Vinkonurnar Edda og Lilja eignuðust báðar tvíbura

Lilja með Baldvin Þór og Arnþór Breka. Edda með Völu …
Lilja með Baldvin Þór og Arnþór Breka. Edda með Völu Þórunni og Jökul Þór. mbl.is/Hákon Pálsson

Lilja Dögg Bjarnadóttir og Edda Björg Jónsdóttur eru búnar að vera vinkonur í meira en tvo áratugi. Það kom þeim því verulega á óvart þegar þær áttuðu sig á því að þær ættu báðar von á tvíburum.

Lilja átti einn son áður en hún varð ólétt af tvíburunum sínum. Planið var að eignast annað barn og það kom þeim hjónunum skemmtilega á óvart þegar það tókst strax. Lilja missti annan eggjastokkinn sem barn vegna meðfædds æxlis. Fyrir hana var því verulega gleðilegt að geta yfir höfuð átt afkvæmi. 

„Við erum búnar að vera bestu vinkonur frá níu ára aldri eða í 23 ár. Við kynntumst þegar að Edda flutti í götuna mína. Hún mætti í skólann og þegar ég komst að því að hún væri flutt á móti mér var ekki aftur snúið. Við höfum verið bestu vinkonur frá þeim degi,“ segir Lilja sem er 31 árs gamall hjúkrunarfræðingur sem starfar á geðþjónustu Landspítalans. Hún er gift Grétari og saman eiga þau þrjá stráka; Ásgrím Bjarna sex ára og tvíeggja tvíburana Arnþór Breka og Baldvin Þór sem eru árs gamlir.

Edda er innanhúshönnuður og starfar í húsgagnadeild Epal. Unnusti hennar heitir Arnar Þór og saman eiga þau tvíburana Jökul Þór og Völu Þórunni sem eru á fyrsta ári. Það var gleðilegt þegar þau fréttu að þau ættu von á tvíburum því þau höfðu reynt að eignast barn í einhvern tíma og voru í ferli hjá Liveo, þegar þau urðu sjálf ólétt. 

Æskuvinkonurnar og tvíburamömmurnar Edda Björg og Lilja Dögg.
Æskuvinkonurnar og tvíburamömmurnar Edda Björg og Lilja Dögg. mbl.is/Hákon Pálsson

Ótrúleg tilviljun

Lilja segir að þau Grétar hafi upplifað mikla gleði þegar þau fóru í snemmsónar og áttuðu sig á því að þau ættu von á barni. 

„Þar sást eitt lítið spriklandi kríli með flottan hjartslátt. Það var heimsfaraldur kórónuveiru á þessum tíma en Grétar fékk samt að vera með. Allir ánægðir með þetta og biðum spennt eftir næsta sónar. Þegar það kom að 12 vikna sónar fór ég ein inn og Grétar beið út í bíl. Ég var ein þegar ég fékk fréttirnar að börnin væru tvö. Ég veit ekki hverjum brá meira, ljósunni sem var að skoða mig eða mér þegar hún sagði að hún sjái tvö fóstur. Ég fríkaði smá út og sagði ha? Ertu að ljúga? Má ljúga til um svona og lá svo bara og tautaði eitthvað alveg í losti,“ segir Lilja um upplifunina. Hún hringdi í manninn sinn í myndsímtali og ljósan sýndi honum skjáinn og sagði, hér er eitt barn og hér er annað, það kom löng þögn svo sagði Grétar „eru þau nokkuð þrjú?“,“ segir Lilja. 

Edda segir að henni hafi fundist sturlað þegar hún frétti að Lilja besta vinkona hennar ætti von á tvíburum. 

„Þegar ég varð svo sjálf ólétt af tvíburum nokkrum mánuðum seinna þá var ég mjög spennt að segja henni frá þessu. Ég held ég hafi meira að segja sagt við læknirinn þegar hann tilkynnti að við ættum von á tvíburum að það gæti ekki verið þar sem besta vinkona mín væri nefnilega að eignast tvíbura. Fannst þetta vera svo ótrúleg tilviljun,“ segir Edda og Lilja bætir við að það hafi verið lífsins lukka að fá að ganga í gegnum svipaða upplifun á sama tíma. 

