Bandaríska leikkonan Olivia Munn og uppistandarinn John Mulaney eiga von á barni. Greindi Mulaney frá gleðifréttunum þegar hann var gestur í spjallþættinum Late Night með Seth Meyers í gærkvöldi.
Þetta er fyrsta barn þeirra beggja en ekki er langt síðan parið fór að stinga saman nefjum.
„Það hefur margt gerst á einu ári hjá mér. Er ekki september núna?“ spyr Mulaney. „Í september í fyrra fór ég í meðferð, kom út í október, skildi við fyrrverandi konuna mína og flutti út af heimilinu sem við áttum saman,“ greinir hann frá. „Svo kom vor, ég fór til Los Angeles og hitti yndislega konu sem heitir Olivia. Við urðum ástfangin hvort af öðru og höfum byggt upp rosalega fallegt samband saman,“ sagði Mulaney sannfærandi í spjalli sínu við Meyers. „Ég er svolítið stressaður að segja frá þessu en við eigum von á barni saman.“
Mulaney hefur verið að glíma við áfengis- og fíkniefnavanda en hefur verið edrú í tæplega eitt ár. Hann segist fullur tilhlökkunar fyrir framtíð sinni og segist vera spenntur fyrir föðurhlutverkinu.
„Olivia og þetta barn hafa nú þegar bjargað mér. Ég er á góðum batavegi og er spenntur fyrir komandi tímum.“