Stjörnuhjónin Nick Jonas og Priyanka Chopra eignuðust barn með hjálp staðgöngumóður í janúar. Barnið fæddist töluvert fyrir tímann og fékk því ekki að fara heim strax.
Foreldrarnir fóru út að borða í Kaliforníu á sunnudaginn og var barnið hvergi sjáanlegt. Daily Mail greinir frá því að barnið hafi fæðst 12 vikum fyrir tímann. Það þurfti að dvelja á spítala rétt fyrir utan Los Angeles þar til það náði heilsu til að fara heim.
Hin 39 ára gamla Chopra og hinn 29 ára gamla Nick gengu í hjónaband árið 2018. Þau greindu nokkuð óvænt frá því að þau hefðu eignast barn í janúar með hjálp staðgöngumóður. Fyrir það höfðu þau talað um að þau vonuðust til þess að eignast barn í framtíðinni.
„Þau eru stór þáttur af framtíðarvonum okkar,“ sagði Chopra um börn í viðtali sem kom út aðeins nokkrum dögum áður en barnið kom í heiminn á undan áætlun. „Ef guð lofar þá gerist það þegar það gerist.“