Lilja hrökk upp um miðja nótt eftir að hafa fengið …
Lilja hrökk upp um miðja nótt eftir að hafa fengið fréttirnar. Í hverju átti eiginlega að skíra hitt barnið? Það var bara einn fjölskyldu skírnarkjóll. mbl.is/Hákon Pálsson

Meðgöngurnar voru ólíkar

Meðgangan gekk vel hjá Lilju þrátt fyrir að hún hafi fundið fyrir svakalegri ógleði frá viku sex til 13. 

„Við hjónin grínuðumst með að þetta væri annað hvort stelpa eða tvíburar þar sem ég var ekki svona lasin á fyrri meðgöngu. Ég átti erfitt með bókstaflega allt á þessum tíma og leið eins og þetta væri samblanda af sjóriðu og heimsins verstu þynnku. Einn daginn vaknaði ég og þá var ógleðin búin. Ég varð fljótlega þreytt í grindinni og hafði fengið grindargliðnun á fyrri meðgöngu en varð sem betur fer aldrei eins slæm og þá. Magnað að vera betri í skrokknum með tvíbura. Ég minnkaði við mig vinnu þegar ég var komin 20 vikur á leið og hætti að vinna á 28 viku. Þegar ég var komin 31 viku fór blóðþrýstingurinn að hækka og ég var fljótlega greind með meðgöngueitrun. Það var ákveðið að láta mig ganga með þá eins lengi og hægt var og ég fór í gangsetningu 36+6. Ég var ótrúlega ánægð með hvað ég náði að ganga lengi með þá og hvað allt gekk í raun vel,“ segir Lilja. 

Edda segir að meðganga hennar hafi gengið virkilega vel. 

„Ég var ein af þessum heppnu sem fékk enga morgunógleði og fann í rauninni lítið fyrir þessu fyrstu mánuðina. Þegar ég var svo komin 26+ vikur þá fór allt að vera frekar mikið þungt,“ segir Edda.

Baldvin, Jökull, Arnþór og Vala.
Baldvin, Jökull, Arnþór og Vala. mbl.is/Hákon Pálsson

Þessi ást er ótrúleg

Þegar Edda og Lilja eru spurðar að því hvað kom þeim mest á óvart varðandi móðurhlutverkið eru þær báðar sammála um að hjartað hafi stækkað. 

„Ég hef oft heyrt það að ástin sem fólk finnur þegar það eignast barn sé engu lík en vá hvað það er ekki hægt að undirbúa sig undir hversu ástin er í rauninni mikil,“ segir Edda og Lilja tekur í sama streng. 

„Hjartað stækkar ótrúlega með barnafjöldanum. Það er eins og það bætist við ný hólf. Það kom mér á óvart hversu ólík en samt lík systkini geta verið. Það að börnin erfa bæði verstu og bestu kosti foreldra sinna. Það er líka ótrúlega lítið mál að láta allar sínar þarfir sitja á hakanum til að sinna þessum börnum. Maður vex bara inn í hlutverkið og getur aðlagast öllu held ég,“ segir Lilja. 

Aðspurðar að því hvernig heimilislífið hafi breyst eftir fæðingu barnanna segja þær að helsta breytingin hvað þetta er mikil vinna. 

„Þetta var alger kaótík fyrstu vikurnar. Vorum ótrúlega heppin og fengum mikla hjálp frá okkar nánustu, sérstaklega foreldrum mínum. Það þurfti að gefa þeim á þriggja tímafresti og svo reyndi ég að sofa þegar færi gafst. Þeir voru báðir ælupésar fyrstu mánuðina svo þvotturinn var endalaus. Mesta breytingin var klárlega að hoppa úr einu barni í þrjú og að börnin voru orðin fleiri en foreldrarnir. Það má með sanni segja að það sé alltaf nóg að gera,“ segir Lilja. 

Edda segir að það hafi verið mikil viðbrigði að vera ekki lengur tvö í heimili heldur fjögur. 

„Ég held að allt hafi breyst. Við vorum bara tvö á heimilinu að hafa það nokkuð notalegt áður en krakkarnir mættu. Gleðin og hamingjan jókst svo sannarlega en einnig er þetta náttúrulega hörku vinna,“ segir Edda. 

Lilja Dögg með tvíbura strákanna sína.
Lilja Dögg með tvíbura strákanna sína. mbl.is/Hákon Pálsson

Gjörólíkar fæðingar 

Lilja upplifði allan skalann þegar hún kom tvíburunum í heiminn. 

„Mig langaði mikið að ná að fæða strákana gegnum leggöng og var mjög ánægð að það gekk upp. Ég var gangsett við 36+6 vegna meðgöngueitrunarinnar. Við hjónin vorum búin að biðja Heiðrúnu, sem er hin besta vinkona mín og ljósmóðir, að taka á móti börnunum. Ég mætti upp á deild í bókaða gangsetningu og þá kom í ljós að ég var komin með fjóra í útvíkkun. Ég fékk tvær gangsetningartöflur til þess að fá kollinn betur niður og fékk einnig mænudeyfingarlegginn í bakið. Ég fann strax að eitthvað byrjaði að malla. Í tvíburafæðingum er mælt með mænudeyfingu svo hægt sé að grípa fljótt inn í ef upp koma vandamál með seinna barnið. Eftir að leggurinn var settur upp var belgurinn sprengdur og fékk ég strax hríðar. Rúma klukkustund eftir að belgurinn var sprengdur sagði ég við Heiðrúnu að það væri eitthvað að breytast og kom þá í ljós að ég var komin með fulla útvíkkun og mátti byrja að rembast. Blessaður leggurinn var kominn í bakið en það tókst ekki að koma deyfingunni í gang svo ég fæddi þá ódeyfð eftir allt saman,“ segir Lilja. 

Rembingurinn stóð í nokkrar mínútur og fæddist tvíburi A sprækur í einum til tveimur rembingnum klukkan 15:31.

„Hjartslátturinn hjá tvíbura B fór að hægjast þegar A fæddist og var honum því kippt út með lítilli sogklukku. Hann fæddist örlítið slappur fimm mínútum síðar en braggaðist fljótt. Þeir fóru svo báðir á vökudeild í eftirlit í nokkrar klukkustundir og þar sá ég B í fyrsta sinn. Grétar maðurinn minn fylgdi þeim yfir og mér var svo trillað yfir til þeirra þegar fylgjan var fædd og búið að græja og gera. Frá því belgurinn var sprengdur og þar til þeir voru báðir fæddir leið um ein og hálf til tvær klukkustundir. Þetta gekk allt ótrúlega hratt og vel fyrir sig, svo hratt að einn læknir missti af fæðingunni og kom þegar allt var yfirstaðið,“ segir hún. 

Edda Björg með gullmolanna sína
Edda Björg með gullmolanna sína mbl.is/Hákon Pálsson

Edda þurfti að fara í keisara þar sem annar tvíburinn var í sitjandi stöðu. 

„Það var frekar skrítið að vera með nákvæma dagsetningu hvenær krakkarnir myndu koma í heiminn en líka frekar hentugt. Þegar aðgerðin átti að byrja gekk því miður ekki að deyfa mig. Mér var gefin mænudeyfing tvisvar sinnum og þegar það var ljóst að það var bara alls ekkert að virka á mig þurfti að svæfa mig. Það voru frekar mikil vonbrigði að vera sofandi þegar krakkarnir kæmu í heiminn. Arnar mátti heldur ekki vera viðstaddur. Hann var sendur fram greyið á einhverja kaffistofu þar sem hann þurfti að bíða á meðan keisarinn var framkvæmdur. Þetta var allt frekar fúlt en við vorum með svo dásamlega ljósmóður hana Hrafnhildi Lóu Guðmundsdóttur. Hún fékk símann hans Arnars í hendur og tók allt ferlið upp í staðinn. Við eigum því alveg ótrúlegt myndband af fæðingunni. Batinn eftir keisarann gekk svo bara vel en var nokkuð strembinn verandi með tvö ungbörn, “ segir Edda.

