Raunveruleikastjarnan Kourtney Kardashian og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Travis Barker, eru lengi búin að reyna að eignast barn saman, en þau eiga bæði börn úr fyrri samböndum. Þau hafa talað opinskátt um frjósemismeðferðir sem þau hófu síðasta sumar, en nýlega sagði Kourtney frá vegferðinni í viðtali hjá WSJ.
„Við hófum glasafrjóvgunarmeðferð, en ég hætti. Þetta var of mikið. Ég tók mér pásu til að einbeita mér að brúðkaupinu okkar,“ sagði Kourtney, en hjónin hafa áður greint frá því hve mikið meðferðirnar höfðu reynt á Kourtney, bæði andlega og líkamlega.
Þó Kourtney hafi hætt í meðferðinni hafa þau ekki lagt barneignir á hilluna, en í haust munu þau fara í hreinsun sem kallast Ayurvedic Panchakarma. Þeir sem hafa horft á Kardashian-þættina kannast líklega við meðferðina úr síðustu þáttaröð, en meðferðinni fylgir meðal annars kynlífsbann.
„Ekkert kynlíf, ekkert koffín, ekkert áfengi, enginn sykur. Þú verður að borða mjög hreina fæðu og fylgja ströngu mataræði. Þetta gerir þú í fimm daga,“ útskýrir Kourtney. Þau fara einnig í meðferð í heilsulind á hverjum degi í fjórar klukkustundur yfir fimm daga, en Kourtney segir meðferðina eiga að endurstilla líkamann.
„Ég gerði þetta aðallega til að hreinsa líkama minn í von um að eignast barn,“ sagði Kourtney. Aðspurð hvort meðferðin væri erfið svaraði hún játandi, en hún segir ávinninginn af meðferðinni vera vel þess virði.