Í dag voru veitt verðlaun í Töku 2021 stuttmyndasamkeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar. Taka fór fram nú í fertugasta skipti. Að þessu sinni voru einungis veitt verðlaun í unglingaflokki. Laugalækjarskóli hlaut fyrstu verðlaun en í öðru sæti hafnaði Háteigsskóli og í þriðja sæti varð Dalaskóli.
Sigurstuttmyndin ber nafnið Mjólk en myndhöfundar eru þeir Adam, Kári, Orri og Rommel sem allir eru í 9. bekk. Myndin fjallar um hið þekkta vandamál þegar ekki er til mjólk út á morgunmatinn.
Umsögn dómnefndar segir: „Þessi mynd er vel útplönuð og tökurnar hörkugóðar. Söguþráðurinn var skemmtilegur og hljóðið var vel unnið og gerði myndina enn meira spennandi. Tökustaðirnir voru margir og lögðu ungu kvikmyndagerðarmennirnir mikið á sig og tóku nægan tíma í að taka myndina upp. Þetta er frábær mynd þar sem að öll skot eru útpæld.“