Shivon Zilis, stjórnandi hjá Neuralink, sagði við að minnsta kosti fimm samstarfsmenn sína að hún hafi ekki átt í ástarsambandi við Elon Musk, forstjóra Tesla og Space X. Tvíburarnir sem hún eignaðist með honum hafi verið getnir með tæknifrjóvgun.
Greint var frá því fyrr á þessu ári að Musk hefði eignast tvíburana með Zilis, en hún er undirmaður hans. Tvíburarnir komu í heiminn í nóvember á síðasta ári.
Reuters greinir frá því að samstarfsmennirnir hafi haft þetta eftir Zilis en náðu ekki að staðfesta beint að um tæknifrjóvgun hafi verið að ræða.
Mikið hefur verið fjallað um þá ákvörðun Musk að eignast börn með undirmanni sínum í bandarískum fjölmiðlum. Sambönd yfirmanna og undirmanna eru ekki vel liðin innan Neuralink og í starfsmannahandbók er starfsfólki alfarið ráðið frá því.
Samband Musk og Zilis þykir svo óhefðbundið að sérfræðingar sem Reuters ræddi við voru ekki sammála um hvort Musk hafi brotið reglur með því að eignast börn með undirmanni sínum með tæknifrjóvgun.