„Á heimsmælikvarða“

Stilla úr einum hinna nýju Tulipop-þátta.
Stilla úr einum hinna nýju Tulipop-þátta.

Sýningar hefjast í dag í Sjónvarpi Símans Premium á Tulipop ævintýri, nýrri teiknimyndaþáttaröð sem byggð er á heimi Tulipop. Er hún í tilkynningu sögð ein metnaðarfyllsta íslenska teiknimyndaþáttaröðin sem framleidd hefur verið um árabil og hlaut hún stuðning Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Nordisk Film & TV Fond. Samið hefur verið við breskt dreifingarfyrirtæki, Serious Kids, um sölu þáttaraðarinnar og hefur hún þegar verið seld til norskra og finnskra sjónvarpsstöðva auk þess að vera seld til fleiri landa.

350 börn í prufur

13 þættir eru í röðinni, sjö mínútur hver, og eru þeir sagðir fjalla um fjölbreytileika og vináttu á ævintýraeyju nokkurri. Var handrit þáttanna skrifað af barnabókahöfundinum Gunnari Helgasyni, Davey Moore, sem á m.a. að baki barnaþættina Puffin Rock, Rastamouse og Claude; Söru Daddy, sem hefur verið yfir handritshöfundur við gerð barnaefnis fyrir bæði Disney og BBC, og Signýju Kolbeinsdóttur, hönnuði og skapara Tulipop-heimsins.

Sigvaldi J. Kárason.
Sigvaldi J. Kárason.

Leikstjóri þáttaraðarinnar er Sigvaldi J. Kárason og sáu börn um talsetninguna að mestu. 350 börn mættu í prufur hér á landi fyrir hlutverkin í nóvember í fyrra og voru fjögur valin úr, á aldrinum níu til tólf ára, þau Hallgerður Júlía Rúnarsdóttir Hafstein, Kolbrún Helga Friðriksdóttir, Stormur Björnsson og Vilhjálmur Hauksson. Fullorðnir komu líka að talsetningunni, þeirra á meðal Jóhann Sigurðarson og Sigurjón Kjartansson.

Nýtt upphaf

Þetta eru ekki fyrstu þættirnir sem gerðir hafa verið um heim Tulipop en leikstjóri þáttanna, Sigvaldi J. Kárason, segir þá nýtt upphaf, öðruvísi en þá sem áður hafa verið gerðir. Hann hafi viljað bæta útlit þáttanna og láta börn tala inn á þá í stað fullorðinna.

„Það er miklu erfiðara, dýrara og stærra að nota börn og líka öll þessi útfærsla, þetta er miklu vandaðra en fyrri sería, sem er dálítið barn síns tíma,“ útskýrir Sigvaldi.

Hann segir að haka þurfi í ýmis box þegar svona efni er annars vegar, þ.e. teiknimyndaþættir fyrir börn. „Þú þarft að tala um rétta hluti, passa að setja börn ekki í neina hættu, það þarf að passa upp á ýmislegt og við vorum náttúrlega búin að þróa þetta í nokkur ár áður en við fórum í þessa framleiðslu,“ segir Sigvaldi og er í framhaldi spurður út í sinn bakgrunn. Hefur hann leikstýrt barnaþáttum áður? „Já, ég hef aðeins komið að því, leikstýrði svolítið mörgum Latabæjar-þáttum áður í þessum barnageira og vann til verðlauna í Cannes fyrir verkefni sem var í þessum teiknimyndastíl sem varð byrjunin á því að ég fór að stúdera þessa leikstjórn því ég kann ekkert að teikna. Ég teikna voða lítið en þetta er aðallega utanumhald og að leikstýra fólki og segja hvað þú vilt og hvað ekki,“ svarar Sigvaldi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál