Raunveruleikastjarnan Alana Thompson, betur þekkt sem Honey Boo Boo, er enn í umsjón systur sinnar Lauryn „Pumpkin“ Shannon. Hún hefur búið hjá systur sinni frá því að móðir þeirra, June „Mama June“ Shannon, var handtekin fyrir vörslu á fíkniefnum vorið 2019.
Pumpkin greindi frá þessu í færslu sinni á instagram á dögunum.
Mama June og kærastinn hennar Geno Doak voru handtekin og ákærð fyrir vörslu á krakkkókaíni í mars 2019. Um sumarið seldi Mama June svo heimili sitt og hafa þau flakkað milli hótela síðan þá. Hún hefur því ekki getað tryggt yngstu dóttur sinni öruggt heimili og hefur hún dvalið hjá eldri systur sinni.
Fjölskyldan varð fræg á sínum tíma fyrir raunveruleikaþætti sem snerust um mömmuna og báru titilinn Mama June: From Not to Hot. Í lokaþætti seríunnar, sem sýndur var í maí 2019 en tekinn upp tveimur dögum áður en hún var handtekin, reyndu börnin hennar að koma vitinu fyrir hana og báðu hana að hætta fíkniefnaneyslu sinni.