Sunna Símonardóttir, nýdoktor og aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands, leitar að konum sem völdu að eignast eitt barn. Sunna segir fæðingartíðni hafa lækkað mikið á Íslandi og leitast hún eftir að útskýra það.
„Ég fór af stað með rannsóknarverkefni síðasta haust sem hefur það að markmiði að reyna að átta okkur á því af hverju fæðingartíðni er að lækka svona mikið á Íslandi. Þetta er tiltölulega ný þróun, það er að segja fæðingartíðni hefur haldist mjög stöðug á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Undanfarin tíu ár hefur hún farið hríðlækkandi. Við vitum ekki af hverju þetta er að gerast það, af hverju fólk velur að eignast færri börn en áður, jafnvel velja barnleysi. Það sem mig langaði að gera er að skyggnast í ástæður þar að baki.“
Sunna stundar eigindlegar rannsóknir eða viðtalsrannsóknir. „Ég tala við einstaklinga til þess að fá þeirra upplifun, reyni að kortleggja þá aðeins. Hvaða ástæður og samfélagslegu breytingar, hugmyndafræðilegu breytingar eru að baki svona stórum breytingum í samfélaginu?“
Sunna kláraði meistarapróf í kynjafræði og doktorspróf í félagsfræði. Hún segist hafa mikinn áhuga á öllu sem viðkemur kynjum og samfélaginu. Hún hefur lagt áherslu á foreldrahlutverkið og gerði doktorsrannsókn um móðurhlutverkið á Íslandi. „Ég skoðaði hvernig samfélagslegar og menningarlegar hugmyndir um móðurhlutverkið birtast okkur. Hvað felst í því að vera góð móðir? Hvernig eiga mæður að vera, haga sér og hugsa? Þar var ég til dæmis að taka viðtöl við konur sem áttu von á sínu fyrsta barni.“
Gengur þú út frá því að það sé val að eiga eitt barn?
„Ég reyndi að setja auglýsinguna þannig upp að það væri skýrt að þetta væri val. Ég er að leita eftir konum sem hafa tekið ákvörðun um að eignast bara eitt barn. Það útilokar fjöldann allan af viðmælendum sem langaði alltaf í annað barn en aðstæður voru ekki réttar eða ófrjósemi eða hvað sem getur komið upp. Við erum að reyna að nálgast hópinn sem tók meðvitaða ákvörðun,“ segir Sunna.
Sunna segir að val kvenna um að eignast barn birtist á mismunandi hátt. „Ég held að sama hvernig við lítum á þetta er þetta alltaf val. Það er líka val að bíða, klára nám, koma sér af stað í starfsferil áður en maður eignast barn. Mér finnst ekki endilega rétt að stilla því þannig upp að konur séu ekki meðvitaðar um að það sé ekki endilega hægt að eignast þrjú börn eftir fertugt. Ég held að þetta sé val hjá flestum. Ég hef áhuga á að skoða hvaða þættir hafa áhrif á þetta val. Er það að konur upplifa að þær muni einfaldlega ekki ná að gera allt sem þær langar til að gera með stóra fjölskyldu? Er meiri einstaklingshyggja í samfélaginu? Viðhorf til fjölskyldunnar er kannski að breytast? Það eru alls konar stórar pælingar sem gætu útskýrt þetta. Það er forvitnilegt að skoða það.“
Sandra Kristín Jónasdóttir nemi vinnur að rannsókninni með Sunnu. Þær fengu styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Áður en Sunna fór af stað með þetta verkefni rannsakaði hún einstaklinga sem völdu barnleysi og er hún að vinna úr niðurstöðum eins og er.
Mæður á aldrinum 25 til 45 ára sem völdu að eignast eitt barn geta tekið þátt í rannsókninni. Hægt er að hafa samband við Sunnu og Söndru samstarfskonu hennar með því að senda póst á eittbarn@gmail.com.