maður ákvörðun um að skilja þegar maður er búinn að vera með maka í langan tíma, byggja líf með makanum og eignast börn?

„Ég hef bara mína upplifun og hún er eitthvað á þá leið að þetta er ekki ákvörðun sem þú bara tekur allt í einu en samt er hún það líka. Þegar ég áttaði mig á því að skilnaður vofði yfir þá kom ekkert annað til greina. Það varð svo óumflýjanlegt. Og ég huggaði mig við það að annað fólk hefði skilið, fundið ástina, búið til nýjar blandaðar fjölskyldur og áfram snerist jörðin og nýr dagur leit dagsins ljós. Þetta er hægt og þetta má.

Í mínum huga var skilnaður óhugsandi þangað til hann var eina ráðið í stöðunni. Við eigum bara þetta eina líf og það er okkar að gera það eins vel og unnt er. Ég vildi veita börnunum mínum hamingjusama móður sem getur tekið alls konar ákvarðanir og leyfir sér að elta alla drauma. Það er það sem ég legg mikla áherslu á í uppeldinu, að taka ábyrgð á sér og sinni hamingju og að vera sinn eigin gæfusmiður. Ég held að það sé ekkert rétt í þessu frekar en i öðru, þetta er bara hunderfitt og engin leið að undirbúa sig fyrir þetta en maður verður að halda í að það muni stytta upp um síðir. Þetta mun ganga yfir.“

Sigga Dögg segir mikilvægt að halda áfram eftir skilnað.
Sigga Dögg segir mikilvægt að halda áfram eftir skilnað. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég lofaði sjálfri mér þegar ég var pínulítil að ég ætlaði aldrei að skilja, ég hélt að það væri það hræðilegasta í heimi. En svo erum við hér og enn dreg ég andann og brosi meira að segja og hlæ,” segir Sigga Dögg. Æskudraumurinn var að vera eins og aðrir í fjölskyldunni þar sem eðlilegt var að gifta sig, eignast börn og kaupa hús. „En auðvitað hafa margir skilið í kringum mig, bæði þegar ég var barn og svo núna sem fullorðin manneskja. Þess vegna er svo gott að fá smá innsýn í þessa upplifun og geta sýnt samúð og skilning. Það má líka ekki gleyma því að fjölskyldur eru alls konar, eins og kemur fram í bókinni hjá bestu vinkonu Steinunnar, henni Dagnýju, þá getur verið fjársjóður í að eignast ný systkini og nýtt stjúpforeldri. Lífið, og fólkið í því, hvort sem titlast fjölskylda eða vinur, er breytilegt og maður má hanna sína eigin fjölskyldu.“

„Ég er alltaf mamma þeirra“

Sigga Dögg segir að það taki helling á að vera foreldri í þessum aðstæðum. 

„Ég reyni eftir fremsta megni að vera til staðar fyrir þau; svara erfiðum spurningum, spila Ólsen Ólsen, smyrja ristað brauð með Nutella og skrifa jólagjafalista. Ég legg mig fram við að skapa öryggi í kringum þau, að þau viti að þau megi spyrja mig að hverju sem er og geti treyst því að ég ljúgi ekki að þeim. Ég er alltaf til í að taka samtalið þótt það geti oft verið hellings átök og oftar en ekki fylgi því tár og ég sit heillengi eftir í djúpri óvissu um hvort ég hafi ekki örugglega komið þessu og hinu rétt frá mér. Ef ég upplifi að mér hafi mistekist eitthvað, ég gleymt einhverju eða ekki náð að standa við eitthvert loforð þá einfaldlega bið ég þau afsökunar. Við tökum alltaf samtalið því það er svo dýrmætt.

Þetta viku og viku fyrirkomulag er held ég hentugast í stöðunni en oft er vikan án þeirra ansi lengi að líða. Það sem hjálpar mér er að ég hlúi að mér í vikunni sem þau eru ekki hjá mér. Svo eru eldri börnin svo sæt að senda mér skilaboð, hringja og kíkja stundum við. En það er skrýtið að taka við öllu og vera allt en bara í viku. Ég er alltaf mamma þeirra þótt þau séu ekki hjá mér en ég áttaði mig líka á því að ég varð að sleppa stjórn til að komast í gegnum þetta. Það hjálpar engum að vera í samanburði eða samkeppni. Börnin eiga þessi tvö heimili og þar með tvö fjölskyldulíf með ólíkum reglum. Í sögunni Að eilífu ég lofa koma foreldrar sér einmitt upp sameiginlegum fjölskyldureglum undir handleiðslu Bjarthildar fjölskylduráðgjafa sem eiga að virka á báðum heimilum. Ég hugsa að það sé tól sem gæti gagnast mörgum foreldrum og börnum sem skilja. Annars held ég að börnin mín séu bara ágætlega lánsöm með foreldra og því gangi þetta eins vel og hægt er í ljósi allra aðstæðna.“

Vikurnar sem Sigga Dögg er ekki með börnin eru oft …
Vikurnar sem Sigga Dögg er ekki með börnin eru oft ansi lengi að líða. mbl.is/Árni Sæberg

Sigga Dögg ákvað að segja strax frá þegar hún eignaðist kærasta aftur enda Ísland lítið land. Hún fór þó varlega og beið lengur þegar börnin voru annars vegar.

„Ég beið með að segja börnunum og við höfum tekið þetta í hægum skrefum, bara farið saman í sund og borðað saman svo að þau fengju að kynnast okkur sem pari í öryggi og rólegheitum. Ég hugsaði samt mikið um það hver væri réttur tími, hvernig væri best að gera þetta og las mér endalaust til en svo fórum við bara hægt í það og það hefur gengið mjög vel. Börnin vita að þau eru í algerum forgangi hjá mér og ég leyfi þeim að stýra töluverðu varðandi hvað við gerum og hvern við hittum. Þannig er nýjum maka ekki þröngvað upp á einn né neinn. Þeim þótti þetta auðvitað skrýtið fyrst en nú er þetta þeirra nýja „norm“.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda