Ljósmóðirin Embla Ýr Guðmundsdóttir hefur víðtæka reynslu í faginu enda starfað við fæðingar við Landspítalann í meira en áratug ásamt því að vera sérfræðingur í fæðingarhjálp og aðjúnkt við námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.
Í lok sumars mun Embla ásamt ljósmæðrunum Emmu Marie Swift, Edythe Mangindin og Stefaníu Ósk Margeirsdóttur opna Fæðingarheimili Reykjavíkur í nýjum búning.
Fyrstu kynni Emblu og Emmu voru í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem þær stunduðu báðar nám. Leiðir þeirra skildu svo í lok menntaskólagöngunnar þar sem þær fóru hvor í sína áttina, Embla í hjúkrunarnám og síðar í ljósmóðurnám og Emma í verkfræði. Emma flutti síðar til Bandaríkjanna þar sem hún ákvað að fara í ljósmæðranám.
„Emma fluttist svo til Íslands og fór að vinna sem lektor við námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands og þar var ég að vinna sem aðjúnkt. Þar hittumst við því aftur og vorum þá báðar með þennan draum og búnar að hafa lengi en aldrei talað mikið um það,“ segir Embla. „Við ákváðum svo að láta verkin tala og búa til fæðingarheimili.“
Á Fæðingarheimili Reykjavíkur geta konur og fjölskyldur þeirra fengið fjölbreytta þjónustu sem eflir bæði líkamlega og andlega heilsu þeirra. „Við ætlum okkur að bjóða samfellda og einstaklingsmiðaða þjónustu frá kynþroska til breytingaskeiðs. Þannig þjónustuform kennum við ljósmæðranemum að sé svo mikilvægt fyrir konur og fjölskyldur þeirra í barneignarferlinu og nú höfum við tækifæri til að láta verkin tala,“ segir Embla.
„Starfsemin verður fjölbreytt og styður við heilbrigði fjölskyldunnar allrar, svo sem nudd og sjúkraþjálfun, fjölskylduráðgjöf, jóga og fleira. Teymi ljósmæðra og annarra fagaðila veitir þannig alhliða fræðslu og þjónustu af virðingu og á forsendum fjölskyldnanna.“
„Við fundum alveg dásamlegar ljósmæður, fyrst þær Edythe og Stefaníu, sem voru með sömu sýn og við og ákváðum því að fara á fullt með þetta,“ segir Embla.
Síðasta árið hefur farið í það að finna húsnæði fyrir Fæðingarheimilið, en nú hafa ljósmæðurnar fundið hið fullkomna húsnæði við Hlíðarfót 17. „Húsnæðið er á frábærum stað, nálægt Landspítalanum og svo er þetta fallegt rými inn í íbúðarbyggð sem okkur þótti mikilvægt.“ Embla segir þær hafa viljað forðast að hafa stofnanalegan brag, bæði á húsnæðinu og umhverfinu og vinna nú hörðum höndum að því að gera húsnæðið notalegt og heimilislegt, en nú þegar hafa konur skráð sig sem ætla að fæða á Fæðingarheimilinu í lok sumars og í haust.
„Við viljum gera þetta að fallegu og góðu umhverfi svo konum líði vel strax þegar þær koma,“ segir Embla, en fjölmargir fagaðilar koma nú að hönnun hússins. „Ég hreinlega vissi ekki að það væru til svona margir hönnuðir. Við erum að fá hljóðhönnuð, brunahönnuð, lýsingarhönnuð og svo hefur Berglind Bendsen, innanhússarkitekt verið að hjálpa okkur mikið, hún er alveg frábær og allir sem hafa komið að þessu verkefni með okkur. Maðurinn minn, Daníel Freyr hefur einnig hjálpað okkur og mun halda áfram að gera það.“
„Þegar við svo opnum í lok sumars er ætlunin að vera með tvær fæðingarstofur, ráðgjafaherbergi ásamt jóga- og fyrirlestrarsal. Við erum byrjaðar að sanka að okkur samstarfsaðilum og erum meðal annars með fjölskyldufræðing, ljósmæður sem sérhæfa sig í breytingaskeiðinu og brjóstgjafar- og getnaðavarnaráðgjöf, jógakennara, nuddara, iðjuþjálfa, sálfræðinga, kírópraktora og sjúkraþjálfara,“ segir Embla.
Á árunum 1960 til 1995 var Fæðingarheimili Reykjavíkur starfrækt á horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu. „Við höfðum alltaf vitað af gamla fæðingarheimilinu en þar átti sér stað framúrstefnuleg ljósmæðraþjónusta. Á fæðingarheimilinu var mikið gert fyrir konur og fjölskyldur þeirra sem þangað leituðu og voru þau óhrædd við að veita þjónustuna sem þau vildu veita, sem er einmitt það sem við viljum gera. Við erum því að taka það og þær ljósmæður sem þar unnu okkur til fyrirmyndar og í leiðinni að heiðra það nafn,“ segir Embla.