Skilur mig enginn eins og hún 

Edda og Lilja eru þakklátar fyrir að búa báðar yfir sömu lífsreynslu. 

„Ég held að ég gæti ekki verið heppnari að fá að upplifa þetta með bestu vinkonu minni. Að geta rætt þetta erfiða eða yndislega með vinkonu sinni sem veit nákvæmlega hvað maður er að ganga í gegnum er ómetanlegt. Svo er náttúrlega algjör snilld hvað ég græddi mikið á þessu þar sem Lilja er mjög skipulögð og var búin að rannsaka og græja alveg heilan helling.  Ég var bara mötuð með upplýsingum og svo lánaði Lilja mér fullt af dóti,“ segir Edda. 

„Edda græðir kannski meira á því þar sem ég er alltaf einu skrefi á undan. Mínir eru fjórum mánuðum eldri en ég get líka í sannleika sagt að það skilur enginn mig betur en hún og öfugt,“ Lilja. 

Hákon Pálsson

Hafa öll fjögur nafnatengingu

Tvíburar Lilju og Grétars voru kallaðir A og B alla meðgönguna og fannst honum að þeir yrðu að fá nöfn í samræmi við. Þau voru sammála um að skíra tvíbura A Arnþór en það gekk ekki eins vel að finna nafn á B. 

„Við báðum stóra bróður um uppástungur og hann stakk upp á Baldvin eftir einum vini af leikskólanum. Þórs nafninu var svo smellt aftan á og þá höfðu þeir þessa tengingu sín á milli. Edda kom til mín eftir skírnina hálf vandræðaleg og sagði mér að þau hefðu verið búin að ákveða að skíra sín börn Þórsnöfnum og hvort okkur væri sama að þau myndu heita svipað. Ég sagði að það væri auðvitað meira en velkomið og bara fallegt að þau heiti öll í stíl,“ segir Lilja. 

„Strákurinn okkar heitir Jökull Þór. Nafnið Jökull er út í loftið en svo er Þór í fjölskyldunni hans Arnars. Stelpan okkar heitir svo Vala Þórunn. Vala er í höfuðið á mömmu minni sem heitir Valfríður en hefur alltaf verið kölluð Vala. Við ákváðum svo að velja nafnið Þórunn til þess að tengja nöfnin á krökkunum smá saman,“ segir Edda.

Mikilvægt að tvíburar fylgi sömu rútínu

Þegar Edda og Lilja eru spurðar að því hvort þær eigi einhver ráð fyrir tvíburamæður segja þær báðar að fólk verið að biðja um hjálp. 

„Fyrstu mánuðirnir eru erfiðir og ég mæli með því að fólk þiggi alla hjálp. Hjá okkur voru svo krakkarnir frekar litlir og þurftum við að gefa þeim á þriggja klukkutíma fresti. Það var því mjög gott að mastera að vera með þau á sama tíma á brjósti svo ég fengi allavega smá tíma á milli gjafa. Ég mæli með því að hafa tvíburana í sömu rútínu,“ segir Edda. Lilja er sammála því og segir að mamman komi sterkari til baka ef hún fær smá hvíld inni á milli. Hún mælir með því að mæður reyni að sofa sem mest fyrstu vikurnar. 

„Það skiptir máli að tengjast öðrum fjölburamömmum þar sem það er ómetanlegt. Við erum nokkrar sem kynntumst á meðgöngunni og eftir að börnin fæddust höfum við haldið hópinn. Við höfum hist nokkrum sinnum með börnin en líka án þeirra,“ segir Lilja. 

Þessir tvíburar passa að nýta hvern einasta sólargeisla til útileiks.
Þessir tvíburar passa að nýta hvern einasta sólargeisla til útileiks. mbl.is/Hákon Pálsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda