Hækkandi hitastig á þessum árstíma glæðir ljósi í lífið og færir okkur ómælda gleði. Útivistartími barnanna lengist og áhugi þeirra á að vera úti að leika frá morgni til kvölds eykst til muna. Hins vegar geta árstíðir eins og vor og sumar verið mörgum börnum bagalegar því með góðu og sólríku veðurfari getur frjókornaofnæmi gert vart við sig og ágerst til muna.
Algengt er að börn og ungmenni glími við frjókornaofnæmi á sumrin. Börn frá þriggja ára aldri eru líklegri en yngri börn til að vera með ofnæmi fyrir gróðri og frjókornum.
Einkenni ofnæmisins geta verið af margvíslegum toga og valdið börnum miklum óþægindum í daglegu amstri. Mikil líkindi kunna að vera á milli kvefpesta og frjókornaofnæmis en oft er hægt að greina á milli þessa tveggja kvilla með einföldum hætti. Til dæmis eru vessar á borð við slím oft mun hreinni og vatnskenndari þegar ofnæmi er til staðar en gul- og grænleitara þegar kvefpestir eru annars vegar. Þá getur verið mikilvægt fyrir foreldra að þekkja einkenni ofnæmisins vel svo þeir séu í stakk búnir til að greina á milli hvort um ofnæmi eða hefðbundið kvef sé að ræða áður en þeir leita læknisaðstoðar og lyfjameðhöndlunar fyrir börn sín.
Börn eru gjörn á að nudda á sér andlitið þegar árstíðabundið ofnæmi lætur á sér kræla. Þau eiga það til að nudda skynfærin ótæpilega mikið því mikill kláði og önnur sambærileg óþægindi fylgja ofnæminu.
Sum börn eiga það til að hnerra endalaust vegna frjókornaofnæmis á meðan önnur einkenni gera frekar vart við sig hjá öðrum börnum. Það að hnerra allan daginn getur verið afar leiðigjarnt og veldur oftar en ekki nefrennsli.
Börn sem hljóma nefmælt á góðviðrisdögum eru líklega með frjókornaofnæmi. Foreldrar ættu að vera á varðbergi og athuga hvort börn þeirra borði með opinn munninn eða ekki. Sum börn eru stífluð í báðum nösum sökum ofnæmis og eiga erfitt með að draga andann í gegnum nefið á meðan þau næra sig.
Roði í og við augu gefur oft sterklega til kynna að um frjókornaofnæmi sé að ræða.