Meghan hertogaynja greinir frá því í grein á vef New York Times að hún hafi misst fóstur í sumar. Hún og Harry Bretaprins eiga soninn Archie sem er eins og hálfs árs og hefði barnið verið annað barn þeirra.
Hin 39 ára gamla hertogaynja segir að dagurinn sem hún missti fóstrið hafi byrjað venjulega. Eftir að hún skipti um bleyju hjá Archie fann hún fyrir verkjum.
„Ég datt í gólfið með hann í fanginu, sönglaði vögguvísu til þess að halda okkur báðum rólegum, fjörlegt lagið var andstæða við þá tilfinningu að það væri ekki allt í lagi,“ skrifaði Meghan. „Ég vissi þar sem ég hélt á frumburði mínum að ég væri að missa annað barn mitt.“
Meghan fór upp á spítala með Harry og þau grétu bæði. Hún lýsir því hvernig þau störðu á hvíta veggina og vissu ekki hvernig þau ættu að takast á við þetta.
Meghan segist hafa komist að því að fósturlát væru ótrúlega algeng en um leið væri lítið talað um þau. Með greininni er ljóst að hertogaynjan vill opna umræðuna og kallar hún umræðu um fósturlát tabú.