Ofurfyrirsætan Naomi Campbell kom mörgum á óvart í vikunni þegar hún greindi frá því að hún væri orðin móðir. Heimildamaður segir að barneignirnar ættu ekki að koma á óvart, Campbell hafi langað til að verða móðir í yfir áratug.
„Hana hefur langað í barn lengi, yfir áratug. Og allir sem eru hissa á því að Campbell sé að eignast barn ein, á sinn eigin hátt, þekkja ekki Naomi Campbell. Hefur hún ekki endurskilgreint allt sem hún hefur snert?“ sagði heimildamaður People.
Campbell sagði frá því að hún hefði eignast dóttur fyrr í vikunni. Hún hefur ekki greint frá því hvernig hún eignaðist barnið, hvort hún hafi gengið með það, hvort það sé líffræðilega hennar eða hvort hún hafi ættleitt.