Leikkonan Jennifer Lawrence er búin að gera nafn frumburðar síns opinbert. Litli drengurinn, sem kom í heiminn fyrr á þessu ári, fékk nafnið Cy.
Lawrence greindi frá þessu í viðtali við Vogue, en hún prýðir forsíðu tímaritsins í október. Cy litli heitir eftir liastamanninum Cy Twombly, sem er uppáhaldslistamaður Cooke Marone, pabba Cy litla.
„Það er eitthvað svo ógnvænlegt að tala um móðurhlutverkið. Aðallega af því það er svo ólík upplifun fyrir alla,“ sagði leikkonan í viðtalinu.
Hún segir að margar vinkonur hennar hafi verið mjög heiðarlegar við hana þegar þær ræddu um móðurhlutverkið og fannst henni það gefa henni góðan undirbúning. „Sumar sögðu mér að þær hefðu ekki fundið tengingu við barnið samstundis og ekki orðið ástfangnar af því um leið. Þannig ég var tilbúin til að fyrirgefa sjálfri mér,“ sagði Lawrence en segir að það hafi svo ekki verið raunin, hún hafi elskað Cy litla frá fyrstu sekúndu.
„Morguninn eftir að ég fæddi hann leið mér eins og líf mitt hefði byrjað upp á nýtt. Eins og í dag væri fyrsti dagur lífs míns. Ég var bara svo ástfangin. Ég varð líka ástfangin af öllum börnum allsstaðar. Nýburar eru bara svo magnaðir. Þessar litlu, bleiku og bólgnu hetjur. Núna elska ég öll börn. Ef ég er á veitingastað og heyri barn gráta, þá hugsa ég til barnsins,“ sagði Lawrence.