„Elínborg, fyrrum yfirljósmóðir á gamla Fæðingarheimilinu hefur verið okkur mikið innan handar og er einn af ráðgjöfum okkar. Okkur langaði í raun að taka við keflinu og halda áfram með þetta góða starf sem átti sér stað þar, en samt með okkar brag líka.“
Aðspurð segir Embla helstu trendin í kringum barneignir fara eftir umræðunni hjá barnshafandi konum hverju sinni. „Það er alltaf einhver umræða, en það sem er svo mikilvægt er að konur séu upplýstar um alla þá valkosti sem þeim býðst og að þær séu ekki bara að fá einhliða upplýsingar.“ Hún segist helst taka eftir því að konur séu betur upplýstar í dag. „Það er að hluta til útaf Internetinu, þær eru oft í mömmu- og bumbuhópum á Facebook þar sem þær eru að tala saman um hvað er í gangi. Þar að auki eru konur að sækja sér þjónustu utan Landspítalans í auknum mæli, þær eru að sjá að það er líka eitthvað annað í boði.“
„Okkur þykir mikilvægt að konur geti tekið upplýst val í barneignarferlinu af því þetta getur verið flókið. Sumar konur vita ekki um alla valkosti á meðan aðrar hafa það vald einhvern veginn. Síðan er misjafnt hvernig konur geta lesið í upplýsingarnar sem þær nálgast á netinu,“ segir Embla.
Aðspurð segir Embla ákveðinn óvissuþátt fylgja fæðingum. „Við vitum ekki alveg hvernig fæðingin verður. Það er um að gera að hafa einhverja ákveðna sýn, sjá eitthvað ákveðið fyrir sér og stefna að einhverju, en á sama tíma er mikilvægt að vita að maður getur tekið aðrar leiðir í þessu ferli og það er alls ekki verra. Ef áfangastaðurinn er að þér líði vel, sért örugg og með barnið í fanginu þá skiptir það í raun og veru ekki öllu máli þó maður breyti út frá þeim óskum sem maður hafi í upphafi.“
Embla segir mikilvægt að hafa opið á alla valkosti, og að taka ákvörðun í gegnum allt ferlið. „Það sem skiptir mestu máli er að líða vel á öllum stigum ferlisins. Ef þér líður illa, talaðu þá við ljósmóðurina þína sem getur brugðist við þörfum þínum og þá er hægt að finna út úr einhverju sem hjálpar þér að líða betur og fæðingin gengur þannig betur fyrir sig.“
„Ef konur hafa ákveðnar væntingar til fæðingarinnar og ná ekki að mæta þeim geta þær orðið fyrir vonbrigðum. Þá er auðvelt að finnast svolítið eins og þú hafir brugðist eða að einhver hafi brugðist þér. Mér finnst mikilvægt að konur undirbúi sig þannig að þær hafi raunhæfar væntingar til fæðingarinnar, að þeim líði vel, að þær upplifi stjórn og eigi fallegar minningar af fæðingunni sinni. Það sem skiptir mestu máli í þessu öllu er að maður fái þann stuðning sem maður þarf á að halda, hvort sem það er frá ljósmóðurinni, stuðningsaðila, maka eða einhverjum öðrum,“ segir Embla.
Hún segir það oft vera mikinn kost að vera með ljósmóður sem maður þekkir og hefur hitt áður á meðgöngunni. „Það er þjónusta sem kallast samfelld þjónusta í barneignarferlinu og hefur sýnt sig í rannsóknum að sé mjög dýrmætt fyrir konuna. Þannig upplifir hún sig örugga, fær það sem hún þarf, líður betur í fæðingunni og fæðingin gengur betur.“
„Ljósmæður njóta einnig góðs af því að þekkja konuna sem er að koma í fæðingu til þeirra. Það að þú vitir hvað hún vill og þarf, hvað hún óskar sér og hvernig týpa hún er hjálpar til. Í framhaldinu sinnir þú henni og fjölskyldunni kannski líka eftir fæðinguna í heimaþjónustunni, en þetta er þá orðið ákveðið form af þjónustu sem er ekki mikið í boði hérlendis. Ljósmæður eru mikið að reyna að berjast fyrir þessu þjónustuformi því það hefur sýnt sig að þetta er mjög farsælt fyrir fjölskylduna, sem er einmitt það sem við viljum gera hjá Fæðingarheimilinu og hlökkum til að geta boðið upp á.“