Hollywoodstjarnan Olivia Wilde fékk afhenta pappíra tengdu forræðismáli hennar og Jason Sudeikis á sviði í Las Vegas í vikunni. Fullur salur af áhorfendum horfðu á Wilde taka við umslagi sem var merkt einkamál. Ekki var um grín að ræða eins og talið var í fyrstu.
Wilde var á sviðinu að tala um nýjustu kvikmynd sína þegar manneskja færði henni umslagið. Þegar Wilde tók við umslaginu með pappírunum spurði hún hvort að umslagið væri fyrir sig. „Mjög leyndardómsfullt. Ég ætla opna það núna,“ sagði Wilde fyrir framan áhorfendur. „Er þetta handrit? Allt í lagi. Ég skil. Takk,“ sagði leikkonan. Eftir að Wilde opnaði umslagið var ekki talað um það aftur.
Heimildarmaður tengdur Sudeikis segir að pappírarnir voru um forræðismál en Wilde og Sudeikis eiga tvö börn saman. „Herra Sudeikis vissi hvorki hvenær né hvar umslagið yrði afhent,“ sagði heimildarmaðurinn. Heldur hann því fram að þjónustufyrirtækið hafi borið ábyrgð á því hvar pappírarnir voru afhentir. Sudeikis hefði aldrei kosið þessa tímasetningu að sögn vinarins.
Sudeikis og Wilde voru trúlofuð en hættu saman í nóvember 2020. Stuttu eftir sambandsslitin var samband Wilde og Harrys Styles opinbert.