Leikkonan og leikstjórinn Olivia Wilde hafði betur gegn barnsföður sínum, leikaranum Jason Sudeikis, í fyrstu umferð í forræðisdeilu þeirra. Page Six greinir frá.
Dómari komst að þeirri niðurstöðu að málið yrði tekið fyrir í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, en ekki New York ríki, þar sem Kalifornía væri heimaríki barnanna. Wilde og Sudeikis eiga saman tvö börn, þau Otis og Daisy sem eru 8 og 5 ára.
Bæð vilja þau hafa fullt forræði yfir börnum sínum. Wilde vill búa í Los Angeles hluta árs og í Lundúnum á Bretlandi hluta árs, þar sem kærasti hennar, tónlistarmaðurinn Harry Styles býr. Sudeikis vill að börnin dvelji hjá honum í New York borg.
Af þeim sökum fór Sudeikis fram á að málið yrði tekið fyrir í New York ríki en ekki í Kaliforníu.
Sudeikis og Wilde voru trúlofuð en hættu saman í nóvember 2020. Stuttu eftir sambandsslitin var samband Wilde og Harrys Styles opinbert.