Amanda Knox missti fóstur eftir sex vikna meðgöngu. Knox opnað sig um reynsluna í nýjasta hlaðvarpsþætti sínum Labyrinths.
Knox er þekktust fyrir að hafa verið ranglega dæmd í 28 ára fangelsi fyrir að myrða breska námsmanninn Meredith Kercher á Ítalíu árið 2007. Hún var sýknuð í hæstarétti Ítalíu árið 2011.
Knox giftist Christopher Robinson í febrúar á síðasta ári og fljótlega fóru þau að huga að barneignum. Hún segist hafa orðið ólétt mjög fljótlega eftir þau byrjuðu að reyna.
Mikil gleði ríkti á heimilinu og sögðu þau foreldrum sínum frá tilvonandi erfingja á mæðradaginn í maí síðastliðnum. Í snemmsónar fannst hins vegar ekki hjartsláttur og segir Knox að hún hafi strax vitað að eitthvað væri að.
„Við fórum aftur til læknis viku seinna, sú vika var ömurleg, og barnið hafði ekki stækkað. Það var ekki hjartsláttur. Mér fannst það ruglandi og hugsaði: Af hverju ætti barnið bara að vera dáið inni í mér? Ef það gat ekki lifað, af hverju fór það ekki? Líkami minn vissi það ekki og mér fannst það skrítið. Ég vissi ekki að fósturmissir gæti farið fram hjá manni,“ sagði Knox.
Hún segir næstu skref hafa verið mjög erfið og að deila fréttunum með sínum nánustu hafi verið mjög sorglegt.
„Mér fannst það svakaleg vonbrigði, að þetta væri sagan af minni fyrstu óléttu. Ég hélt að ég vissi nákvæmlega hvað ég ætti að gera á minni fyrstu meðgöngu,“ sagði Knox.