Það kom mörgum á óvart þegar Jerry Hall tilkynnti skilnað sinn við fjölmiðlamógúlinn Rupert Murdoch. Hall og Murdoch höfðu verið gift í sex ár og var þetta fjórða hjónaband Murdochs.
Samkvæmt heimildum The Daily Mail á Hall að hafa sagt vini sínum að hún væri í ástarsorg. „Ég elska hann enn. Ég er eyðilögð.“
Hall kennir börnum Murdochs um skilnaðinn og er afar sár. Skilnaðurinn kom henni í opna skjöldu en aðdragandinn var enginn. Murdoch sendi henni tölvupóst þar sem hann tilkynnti henni að hjónabandinu væri lokið og hún skyldi framvegis hafa samband við lögfræðinga hans.
Sagt er að sonur Murdochs, Lachlan, hafi átt stóran þátt í að telja föður sinn á að skilja við Hall og sá hann um alla herkænsku hvað lögfræðinga og fjölmiðla varðaði.
Talið er að ágreiningur hafi komið upp milli Hall og barna Murdochs í miðjum heimsfaraldri. Hún hafi viljað stjórna því hverjir fengju að umgangast hann af ótta við að hann fengi kórónuveiruna. Hún kallaði sig í gríni Covid-lögguna. Þetta fór illa í börn hans sem töldu hana vera að einangra hann frá fjölskyldunni.
„Hún kennir börnum hans um hvernig fór fyrir hjónabandi þeirra. Þau beittu sínum áhrifum í að fá hann til að skilja við hana. Þau greinilega treystu henni ekki,“ segir heimildarmaður.
Þá herma heimildir að fyrir skilnaðinn hafi farið fram viðræður um hvað Hall myndi fá í sinn hlut þegar Murdoch félli frá og margir innan fjölskyldunnar vildu að hún fengi ekkert enda hafði kaupmáli verið gerður á sínum tíma.
„Jerry er verulega sár og heldur því fram að þetta hafi komið sér algjörlega á óvart. Einn daginn voru þau að skipuleggja sumarfríið sitt saman í London og þann næsta fær hún tölvupóst um að tala við lögfræðingana. Henni sárnar að fólk haldi að hún hafi bara verið á eftir peningunum hans. Hún er sannfærð um að börn hans hafi unnið gegn henni,“ segir vinur hennar.