„Nú þegar vetri er lokið og sumarið bankar á dyr og glugga breytist gjarnan starfsemi leik- og grunnskóla. Útivera, útinám og útileikir verða meira áberandi í starfi skólanna og hefðbundin verkefni vetrarins eru jafnvel sett á hilluna,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum í nýjum pistli á mbl.is.
Svo kemur sumarið og sumarfrí með frelsinu og enn meiri leik. Grunnskólabörn eiga langt sumarfrí fyrir höndum og hafa því gjarnan meiri tíma til að leika við félaga sína og vini. Í heimi barnanna þar sem fullorðnir eru ekki á hliðarlínunni getur reynt á getu þeirra til samskipta og lausna. Útilokun og einelti í hópi getur komið upp með þeirri vanlíðan og höfnunartilfinningu sem fylgir því.
Samkvæmt Vináttu – Fri for Mobberi, forvarnaverkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gegn einelti, á einelti rætur sínar að rekja til óttans við útilokun. Einstaklingur reynir að tryggja stöðu sína í hópnum með því að ýta öðrum út á jaðarinn og út fyrir. Birtingarmyndin getur verið fólgin í setningum á borð við; „Þú mátt ekki vera með í leiknum“, „Mér finnst svona sem þú ert með ekki flott“, eða að ekki sé tekið tillit til skoðana og tillagna hjá félaganum. Því er mikilvægt að þeir fullorðnu sé meðvitaðir um samskipti barnanna og aðstoði þau við að vera góðir félagar og vinir.
Mikilvægt er að hjálpa börnunum við að meta styrkleika félaganna og virða að hvert og eitt barn sé einstakt á sinn hátt. Jafnframt er mikilvægt að benda börnum á mikilvægi þess að hlusta á leikjatillögur annarra og komast að niðurstöðu með samtali. Þannig eflast þau og þroskast. Í leik er alltaf hægt að bæta við félaga og hlutverkum sem hver og einn velur sér. Öll börn eiga rétt á að tilheyra og vera metin að verðleikum. Með þá hugsun að leiðarljósi stuðlum við að vellíðan og þátttöku barnanna okkar í sumar.