„Alltaf ákveðin að vera með í atriðinu“

Árný Fjóla Ásmundsdóttir á von á sínu öðru barni. Hún …
Árný Fjóla Ásmundsdóttir á von á sínu öðru barni. Hún tekur sig vel út á meðgöngunni í kjól frá Híalín. Ljósmynd/Daði Freyr Pétursson

Eurovisionfarinn Árný Fjóla Ásmunds­dótt­ir á von á öðru barni sínu með eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Daða Frey Péturssyni, í september. Árný tekur þátt í eurovisionatriðinu með Gagnamagninu þrátt fyrir að vera ólétt. Árný og Daði eru í sjálfskipaðri sóttkví en þau halda til Hollands á sunnudaginn og keppa í seinni undanúrslitunum fyrir Íslands hönd fimmtudaginn 20. maí. 

„Meðgangan hefur ekki haft mikil áhrif, en við höfum auðvitað vitað þetta í dágóðan tíma og gátum sniðið atriðið og álagið út frá því. Ég var alltaf ákveðin í að vera með í atriðinu en þó með fyrirvara ef heilsan yrði ekki upp á það besta. Mér hefur liðið mjög vel á meðgöngunni, sloppið við ógleði en var örlítið þreytt fyrstu mánuðina,“ segir Árný um að fara út í Eurovision ólétt. 

„Ég hef getað tekið fullan þátt í öllum undirbúningi, svo sem við myndbandsgerð og æfingar. Við smíðuðum líka ný hljóðfæri fyrir sviðið sem ég hannaði líka út frá bumbunni, mesti hausverkurinn hefur verið hvernig best er að halda á því án þess að verða þreytt og er þar meðgöngubeltið frá Tvö líf algjör „lifesaver“.“

Daði Feyr heldur þétt um sólina í lífi sínu í …
Daði Feyr heldur þétt um sólina í lífi sínu í hvítri peysu frá hirðhönnuði Gagnamagnsins, Lovísu Tómasdóttur. Ljósmynd/Daði Freyr Pétursson

Þótt atriði, æfingar og leikmunir hafi tekið mið af meðgöngunni hefur lagið sjálft ekki tekið breytingum eftir að ljóst varð að Árný og Daði ættu von á barni. „Lagið hefur verið lengi í smíðum og var nærri fullmótað áður en barnið kom undir,“ segir Árný. 

Hvernig er tilfinningin að fara utan á tímum heimsfaraldurs og ólétt ofan á allt annað? 

„Við erum mjög vön að ferðast, búandi erlendis, og höfum verið með í þróuninni á landamærum og skimunum frá upphafi. Það róar taugarnar að vita hvernig þetta gengur allt fyrir sig. Ég viðurkenni að það er smá aukastress vitandi af aukafarþega í bumbunni líka en ég er mjög róleg að eðlisfari og ég kann að láta stressið ekki ná tökum á mér. Ég passa mig líka extra vel, þvæ hendur oft, spritta oft, held fjarlægð og nota grímu.“

Árný fer róleg út í Eurovision með auka farþega í …
Árný fer róleg út í Eurovision með auka farþega í maganum. Ljósmynd/Daði Freyr Pétursson

Árný og Daði eru búsett í Berlín en hafa verið á Íslandi að undanförnu vegna Eurovision. Þau stefna á að eignast barnið úti í Berlín. „Ég átti eldri dóttur okkar þar svo ég veit nokkurn veginn hvernig það gengur fyrir sig. Það er samt svolítið stress þar sem við erum búin að vera hálft ár á Íslandi núna og þurfum að byrja ferlið upp á nýtt varðandi tryggingar, finna ljósmóður, lækna og spítala til að eiga á, maður þarf að gera það allt sjálfur. En við tökum Íslendinginn á þetta og þetta reddast.“

Hvernig er að eiga von á sínu öðru barni?

„Það er dálítið annað, ég er mun rólegri og gleymi því jafnvel að ég sé ólétt. Mesti munurinn er þó að ég hef verið í mæðravernd hér á Íslandi núna en var í Þýskalandi síðast. Eftirfylgnin er mun meiri í Þýskalandi þar sem heilbrigðiskerfið virkar bara á allt annan hátt. Þar fór ég í sónar á fjögurra vikna fresti og heimsóknir til lækna eða ljósmóður á tveggja vikna fresti. Mér fannst ég ekki gera neitt annað en að vera í endalausum læknaheimsóknum, samt algerlega eðlileg meðganga.“

Árný Fjóla Ásmundsdóttir.
Árný Fjóla Ásmundsdóttir. Ljósmynd/Daði Freyr Pétursson


Finnurðu einhvern mun á þessari meðgöngu og þegar þú gekkst með dóttur ykkar?

„Þessi meðganga er mjög svipuð þeirri fyrri. Ég er svo heppin að glíma hvorki við ógleði né uppköst svo ég næ að halda ágætis orku. Mesti munurinn er að líkaminn og ég sjálf vitum betur hvað er í gangi. Bumban kom til dæmis bara fram á einni nóttu við 12 vikur. Ég vissi líka strax hvenær ég var orðin ólétt núna en í fyrri meðgöngu var ég komin rúmar átta vikur þegar mig fór að gruna eitthvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda