30 ár milli elsta og yngsta barnsins

Feðgarnir Þórarinn Þórarinsson og Guðjón Bergur. 50 ár eru á …
Feðgarnir Þórarinn Þórarinsson og Guðjón Bergur. 50 ár eru á milli feðganna.

Þórarinn Þórarinsson blaðamaður var nýorðinn fimmtugur þegar hann eignaðist yngsta barnið sitt með unnustu sinni, Theódóru Björk Guðjónsdóttur. Hann er þakklátur fyrir að sonurinn, Guðjón Bergur, leyfi veðruðum föður sínum að sofa á næturnar þótt honum finnist dapurlegt að pabbinn verði 70 ára þegar sonurinn verður tvítugur.

Þórarinn segist hafa þurft að hugsa sig töluvert um áður en hann og unnsta hans ákváðu að eignast barn. Hann átti fyrir fjögur börn með fyrri barnsmæðrum og segir að það sé töluvert öðruvísi að eignast barn um tvítugt eða um fimmtugt. 30 ár eru á milli elsta og yngsta barnsins en Guðjón Bergur er nú sex mánaða.

„Þar sem 30 ár eru á milli elsta barnsins míns og þess yngsta hlýt ég að hafa ágætis samanburð og auðvitað munar mestu um lífsreynsluna. Maður hefur gengið í gegnum alla skelfinguna og óttann áður og bregst frekar fumlaust og yfirvegað við flestu sem kemur upp á. Ólíkt því sem áður var er maður því ekki í krónísku taugaáfalli og síhringjandi í mömmu með endalausar áhyggjur af barninu.

Síðan er maður auðvitað miklu rólegri. Djammið kallar ekki lengur og það er ekki upp á líf og dauða að fá pössun í tíma og ótíma. Enda er toppurinn á tilverunni bara að vera heima og njóta þess að vera með barninu. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að maður er betur í stakk búinn efnahagslega til þess að eiga barn. Ég hef að minnsta kosti ekki enn þurft að slá foreldra mína um lán eða rjúka með dósir í Sorpu til þess að geta keypt bleyjur,“ segir Þórarinn.

Þórarinn segir að eini gallinn sé að hann verði 70 …
Þórarinn segir að eini gallinn sé að hann verði 70 ára þegar Guðjón Bergur verður 20 ára.

Upplifði menningarsjokk þegar frumburðurinn fæddist

Þegar hann er spurður að því hvort hann hafi annan skilning á föðurhlutverkinu núna en þegar hann var tvítugur segir hann svo ekki vera.

„Nei, í rauninni ekki, enda breytist það aldrei. Auðvitað fær maður einhvers konar menningarsjokk þegar maður stendur í fyrsta skipti andspænis manneskju sem maður elskar meira en sjálfan sig. Það venst hins vegar fljótt og aldurinn breytir því ekki að tilfinningarnar eru alltaf þær sömu. Rétt eins og skyldurnar og ábyrgðin þannig að maður heldur bara áfram að reyna að gera sitt besta,“ segir Þórarinn.

Þurftir þú að hugsa þig um hvort þú værir orðinn of gamall til að eignast barn áður en yngsta barnið varð til?

„Já, já. Það hvíldi þungt á mér og gerir eiginlega enn og þá helst bara að ég vorkenni barninu mínu voðalega að eiga svona gamlan pabba. Ég hef upplifað það að vera í hópi yngstu foreldranna á fundum og skemmtunum í grunnskóla og fannst ég bara ferlega kúl. Að sama skapi finnst mér ég óbærilega hallærislegur í sömu aðstæðum núna. Þótt, eða kannski vegna þess, að ég mæti enn í sama leðurjakkanum og ég gerði fyrir tuttugu árum.

Síðan fylgir því talsverð sálarangist að vita að mér mun aldrei endast aldur til þess að fylgja litla stráknum mínum jafn langt inn í lífið og eldri krökkunum. Frumburðurinn er að verða þrítugur og ég er 51 árs. Það er nokkuð góð tölfræði en verra, eins og mér hefur verið bent á, að við Guðjón Bergur getum slegið saman sjötugsafmæli og stúdentsveislu þegar og ef þar að kemur og mér endist aldur til,“ segir hann og hlær.

Höggið kemur á gelgjunni

Hvað hefur reynst þér best í föðurhlutverkinu?

