Thelma Dögg Guðmundsen áhrifavaldur varð móðir fyrir um þremur mánuðum þegar hún eignaðist son. Hún segir að móðurhlutverkið sé stórkostlegt en jafnframt krefjandi.
„Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa getað búið til þennan litla fullkomna einstakling og fá svo í framhaldi af því það stóra hlutverk að vera mamma hans. Mér finnst það í raun alveg magnað. Við konur erum magnaðar og sá ég það ennþá betur eftir að ég varð móðir. Þetta nýja hlutverk er yndislegt og fullt af allskonar nýjum tilfinningum sem ég upplifi núna í móðurhlutverkinu sem ég hafði ekki fundið áður. Á sama tíma er þetta auðvitað líka krefjandi og miklar breytingar sem tekur tíma að læra inn á og aðlagast. Það er líka hluti af þessu öllu saman og finn ég hvað það er gefandi og þroskandi fyrir mann sem móðir,“ segir Thelma Dögg.
Var það langþráður draumur að upplifa móðurhlutverkið?
„Ég var alls ekki að stressa mig á því að eignast barn og var heldur ekki komin í þær hugleiðingar áður en ég varð ólétt. Ég var samt með það í huga í framtíðinni að eignast barn og sá mig alltaf fyrir mér sem móðir einn daginn. Við vorum það lánsöm að litli gaurinn okkar mætti án þess að við þurftum að undirbúa komu hans og fann ég þegar ég komst að því að ég var ólétt hvað ég var tilbúin í þetta hlutverk.“
Hvernig gekk fæðingin?
„Fæðingin var erfið og áttaði ég mig ekki almennilega á því fyrr en nokkrum dögum eftir á, enda fyrsta barn svo ekki með neitt viðmið. Allt gekk mjög hratt fyrir sig í byrjun. Ég mætti upp á spítala með átta í útvíkkun en eftir það fór að hægjast töluvert á öllu. Ég varð svakalega verkjuð í bakinu og fékk mænudeyfingu sem hjálpaði mikið. Þegar leið á fæðinguna kom síðan í ljós að hann var fastur ásamt því að hann var skakkur á leiðinni niður. Það útskýrði þessa svakalegu verki í bakinu og hvers vegna þetta gekk svona hægt fyrir sig. Eftir þrjá tíma í rembing þá mætti hann í heiminn með hjálp frá ljósmóðurinni, en hún þurfti að losa öxlina hans sem var föst. Það tók hann smá tíma að komast í gang og eftir hjálp frá barnalækni og frábæru teymi á spítalanum þá var minn maður farinn að láta heyra í sér, fullfrískur þrátt fyrir öll átökin.“
Hvernig leið þér þegar þú vissir að þú ættir von á barni?
„Ég var ekki viss um hvort ég gæti orðið móðir með því að ganga með barn. Svo ég var í raun ekki að búast við því að það gæti gerst á þennan hátt. Þannig það kom mér svolítið á óvart í byrjun og tilfinningarússíbani sem fylgdi því. Á sama tíma var ég svo ótrúlega glöð og fannst ég vera mjög heppin. Mér finnst nefnilega svo alls ekki sjálfsagt að geta gengið með barn og þótti mér dásamlegt að geta gert það.“
Fannstu fyrir aukinni pressu á samfélagsmiðlum þegar þú varðst ólétt?
„Nei, ég get ekki sagt það. Auðvitað er alltaf hægt að finna fyrir pressu allsstaðar í öllu og það er klárlega auðvelt að finna fyrir því í þessum barnaheimi sem hefur myndast á samfélagsmiðlum. Ég reyndi frá byrjun að vera meðvituð um það og fara eftir eigin innsæi hvað hentaði okkur, óháð öðrum. Til að mynda var ég rosalega róleg með allan undirbúning, að þvo fötin hans, setja í spítalatöskuna og þess háttar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að láta ekki stjórnast af samfélagslegri pressu, með því að vera samkvæmur sjálfri sér og muna að búðir loka ekki þegar barnið kemur í heiminn.“
Finnst þér móðurhlutverkið hafa breytt þér?
