Jazmin Grace Grimaldi fæddist 1992 og er fyrsta barn Alberts fursta af Mónakó. Hún var getin utan hjónabands og er því ekki löglegur erfingi krúnunnar. Hálfbróðir hennar Jacques, sjö ára, er erfinginn. Þrátt fyrir það er hún ekki á flæðiskeri stödd.
Líf hennar hefur verið ævintýri líkast. Mamma hennar Tamara Rotolo, sem er bandarísk, var gengilbeina og kynntist furstanum á ferðalagi um frönsku rivíeruna. Samband þeirra var skammlíft og hún ákvað að ala barn þeirra upp í Bandaríkjunum.
Fjölmiðlar komust á snoðir um barnið þegar það var fjórtán ára og eftir mikinn ágang fjölmiðla ákvað Albert prins að gangast formlega við barninu árið 2006. Þrátt fyrir að hún sé ekki löglegur erfingi krúnunnar á hún samt tilkall til töluverðra fjármuna prinsins.
Grimaldi er leikkona líkt og amma hennar Grace Kelly. Hún hefur birst í The Immigrant með Marion Cotillard og Joaquin Phoenix og má fljótlega sjá í The Chelsea Cowboy ásamt Poppy Delevingne og Alex Pettyfer. Þá hefur hún einnig unnið fyrir Sameinuðu þjóðirnar og sinnt ýmsum mannúðarmálefnum.
Grimaldi á í góðu sambandi við hálfsystkin sín Jacques og Gabríellu og tekur hlutverk sitt sem stóra systir alvarlega. Hún fer oft í heimsókn til Mónakó og þá tekur við hefðbundið fjölskyldulíf. „Við gerum saman allt það sem venjulegar fjölskyldur gera, höldum grillveislur og förum á ströndina,“ sagði Grimaldi í viðtali eitt sinn.