Knattspyrnuparið Fanndís Friðriksdóttir og Eyjólfur Héðinsson eignaðist sitt fyrsta barn saman í byrjun febrúar. Fanndís sem spilar með Val sneri aftur á völlinn fyrr í sumar náði að æfa alla meðgönguna en segir það hafa tekið á taugarnar að horfa á liðsfélaga sína spila án hennar síðasta sumar.
„Það breyttist allt til hins betra, ég í rauninni skil ekki hvað ég var að gera áður en ég eignaðist Elísu,“ segir Fanndís spurð hvernig lífið breyttist eftir að hún varð móðir.
Varstu viss um að þú vildir gera hlé á ferlinum og eignast barn?
„Þegar ég komst að því að ég væri ólétt var ekkert mál fyrir mig persónulega að gera hlé á ferlinu en það var erfitt að geta ekki verið til staðar inni á vellinum fyrir liðsfélagana sérstaklega þegar það var ekki að ganga vel. En það sem gerir pásuna frá fótboltanum auðveldari er að ég hef fullt af flottum vinkonum sem hafa eignast barn og komið jafnvel sterkari til baka.“
Hvernig gekk meðgangan?
„Meðgangan gekk rosalega vel, ég hef yfir engu að kvarta. Fékk sem betur fer enga kvilla og gat æft og gert allt sem mig langaði til fram á síðasta dag,“ segir Fanndís. Hún náði að æfa alla meðgönguna en saknaði þess að fara í fótbolta með liðinu sínu, fara í reit og brassa.
Hvernig var fæðingin?
„Ég fór 13 daga fram yfir og var því sett af stað. Fæðingin gekk vel en aldrei hefði ég trúað því að það væru svona átök að koma barni í heiminn. Ég sem keppnis- og íþróttakona hélt að þetta yrði ekkert mál og vissi ekkert hvað ég væri að fara út í eða hvað biði mín, en upplifunin er mögnuð.“
Gerðir þú alltaf ráð fyrir að fara út á völl svona snemma?
„Ég veit ekki hvort ég sé að fara eitthvað „snemma“ út á völl. Ég var alltaf ákveðin í því að reyna að koma til baka en hvað tíma varðar var ekkert plan. Ég hef hlustað vel á líkamann minn og fengið góða leiðsögn með það sem ég hef verið að gera bæði fyrir og eftir fæðingu og líður mér vel í líkamanum. Ég er enn þá að byggja líkamann upp en það gengur mjög vel og ég get ekki beðið eftir að fá að taka meira þátt í Íslandsmótinu með liðinu mínu.“