„Já, algjörlega á vissan hátt, ég get ekki sagt annað. Allt í einu ferðu úr því að sjá bara um sjálfan þig yfir í það að sjá líka um þessa litlu manneskju sem stólar algjörlega á þig. Það gefur manni svakalega ábyrgð og ég finn hvað ég er orðin skipulagðari. Ásamt því eru margir litlir jákvæðir hlutir sem ég finn að hafa breyst hjá mér með móðurhlutverkinu. Síðan á sama tíma þá finnst mér aðrir þættir eins. Ég tel það vera mjög jákvætt að geta haldið í þá eiginleika og kosti sem komu áður, frá því að vera einstaklingur og mikilvægt að týna þeim ekki.“
Hvernig eru dagarnir hjá ykkur?
„Við höfum ekki haft neina rútínu enda er hann ný orðinn 10 vikna svo dagarnir hafa farið í að njóta saman sem fjölskylda. En rútínan er fyrst að koma núna hjá okkur, þó hægt og rólega og erum við ekkert að stressa okkur of mikið í þeim málum. Okkur finnst ótrúlega notalegt að vakna á morgnana, drekka og leggja okkur svo aftur til hádegis. Síðan gerir það rosalega mikið fyrir mig og hann að fara í göngutúr og reynum við að fara á hverjum degi ef veður leyfir. Við erum líka nýlega byrjaðar að hittast einu sinni í viku úr bumbuhópnum og er það ótrúlega gefandi.“
Ertu í mömmuklúbbi?
„Já, ég heyrði í einni sem ég þekkti og ákváðum við að setja saman smá hóp af stelpum sem voru settar á svipuðum tíma. Við gátum því miður bara hist í fá skipti á meðgöngunni en þrátt fyrir það fannst okkur þetta ótrúlega góður hópur og ákváðum að halda áfram að hittast eftir að við áttum. Ég finn hvað það er mikilvægt að komast aðeins út, spjalla við mömmur sem eiga börn á svipuðum aldri og tengja við það sama og maður er að upplifa í móðurhlutverkinu.“
Hefur þú fundið fyrir einhverjum óþægindum eftir að þú varðst móðir?
„Það fylgja auðvitað alltaf viss óþægindi eftir fæðinguna og vikurnar eftir hana. Mér finnst einmitt lítið rætt um þá hluti og hvað við konur getum nýtt okkur til að minnka þau óþægindi. Ég upplifi þessa umræðu sem svolítið „tabú“ þrátt fyrir að margar konur kannast við þetta og eiga þetta sameiginlegt. Það er í raun alveg fáránlegt að þetta sé ekki meira rætt, þar sem þetta er hluti af því ferli að eignast barn. En út af því þá kom mér smá á óvart hvað tók við eftir fæðinguna og hversu langan tíma það getur tekið að jafna sig.“
Hvaða vörur ertu að taka við því?
„Góð vinkona benti mér á að eiga Kompressurnar frá Multi-Gyn eftir fæðingu. Mér fannst algjör snilld að eiga þær inn í skáp eftir að við komum heim og ég tók þær líka í spítalatöskuna sem reyndist mér ótrúlega vel. Ég áttaði mig eiginlega ekki á því fyrr en eftir fæðinguna hvað það var gott að eiga gelið til að geta gripið í. Fyrstu vikurnar nýttist það mér mjög vel þar sem það hefur róandi áhrif, dregur úr bólgum og líkum á sýkingum ásamt því að hafa kælandi áhrif. Það kom sér þess vegna vel og mér finnst það hafa haft áhrif á þann stutta tíma sem ég var að jafna mig. Ég mæli algjörlega með því að verðandi mömmur kynni sér þessa vöru en það má líka nota hana á meðgöngunni sjálfri. Líka að því Kompressurnar stuðla að eðlilegri og náttúrulegri bakteríuflóru en ég pæli mikið í því fyrir þetta svæði. Ég hugsa líka mikið um innihaldsefni þegar kemur að snyrtivörum, mér finnst það frábært og líka mjög mikilvægt að þessi vara er laus við öll ilmefni, rotvarnarefni og hormóna. Mjög mikilvægt á þetta svæði að mínu mati.“
Hvernig verður 2021 hjá þér?
„Ég ætla halda áfram að njóta þess að vera í fæðingarorlofi og við einnig að njóta þess að vera saman sem fjölskylda. Síðan mun ég auðvitað halda áfram á Instagram með efni tengt móðurhlutverkinu og öðru sem ég hef verið að gera á samfélagsmiðlum. Annars er líka nokkrir aðrir hlutir í bígerð sem koma í ljós á næstu mánuðum sem ég hlakka til að deila með fólkinu mínu á Instagram.“