„Að líta fyrst og fremst á börnin mín sem vini mína og teygja mig frekar inn í þeirra hugarheim frekar en öfugt. Gera þeirra áhugamál að mínum eða finna einhver sem við getum sameinast um. Mér hefur reynst þetta afskaplega auðvelt. Kannski vegna þess að „það er svo gaman að eiga barnalegan pabba“, eins og dóttir mín, sem er að verða fjórtán ára, benti mér á fyrir nokkrum árum.

Hvað sem mínum eigin barnaskap líður þá hefur þetta alltént reynst mér, og vonandi börnunum mínum, best. Höggið er samt alltaf þungt þegar þau fara á gelgjuna og gengisvísitalan á félagsskap manns og samverustundum fer í frjálst fall. Þá er aftur á móti huggun harmi gegn að ef vinátta er grunnurinn í sambandi barns og foreldris þá heldur hún bara áfram að dýpka og styrkjast þegar barnið fullorðnast.“

Þegar Þórarinn er spurður út í uppeldisráð og hvort hann lumi á einhverjum slíkum segir hann að það skipti máli að það ríki traust á milli foreldra og barna.

„Barnið setur að sjálfsögðu allt sitt traust á foreldrana í upphafi. Gullna reglan, sem fyrsta barnsmóðir mín hamraði inn í hausinn á mér, verður stöðugt mikilvægari eftir því sem barnið verður eldra.

„Að líta fyrst og fremst á börnin mín sem vini …
„Að líta fyrst og fremst á börnin mín sem vini mína og teygja mig frekar inn í þeirra hugarheim frekar en öfugt.“

Reglan er einfaldlega sú að foreldri má aldrei bregðast trúnaði barnsins. Traustið milli barns og foreldris á auðvitað helst að vera gagnkvæmt en krakkarnir hafa, ólíkt okkur foreldrunum, meðfæddan rétt til þess að láta reyna á það, sveigja það og beygja á meðan þau þreifa fyrir sér hvar mörkin liggja. Þá reynir á foreldrana,“ segir hann.

Hvernig finnst þér að við ættum að ala börn upp þannig að við skilum þeim sem bestu veganesti inn í fullorðinsárin?

„Ég held að djúpstæðasti ótti hvers foreldris hljóti að vera tvíþættur; að einhver geri barninu mínu eitthvað illt, eða að það muni valda einhverjum skaða. Þetta getur í raun orðið svo lamandi og djúpstæður ótti að ég skil stundum ekki hvernig okkur dettur í hug að taka þá áhættu að eignast börn.

Við gerum það nú samt, án nokkurrar tryggingar fyrir því að þau sem við elskum skilyrðislaust komist ósködduð í gegnum lífið, en ég reyni í það minnsta að innræta þeim gildi sem vonandi lágmarka hættuna á að þau verði gerendur eða þolendur.“

Hvað hefur það gefið þér að verða pabbi þegar þú ert 50 ára?

„Framlengingu á æskunni? Nei, ég veit það ekki en mér sýnist þetta nú alveg til þess fallið að halda manni ungum og þótt ég sé logandi hræddur við þetta þá held ég að það sé ómetanlegt að fá að uppgötva heiminn og lífið enn og aftur upp á nýtt með augum barnsins míns. Strákurinn gerir hvern dag að ævintýri hjá okkur og maður er alltaf að finna eitthvað nýtt. Kannski hefur heimurinn breyst svona mikið eða kannski bara maður sjálfur. Hvort heldur sem er þá er þetta spennandi, dálítið ógnvekjandi en ómótstæðilegt ævintýri,“ segir hann.

Finnur meira fyrir barnastússinu núna en fyrir 30 árum

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú varðst pabbi á þessum aldri?

„Kannski bara hvað þetta er í raun lítið mál og það fallega og góða við þetta núllar út áhyggjurnar og kvíðann. Ég nýt þess auðvitað samt að drengurinn er rólegur á næturnar og leyfir lúnum og veðruðum pabba sínum að sofa óslitið í einhverja klukkutíma. Þetta stúss allt tekur þó óneitanlega meira á líkamlega núna en 1992 en það hefur komið skemmtilega á óvart að ég er hvorki alveg farinn í bakinu né öllum liðamótum,“ segir hann og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda