Þráði að verða ein af þessum óléttu konum

Katrín Edda Þorsteinsdóttir gengur nú með sitt fyrsta barn en …
Katrín Edda Þorsteinsdóttir gengur nú með sitt fyrsta barn en segist stundum varla trúa því að hún sé loksins ólétt. mbl.is/Árni Sæberg

Verk­fræðing­ur­inn og áhrifa­vald­ur­inn Katrín Edda Þor­steins­dótt­ir fékk fyrst að vita það þegar hún var 25 ára göm­ul að hún myndi eiga erfitt með að eign­ast börn. Hún hugsaði lítið út í það þá, enda hafði hún um nóg annað að hugsa. Á þeim tíma var hún í vinnu, að ljúka meist­ara­gráðu í verk­fræði og að keppa í fit­n­ess. 

„Ég varð mjög leið í ör­lít­inn tíma en leyfði mér ekk­ert að hugsa um það frek­ar. Svo seinna meir þegar ég fór að hugsa um það í al­vöru voru alls kon­ar til­finn­ing­ar sem komu upp. Til­finn­ing­in að vera gölluð eða hafa gert eitt­hvað rangt var yf­ir­leitt sterk­ust,“ seg­ir Katrín í viðtali við mbl.is. 

Katrín er nú geng­in um 20 vik­ur með sitt fyrsta barn. Katrín er bú­sett í Þýskalandi ásamt eig­in­manni sín­um Markusi, sem er þýsk­ur, og vinn­ur hún sem verk­fræðing­ur hjá Bosch.

Ekki bein leið að for­eldra­hlut­verk­inu

„Við prófuðum fyrst árið 2020 horm­óna­lyf frá kven­sjúk­dóma­lækni á Íslandi sem örva egg­bú­in til þess að stækka en ég fékk aldrei egg­los á þeim lyfj­um svo það gekk ekki. Í byrj­un 2021 byrjuðum við hjá frjó­sem­is­stöð í Þýskalandi og fór­um tvisvar sinn­um í gegn­um tækn­isæðingu sem gekk ekki og reynd­um í þriðja skiptið en þá örvuðust of mörg egg og var hún því blás­in af,“ seg­ir Katrín. 

Þá var þeim ráðlagt að prófa gla­sa­frjóvg­un (IVF). Fyrstu til­raun­ina gerðu þau í októ­ber það ár. Þá náðust aðeins fjög­ur egg, en venju­lega er miðað við að um 15 egg ná­ist. Af þess­um fjór­um eggj­um frjóvguðust tvö egg og voru þeir sett­ir upp sam­dæg­urs. Katrín seg­ir að vana­lega séu fóst­ur­vís­ar sett­ir upp eft­ir fimm daga, en að það sé aðeins gert þegar fleiri egg ná­ist. 

Katrín á von á lítilli stúlku í desember.
Katrín á von á lít­illi stúlku í des­em­ber. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Hvor­ug­ur fóst­ur­vís­ir­inn vildi festa sig og þurftu þau þá að hefja meðferðina upp á nýtt. Þá mætti þeim nýtt vanda­mál. Katrín varð fyr­ir harka­legri oförvun, en það þýðir að of mörg egg örv­ast og stækka. 

„Í mínu til­felli voru það 36 egg­bú sem voru tek­in í egg­heimtuaðgerðinni. Oft þýðir mik­ill fjöldi eggja minni gæði en við vor­um hepp­in að næsta dag höfðu 33 eggj­anna frjóvg­ast. Ég var mjög kval­in í tæpa viku í kring­um oförvun­ina þar sem eggja­stokk­arn­ir tveir voru hvor um sig 12 sentí­metra lang­ir í stað 3 sentí­metra eins og þeir eru vana­lega og þrýstu á öll líf­færi og önd­un­ar­færi. Mag­inn og eggja­stokk­arn­ir fyllt­ust einnig vökva vegna horm­ón­anna og fór ég í litla aðgerð þar sem tappað var af 600 ml vökva tveim­ur dög­um eft­ir egg­heimt­una,“ seg­ir Katrín. 

Hún seg­ir kval­irn­ar þó hafa borgað sig því úr urðu sex heil­brigðir fóst­ur­vís­ar sem fóru í frysti. 

„Einn þeirra var sett­ur upp rúm­um mánuði síðar þegar ég hafði jafnað mig af oförvun­inni og sá fóst­ur­vís­ir er litla stelp­an sem ákvað að halda sér fast í mig og sit­ur þar enn,“ seg­ir Katrín.

Óviss­an óbæri­leg

Spurð hvort eitt­hvað hafi komið á óvart í ferl­inu seg­ir Katrín að það hafi bara allt komið á óvart og í raun geti maður ekki með nokkru móti und­ir­búið sig fyr­ir svona ferli. Hún hafi vitað að þetta yrði dýrt og erfitt, en ekki jafn erfitt fyr­ir and­legu hliðina og raun bar vitni.

„Auka­verk­an­ir lyfj­anna voru eitt, en enda­laus nei­kvæð þung­un­ar­próf og óviss­an að vita ekki hvort þetta myndi nokk­urn tíma ganga var óbæri­leg. Einnig var ótrú­lega erfitt að vera jafn opin og ég er á sam­fé­lags­miðlum en segja ekki frá þess­um risa­stóra parti af líf­inu fyrr en eft­ir á. Það var mik­ill létt­ir þegar ég loks­ins til­kynnti ólétt­una og byrjaði að tala um allt,“ seg­ir Katrín. Hún er einn vin­sæl­asti áhrifa­vald­ur lands­ins með rúm­lega 27 þúsund fylgj­end­ur áIn­sta­gram.

Katrín segir allt við tæknifrjóvgunarferlið hafi komið á óvart. Eina …
Katrín seg­ir allt við tækni­frjóvg­un­ar­ferlið hafi komið á óvart. Eina sem hún vissi var að þetta yrði dýrt og erfitt. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Trú­ir ekki enn að hún sé ólétt

Þrátt fyr­ir að Katrín sé hálfnuð á meðgöng­unni seg­ist hún varla enn trúa því að hún sé ólétt. Hún seg­ir að þetta sé þó allt að verða raun­veru­legra með hverri vik­unni sem líður en að hún hafi átt mjög erfitt með að njóta þessa ð vera ólétt. 

„Ég hef verið svo ótrú­lega hrædd um að missa barnið. Þegar ég fékk já­kvæða prófið varð ég svo glöð en á sama tíma svo ótrú­lega hrædd og stressuð. Ég leyfði mér samt að vera glöð all­an dag­inn og hugsa að ég væri ólétt þrátt fyr­ir að aft­an í hausn­um væri alltaf hræðslan við að þetta væri ekki raun­veru­legt og yrði hrifsað frá mér,“ seg­ir Katrín. 

„Ég þráði bara þetta mó­ment, að vera ein af þess­um óléttu kon­um, fá bumbu, gera baby wish list á Amazon, tala um börn og fá morgunógleði og óléttu­ein­kenni. Þegar lífið hef­ur snú­ist um að verða ólétt­ur veit maður ekk­ert hvernig manni á að líða þegar maður er loks­ins orðinn ólétt­ur,“ seg­ir Katrín og bæt­ir við að hún leggi sig nú fram við að njóta ólétt­unn­ar en að stund­um líði henni hrein­lega eins og hún sé að ljúga að fólki að hún sé ólétt. „Ég vona að þetta verði raun­veru­legra þegar ég fer að finna hreyf­ing­ar frá stelp­unni.“

Gerði allt eft­ir „bók­inni“

Spurð um ráð til þeirra sem einnig glíma við ófrjó­semi seg­ir Katrín besta ráðið vera að átta sig á að maður get­ur ekki stjórnað öllu. „Ég er verk­fræðing­ur og er svo­lítið kassa­laga að því leyti að ég er vön að horfa á vanda­mál, greina þau og finna lausn­ir til þess að leysa þau. En á ófrjó­sem­inni er eng­in lausn,“ seg­ir Katrín.

Hún brotnaði al­gjör­lega niður þegar hún fékk nei­kvætt óléttu­próf fjór­tán dög­um eft­ir að fyrstu fóst­ur­vís­arn­ir voru sett­ir upp hjá henni. Fyr­ir þessa fyrstu gla­sa­frjóvg­un gerði hún „allt 100% eft­ir bók­inni“ en samt tókst það ekki. 

„Ég var með blóðsyk­ur­mæli og passaði mig að blóðsyk­ur­inn færi aldrei upp fyr­ir eðli­leg mörk. Ég fór ekk­ert í cross­fit, fór ein­ung­is út að ganga og í yoga eins og Google vin­ur minn sagði mér. Ég mani­festaði, hug­leiddi, fór í nála­stung­ur, svaf full­kom­lega, passaði skjá­tíma og og og... Þrátt fyr­ir að ég „gerði allt rétt“ fékk ég nei­kvætt þung­un­ar­próf 14 dög­um síðar og gjör­sam­lega brotnaði niður. Ég var á sama tíma ný­bú­in að missa bróður minn og átti því mjög erfiða mánuði í kjöl­farið með hitt allt í ofanálag,“ seg­ir Katrín. 

Fyr­ir seinni gla­sa­frjóvg­un­ina ákvað hún að reyna að fara með annað hug­ar­far inn í ferlið. Halda áfram að mæta í cross­fit og ekki stressa sig á mataræðinu. Hún seg­ir það hafa gert mjög mikið fyr­ir and­legu heils­una. „Það gerði meðferðina sjálfa og biðina eft­ir próf­inu mun bæri­legri og endaði svo með já­kvæðu þung­un­ar­prófi þrátt fyr­ir að hafa ekki verið „full­kom­in“,“ seg­ir Katrín. 

Annað ráð sem hún fékk frá vin­konu sinni, sem einnig glím­ir við ófrjó­semi og þurfti fjó­ar­ar upp­setn­ing­ar á frosn­um fóst­ur­vísi til þess að eign­ast litlu stelp­una sína var að þetta væri ekki spurn­ing um hvort held­ur hvenær

„Það hélt mér líka gang­andi í gegn­um þetta allt. Maður verður bara að treysta ferl­inu og lík­am­an­um og ekki missa von­ina því mikið meira get­ur maður ekki haft áhrif á. Það er einnig mik­il­vægt að hlúa vel að sjálfu sér í þess­um leiðangri því þessi leiðang­ur get­ur því miður tekið mik­inn toll af and­legri heilsu.“

„Ég er verkfræðingur og er svolítið kassalaga að því leyti …
„Ég er verk­fræðing­ur og er svo­lítið kassa­laga að því leyti að ég er vön að horfa á vanda­mál, greina þau og finna lausn­ir til þess að leysa þau. En á ófrjó­sem­inni er eng­in lausn,“ seg­ir Katrín. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Fagn­ar hverju óléttu­ein­kenni

Katrínu hef­ur lík­am­lega liðið vel á meðgöng­unni en seg­ist þó fagna hverju óléttu ein­kenni. „Mér var óglatt fyrstu 14 vik­urn­ar á morgn­ana, hef verið með mikið kvef og sofið illa síðan ég varð ólétt en ég fagna hverju óléttu­ein­kenni,“ seg­ir Katrín. 

Hún seg­ir óléttu­kvefið hafa komið henni mikið á óvart, enda hafi hún aldrei heyrt um það. Það er þó al­gengt. Hún seg­ist líka vera hissa á því að svefn­inn hafi strax farið í rugl á sjö­undu viku. 

„Ann­ars kem­ur ein­hvern veg­inn allt mér svosem á óvart þar sem allt sem ein­hvern veg­inn við kem­ur óléttu er mér svo óraun­veru­legt. Jú! Og það að ég þarf að hafa mig alla við að pissa ekki á mig þegar ég hnerra. Ég hélt það byrjaði fyrst eft­ir að barnið væri komið í heim­inn en það er al­deil­is ekki þannig.“

Katrín keppti lengi í fit­n­ess og hef­ur alltaf verið dug­leg að hreyfa sig. Hún hef­ur haldið áfram að hreyfa sig á meðgöng­unni og er þakk­lát fyr­ir að geta það. 

„Ég er í cross­fit og fer gjarn­an út að hlaupa og kynnti mér hvaða æf­ing­ar væru ekki hent­ug­ar fyr­ir ólétt­ar kon­ur og hef lagað æf­ing­arn­ar að því. Ég hleyp minna en ég var vön að gera en fer frek­ar út að ganga. Í cross­fit tek ég ekki jafn erfiðar æf­ing­ar og fyrr og eins lyfti ég ekki eins þungu. Ég tek sippa ekki og sleppi kassa­hoppi vegna álags­ins sem verður á grind­ar­botn­inn,“ seg­ir Katrín. 

Hún slepp­ir líka æf­ing­um eins og upphíf­ing­um, tær í slá og hand­stöðupress­um þar sem sveigj­an sem kem­ur á kviðinn er ekki góð fyr­ir kviðvöðvana og grind­ar­botn­inn. Hún seg­ir það vera ekk­ert mál að finna óléttu­væn­ar æf­ing­ar og vera með á æf­ing­um. 

Ófrjó­semi al­geng­ari en fólk held­ur

Katrín talað op­in­skátt um ófrjó­sem­ina og allt sem henni fylg­ir. Hún bend­ir á að ófrjó­semi sé svo miklu al­geng­ari en marg­ir halda og vill opna umræðuna. „Því meira sem við töl­um um hana, því venju­legri verður hún í dag­legu tali og því minna þarf að pæla í því hvernig maður tal­ar um hana,“ seg­ir Katrín. 

Hún seg­ir að margt í umræðunni geti verið trigger­andi fyr­ir fólk sem glím­ir við ófrjó­semi og seg­ir setn­ing­ar á borð við: „Ég þekki sko eina sem var búin að reyna ALLT en svo um leið og hún slakaði á, þá bara varð hún ólétt! Þú ætt­ir að slaka á, þá kem­ur þetta.“ og „Ég þekki aðra sem fór aldrei á túr en um leið og hún var búin að eign­ast sitt fyrsta barn eft­ir tækni­frjóvg­un þá bara fór allt í gang, hún fékk full­kom­inn tíðar­hring og varð ólétt nátt­úru­lega, það ger­ist pottþétt fyr­ir þig líka.“ geta verið mjög trigger­andi. 

Hún seg­ir líka að þó pör eigi eitt barn fyr­ir og séu í frjó­sem­isaðgerð þurfi ekki að benda þeim á að vera þakk­látt fyr­ir barnið sem það eigi fyr­ir. 

„Einnig er gott að til­kynna óléttu frek­ar í texta­skila­boðum held­ur en í per­sónu eða í myndsím­tali. Þá hef­ur ein­stak­ling­ur­inn sem er að glíma við ófrjó­semi það rými sem hon­um hent­ar að taka við frétt­un­um,“ seg­ir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda